Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

Fimmtudaginn 08. desember 2005, kl. 16:14:45 (2958)


132. löggjafarþing — 39. fundur,  8. des. 2005.

Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

327. mál
[16:14]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég ætla eftir atvikum ekki að halda mjög langa ræðu en ég tel samt að nauðsynlegt sé að fara vel yfir þetta mál. Hér höfum við í höndunum dæmi um það hvernig þingið á ekki að vinna. Á sínum tíma lagði efnahags- og viðskiptanefnd töluvert mikla vinnu í að reyna að finna nýja leið í stað þess fyrirkomulags sem við sitjum uppi með núna. Við vorum sammála um það, ég og hv. þm. Pétur H. Blöndal, að það væri mjög fýsilegur kostur að skoða sjálfvirka ökurita. Það vakti fyrst og fremst fyrir mér að draga úr slysahættu. Ég lýsti alltaf yfir þeim tilgangi mínum að reyna að finna einfalda leið sem jafnframt yrði til þess að draga úr slysahættu. Það er vafalaust ein mesta hætta sem búin er fjölskyldufólki á sumarferðalagi hér á Íslandi að lenda í árekstri við þá stóru bíla sem aka landið þvert og endilangt að flytja fisk og hvað eina sem nauðsynlegt er til þess að smyrja hjól efnahagslífsins. En þeir sem lenda í slíkum árekstri þurfa yfirleitt ekki um sárt að binda. Við vitum að það eru einmitt árekstrar á vegum úti, árekstrar milli fólksbíla og þessara stóru bíla, sem valda hvað mestu manntjóni á Íslandi. Þess vegna er eftirsóknarvert að reyna að finna kerfi sem hægt er að beita til þess að stýra umferð stóru bílanna á tíma sólarhrings þegar minni líkur eru á að venjulegt fjölskyldufólk sé í akstri.

Ökuritarnir hefðu haft þann ávinning í för með sér að hægt hefði verið að setja upp fyrirkomulag um mismunandi gjald eftir tíma sólarhrings. Ég veit að þingmenn, bæði aldnir og ungir, eins og hv. þm. Birkir J. Jónsson sem ekur mikið um vegi landsins, og er líka einn af þeim sem hefur talað fyrir aðgerðum til þess að draga úr slysahættu, hljóta að taka undir með mér í þessum efnum eins og allir hv. þingmenn efnahags- og viðskiptanefndar gerðu þegar þetta mál kom til umræðu.

Það var helst talið málinu að vanbúnaði að hinn sjálfvirki ökuriti væri ekki tæknilega reiðubúinn. Nú vill svo til, frú forseti, að þarna áttu Íslendingar alveg stórkostlegt tækifæri. Ekkert land var komið jafnlangt í að þróa þennan búnað en einmitt Íslendingar. Hv. þm. Pétur H. Blöndal hélt því fram í ræðu sinni að þessi tækni væri ekki fullþróuð. Hún er það núna. Hv. þingmaður þarf ekki annað en að taka upp síma og tala við þá ágætu ungu menn sem hafa starfað að þróun þessarar tækni á síðustu árum.

Ef Íslendingar hefðu borið gæfu til þess að fara að tillögum okkar þingmanna sem vildum taka þetta upp fyrir tveimur árum hefðum við fengið forskot sem hefði að öllum líkindum gert okkur kleift að hefja útflutning á þessari tækni og líka vélbúnaðinum sem henni fylgir. Það hefði orðið stórkostleg lyftistöng fyrir hátækniiðnað á Íslandi. Það hefði líka orðið til þess að hægt hefði verið að setja upp mjög einfalt kerfi í stað þess flókna kerfis sem við höfum núna. Það sem þó skiptir mestu máli frá mínum bæjardyrum séð er að verulega hefði dregið úr slysahættu. Það er það sem skiptir máli.

