Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 26. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 26  —  26. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaga um gjaldfrjálsan leikskóla.

Flm.: Steingrímur J. Sigfússon, Jón Bjarnason, Kolbrún Halldórsdóttir,


Hlynur Hallsson, Ögmundur Jónasson.



    Alþingi ályktar að fela félagsmálaráðherra að skipa nefnd sem fái það verkefni að undirbúa og annast viðræður við sveitarfélögin um sameiginlegt átak þeirra og ríkisins um að gera leikskóladvöl gjaldfrjálsa í áföngum. Nefndin verði skipuð fulltrúum allra þingflokka og fulltrúa frá fjármálaráðuneyti, menntamálaráðuneyti og Félagi leikskólakennara auk formanns sem félagsmálaráðherra skipi án tilnefningar.

Greinargerð.


    Tillaga þessi hefur verið flutt á tveimur síðustu þingum, en varð í hvorugt skiptið útrædd. Tillagan er nú endurflutt óbreytt, en efni greinargerðarinnar er uppfært í samræmi við þróun þessara mála hjá sveitarfélögunum. Frá því að Vinstri hreyfingin – grænt framboð gerði baráttuna fyrir gjaldfrjálsum leikskóla að einu helsta baráttumáli sínu í aðdraganda síðustu alþingiskosninga hefur heilmikil þróun orðið í málefnum leikskóla. Þeim sveitarfélögum fjölgar ört sem þegar hafa tekið skref í átt að gjaldfrjálsum leikskóla og a.m.k. eitt dæmi er um sveitarfélag sem tekið hefur skrefið til fulls, þ.e. Súðavíkurhrepp. Til að afla upplýsinga um stöðu þessara mála hjá einstökum sveitarfélögum ákvað þingflokkur vinstri-grænna að skrifa öllum sveitarstjórnum í landinu bréf nú í haust, sjá fylgiskjal I, og eru þær upplýsingar sem borist hafa birtar með tillögunni sem fylgiskjal II. Rétt er að taka strax fram að þessar upplýsingar eru örugglega ekki tæmandi, en gefa þó nokkuð skýra mynd af því á hvaða hreyfingu málin eru.
    Félagsmálanefnd hefur haft efni tillögunnar til skoðunar undanfarna tvo vetur og í umsögnum sem nefndinni bárust um málið var yfirleitt tekið vel í meginefni tillögunnar. Eðlilega lögðu umsagnaraðilar á það áherslu að sveitarfélögin þyrftu að fá fullnægjandi tekjustofna til að takast á við verkefnið. Sú hefur að sjálfsögðu alltaf verið ætlun flutningsmanna, sbr. upphaflega greinargerð með tillögunni, á þskj. 4 í 4. máli 130. löggjafarþings, en ástæða er til að undirstrika mikilvægi þessa í ljósi bágrar afkomu sveitarfélaganna nú um stundir. Síðla árs 2004 tók Reykjavíkurborg fyrstu skrefin í átt til gjaldfrjáls leikskóla en frá 1. september 2004 hafa öll fimm ára börn átt kost á þriggja tíma leikskóladvöl á dag endurgjaldslaust (sjá fylgiskjal III, Gjaldskrá Leikskóla Reykjavíkur).
    Nokkuð er um liðið síðan leikskólinn var viðurkenndur sem fyrsta skólastigið og starfsheitið leikskólakennari var tekið upp. Þegar af þeirri ástæðu leiðir að fá haldbær rök eru til þess að foreldrar greiði dýrum dómum fyrir skólahaldið sjálft, þ.e. leikskólamenntun, á fyrsta skólastiginu en hætti því svo skyndilega þegar börnin hafa náð grunnskólaaldri. Í leikskólastefnu Félags leikskólakennara er tiltekið að „leikskólinn eigi að vera hluti af menntakerfi samfélagsþjónustunnar eins og önnur skólastig og því skuli sveitarfélög vinna markvisst að því að börnum gefist kostur á 6 tíma leikskólagöngu á dag án endurgjalds“. Að baki liggur það mat leikskólakennara að minnst sex klukkustundir á dag þurfi til að unnt sé að framfylgja ákvæðum aðalnámskrár leikskóla og sinna öllum námssviðum (hreyfingu, málrækt, myndsköpun, tónlist, náttúru og umhverfi, menningu og samfélagi), þannig að þetta skarist og sé samofið leik, daglegri umönnun og almennri lífsleikniþjálfun eins og vera ber.
