Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

Fimmtudaginn 08. desember 2005, kl. 16:29:52 (2962)


132. löggjafarþing — 39. fundur,  8. des. 2005.

Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

327. mál
[16:29]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég veit að hv. þingmaður hefur alltaf haft varann á sér, næstum því alltaf — ekki alltaf þó — þegar kemur að óhóflegri söfnun persónuupplýsinga. Ég minnist þess að ég var ósáttur við hv. þingmann þegar hann greiddi atkvæði með því að heimild yrði veitt — af því að hann nefnir hér lífsýni — til þess að greina erfðaefni í blóðsýni fólks sem kemur til vanabundinnar skoðunar í Blóðbankanum. Við ræddum þetta hér fyrir nokkrum árum og ég var ekki fullsáttur við afstöðu þingmanns í þeim efnum.

En það er rétt hjá hv. þingmanni að margvíslegar hættur felast oft í tækni sem er þróuð og beitt almennt til þess að bæta hag fólks. Eitt af því sem væri hægt að gera með þessu, en menn segja samt að falli undir verk stóra bróður, er að fylgjast með því hvort menn fari yfir óleyfilegan hraða. Það skiptir ákaflega miklu máli þegar um er að ræða þessi stóru og þungu ökutæki að hægt sé að grípa til hvers kyns ráða til þess að koma í veg fyrir það vegna þess að þau breytast í drápstæki um leið og þau eru komin á mikinn hraða. Þetta er einn af þeim ávinningum sem mundu fylgja þessum ökurita. Þetta var nú það sem ég vildi segja við hv. þingmann.

Ég deili áhyggjum hans af því að það sé stöðugt verið að koma hlutunum þannig fyrir að hægt sé að fylgjast með allt of mörgum þáttum í lífi manna. Auðvitað ættum við sameiginlega að reyna að reisa skorður við því. En þessi tækni er þannig úr garði gerð að það er hægt að koma í veg fyrir að ríkið taki til sín og skrái þær upplýsingar sem tveir hv. þingmenn óttast að yrði safnað. En jafnvel þó svo væri ekki finnst mér það minni háttar vankantur á þessu máli, það mundi ekki duga til þess að ég félli frá stuðningi við þessa aðferð. Ég ítreka hins vegar að það er hægt að girða fyrir þetta.