Ég sagði í upphafi að þetta væri dæmi um að þingið hefði ekki unnið vel. Þó að það hafi verið yfirlýstur vilji þingmanna á sínum tíma, og ég held nefndarinnar allrar, að skoða þetta út í hörgul var þeirri vinnu hætt á einum eftirmiðdegi vegna þess að fyrirskipanir bárust frá hæstv. fjármálaráðherra um að klára málið með öðrum hætti. Málið hafði þá velkst um fjörur Alþingis í hartnær áratug vegna þess að það hafði alltaf verið mikil vantrú á þessari aðferð. Menn sögðu að þetta kerfi væri betra en hitt og yrði einfaldara en því miður hefur komið í ljós að það er miklu flóknara en menn óraði fyrir. Þetta kerfi er hundónýtt og við sjáum það á þeim breytingartillögum sem liggja hér fyrir og fleiri tillögum sem eiga eftir að koma frá stjórnarliðinu að það þarf stöðugt að plástra þetta kerfi til þess að það gangi upp.

Það kerfi sem Samfylkingin lagði til var tæknilega best í stakk búið til þess að klára þetta. Sú tækni hefði dregið úr slysahættu og sú tækni hefði verið einfaldari í framkvæmd. En þetta er nú sennilega bara upphafið á minni ræðu um þetta því að málið er flókið og yfirgripsmikið og þarf auðvitað að fara dýpra í það. Ég veit ekki alveg hvort ég tek mikinn tíma í það núna en þó berast mér hvatningar um að gera málinu góð skil. Hins vegar verð ég líka að segja að það er margt í þessu sem ég ekki skil, þar sem heilbrigð skynsemi kemur ekki heim og saman við veruleikann.

Á sínum tíma var talað sérstaklega um að það þyrfti að taka vel á hlut þeirra farartækja sem heyra undir almenningssamgöngur. Það er svo, og var í gamla kerfinu, að 80% af gjaldinu áttu að endurgreiðast vegna almannaökutækja. Að vísu er það rétt að í framkvæmd endurgreiðast 80% upp að ákveðnu marki en ekki virðisaukaskatturinn. Hvers konar vitleysa er þetta eiginlega? Getur hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar skýrt þetta út fyrir mér? Þetta er bara til marks um það hvað þetta er götótt og illa plástrað kerfi.

Ég vil líka koma því viðhorfi að, frú forseti, þó að ég ætli ekki að leggja fram tillögu um það núna, að mér finnst að endurskilgreina eigi þessi 80% sem eru endurgreidd til almenningsfarartækja. Ég er þeirrar skoðunar að leigubílar eigi að falla undir þetta líka. Leigubílar eru orðnir að almannasamgöngutækjum alveg eins og langferðabílar. Ástæðan er sú að ákveðnir þjóðfélagshópar nota þá mjög mikið, sérstaklega eldra fólk. Þetta mundi lækka verðið á þjónustunni og hjálpa eldri borgurum og við vitum það jú að hv. þm. Pétri H. Blöndal er alveg einstaklega annt um að aðstoða bæði eldri borgara og öryrkja, án þess að ég ætli að fara neitt frekar út í það núna.

Frú forseti. Staða þessa máls sýnir að varnaðarorð okkar sem vöruðum við því að þessi leið yrði farin hafa reynst á rökum byggð. Það kerfi sem við lögðum til hefði dregið úr slysahættu, einfaldað framkvæmd og sennilega hleypt af stokkunum nýjum iðnaði hér á Íslandi. Íslendingar voru lengst komnir með þessa tækni og segja má að umrætt símtal úr fjármálaráðuneytinu hafi í reynd skorið á þá tækni — þegar hv. þm. Pétur H. Blöndal lét skipa sér að hætta vinnu við þetta góða mál. Ég veit að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson er mér algjörlega sammála. Hann hefur alltaf lýst miklum efasemdum um núverandi fyrirkomulag þessa máls enda er hann með allra skynsömustu mönnum þegar kemur að þessum málaflokkum þó að ég vilji ekki veita honum þá einkunn í mörgum öðrum.