    Niðurfelling leikskólagjalda yrði gríðarleg kjarabót fyrir fjölskyldur með ung börn. Sú kjarabót mundi skila sér beint til fjölskyldna sem eru í mikilli þörf fyrir betri aðbúnað. Um leið yrði tekið stórt skref í átt til fjölskylduvænna samfélags. Hér er um að ræða yngstu foreldrana sem jafnframt eru að koma sér fyrir í lífinu og margir að koma út úr skólum með námslán á bakinu, eru að leysa húsnæðismál sín o.s.frv. Mánaðarleg leikskólagjöld eru nú víðast hvar um og yfir 30 þús. kr. fyrir níu tíma á dag. Fjölskyldur með tvö börn á leikskóla borga yfirleitt um 50 þús. kr. á mánuði því að ekki er óalgengt að systkinaafsláttur sé 30–35% með öðru systkini. Dæmi eru um fjölskyldur sem borga upp undir 60 þús. kr. í leikskólagjöld á mánuði fyrir þrjú börn (systkinaafsláttur með þriðja barni 75%) og þarf slík fjölskylda um 100 þús. kr. viðbótartekjur á mánuði til að standa straum af útgjöldunum að teknu tilliti til skatta. Þess ber að geta að sérstakur afsláttur er yfirleitt veittur fyrir börn einstæðra foreldra og öryrkja og námsmenn greiða a.m.k. sums staðar nokkru lægra gjald. Í þessum efnum er þó talsverður munur milli sveitarfélaganna og þess eru jafnvel dæmi að lítill eða alls enginn greinarmunur sé gerður á gjöldum foreldra með tilliti til félagslegra aðstæðna. Til glöggvunar er gjaldskrá Leikskóla Reykjavíkur birt sem fylgiskjal með tillögu þessari en rétt er að hafa í huga það sem áður sagði um mismun milli sveitarfélaga.
    Ekki verður um það deilt að það er mikið jafnaðar og jafnréttismál í nútímasamfélagi að allir eigi kost á leikskóladvöl fyrir börn sín án tillits til efnahags. Flutningsmenn tillögunnar líta á breytingar í þessa átt sem lið í því að gera samfélagið fjölskylduvænna og styrkja undirstöður velferðar í landinu. Sérstök ástæða er til að huga að stöðu fjölskyldna nýrra Íslendinga í þessu sambandi.
    Nefnd sú sem tillagan gerir ráð fyrir að verði skipuð þarf í starfi sínu að móta stefnu um hvernig réttindi foreldra til leikskóladvalar barna sinna, eða eftir atvikum annarrar sambærilegrar og viðurkenndrar dagvistunar ef um hana er að ræða, verða látin haldast í hendur við skyldur sveitarfélaga til að fullnægja eftirspurn. Ljóst er að það mun óhjákvæmilega taka nokkurn tíma að gera leikskólastigið í heild sinni gjaldfrjálst og gera ráðstafanir til að fullnægja eftirspurn í takt við réttindi foreldra og skyldur sveitarfélaga samkvæmt hinni nýju skipan. Því er eðlilegt að verkefnið verði unnið í áföngum, t.d. með því að gera síðasta árið fyrir grunnskóla gjaldfrítt fyrst. Einnig er eðlilegt að veita sveitarfélögunum ákveðinn aðlögunartíma, þeim sem þess þurfa með, þar til þeim verði skylt að anna eftirspurn að fullu. Síðan koll af kolli uns því takmarki er náð að allt leikskólastigið, og eftir atvikum önnur sambærileg og viðurkennd dagvistun, sé gjaldfrjálst.

Tekjustofnar og kostnaður.
    Ljóst er að niðurfelling leikskólagjalda kallar á endurskoðun á tekjulegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga. Kostnaður sveitarfélaganna vegna leikskóla nam um 11,8 milljörðum kr. á árinu 2004 en á móti komu tekjur vegna leikskólagjalda upp á 3,3 milljarða kr., eða rétt um 28%. Þess ber að geta að með breyttum reikningsskilaaðferðum þar sem húsnæðiskostnaður reiknast með hækka kostnaðartölur nokkuð miðað við árin fram til 2001.
    Ljóst er að sveitarfélögin í landinu eru ekki aflögufær eins og afkomu þeirra er háttað heldur þvert á móti. Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa verið talsmenn þess að styrkja stöðu sveitarfélaganna og bæta fjárhag þeirra, t.d. með hlutdeild í fleiri og breiðari tekjustofnum en nú. Með auknu hlutverki á sviði velferðarmála og umhverfismála og sökum allrar þeirrar mikilvægu nærþjónustu sem sveitarfélögum er ætlað að inna af hendi er ljóst að barátta fyrir öflugu samábyrgu velferðarsamfélagi er um leið barátta fyrir því að sveitarfélögin hafi fjárhagslegt bolmagn og aðstöðu til að leysa hlutverk sitt vel af hendi. Af þeim sökum er gengið út frá því að tekjustofnar komi á móti þeim kostnaði sem sveitarfélögin bæta smátt og smátt á sig með niðurfellingu leikskólagjalda. Einnig gæti ríkið létt einhverjum verkefnum af sveitarfélögunum, t.d. greiðslu húsaleigubóta, en það er einmitt stefna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að þær verði færðar til ríkisins og inn í skattkerfið. Því fylgdi sá kostur að hægt væri að taka upp samræmd húsnæðisframlög þar sem samræma mætti á einum stað innan skattkerfisins vaxtabætur annars vegar og stuðning við leigjendur eða húsaleigubætur hins vegar. Útgjöld sveitarfélaga vegna húsaleigubóta urðu nálægt 980 millj. kr. árið 2002, 1.280 millj. kr. árið 2003, 1.460 millj. kr. árið 2004 og stefna í að verða um 1.600 millj. kr. á yfirstandandi ári samkvæmt endurskoðaðri áætlun. Ef ríkið tæki að fullu á sig kostnað vegna húsaleigubóta stæðu því eftir nálægt 1.700 millj. kr. sem bæta þyrfti sveitarfélögunum þegar leikskólagjöld hefðu verið felld niður í heild. Hver áfangi á leið til fulls gjaldfrelsis gæti þannig kostað einar 600–9.000 millj. kr. í aukin rekstrarútgjöld ef miðað er við að tekið yrði eitt ár í einu og fjöldi barna í leikskólum héldist svipaður. Með þessu er hins vegar ekki öll sagan sögð. Ljóst er að réttur til gjaldfrjálsrar leikskóladvalar og skyldur sveitarfélaga til að fullnægja eftirspurn þurfa að haldast í hendur. Verður því að gera ráð fyrir talsverðum stofnkostnaði til að anna aukinni aðsókn og samsvarandi auknum rekstrarkostnaði. Engin ástæða er til að draga dul á að um aukin útgjöld verður að ræða að því marki sem eftirspurn vex eftir leikskóladvöl samfara áföngum í átt til fulls gjaldfrelsis. Á móti kemur að um mikilsvert félagslegt og menntunarlegt framfaramál er að ræða. Ástæða er til að ætla að slíkum aðgerðum geti einnig fylgt þjóðhagslegt hagræði sem fram kæmi á öðrum sviðum, svo sem í aukinni framleiðni og samkeppnishæfni í atvinnulífinu. Mest um vert er þó að þetta er réttlætismál sem jafnar lífskjör og framkallar breytingar í átt til fjölskylduvænna samfélags. Hér er sem sagt á ferðinni aðgerð sem treystir undirstöður samábyrgs velferðarsamfélags í landinu og byggir það upp, en af slíku höfum við séð allt of lítið fjöldamörg undangengin ár. Hvað sem áformum um gjaldfrjálsan leikskóla líður hljóta tekjuleg samskipti ríkis og sveitarfélaga að verða til skoðunar á næstunni, þó ekki væri nema vegna þess að skuldasöfnun og bág afkoma of margra sveitarfélaga er vandamál sem taka verður á.
    Þess ber að lokum að geta að bæði hérlendis og erlendis má finna dæmi um hreyfingu í þá átt að draga úr eða fella niður gjaldtöku í leikskólum. Þannig er kveðið á um breytingar í þá veru í málefnasamningi Reykjavíkurlistans, núverandi meiri hluta í borgarstjórn Reykjavíkur, og er fyrsti áfanginn í þá átt þegar kominn til framkvæmda eins og áður sagði. Í Svíþjóð var ókeypis leikskóladvöl, a.m.k. fyrir eldri leikskólabörn, eitt af baráttumálum vinstri flokkanna í síðustu kosningum og eru fyrstu áfangar breytinga í þá átt nú að koma til framkvæmda þar í landi.
Fylgiskjal I.


Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar
– græns framboðs:


Bréf til sveitarstjórna í landinu.


(14. september 2005.)



    Efni: Fyrirspurn um málefni leikskólanna í sveitarfélögum landsins
    Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur undanfarin ár gert kröfuna um að leikskólinn verði gjaldfrjáls að sérstöku baráttumáli sínu. Þingflokkur VG hefur undanfarin tvö þing (130. og 131. löggjafarþing) flutt tillögu um samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaga um þetta mál, gjaldfrjálsan leikskóla í áföngum, sem eitt af fyrstu þingmálum sínum hvorn vetur. Í greinargerð tillögunnar hefur verið reynt að draga saman upplýsingar um umfang málsins og líklegan kostnað sem því yrði samfara. Einnig um stöðu málsins og framvindu meðal sveitarfélaganna sem allmörg hafa þegar tekið skref í þessa átt eða jafnvel stigið það til fulls. Þeirri þróun ber að fagna en um leið er ljóst að óviðunandi afkoma allt of margra sveitarfélaga takmarkar mjög möguleika þeirra til að hrinda slíkum framfaramálum úr vör.
    Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur því jafnframt lagt mikla áherslu á aðgerðir til að bæta afkomu sveitarfélaganna og jafnan lagt það viðfangsefni, að koma á gjaldfrelsi á leikskólastiginu, upp sem samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaga. Gera verði ráðstafanir, sem lið í endurskoðun á tekjulegum samskiptum þessara aðila, til að mæta auknum kostnaði sveitarfélaganna vegna gjaldfrjáls leikskóla auk þess sem til þarf til að bæta afkomu sveitarfélaganna almennt.
    Þingflokkur VG hyggst endurflytja tillöguna nú á komandi þingi og fylgja með því eftir þeirri sókn sem þegar er hafin í málinu. Því tengt leyfum við okkur að senda bréf þetta í því skyni að afla upplýsinga meðal sveitarfélaga landsins um hvar málefni leikskólanna eru á vegi stödd. Okkur þætti vænt um að fá upplýsingar um það frá fyrstu hendi, fyrir 25. september, hvort í undirbúningi eru eða þegar hafi verið tekin skref í þessa átt í ykkar sveitarfélagi. Einnig um aðra þætti eins og kostnað sem dagvistunarmálunum er samfara og sérstaklega ef ákvarðanir hafa verið teknar um að hverfa frá gjaldtöku í einhverjum mæli.
    Upplýsingar má senda bréfleiðis:
    Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs
    pósthólf 175
    Reykjavík
    eða í tölvupósti:
    vg@vg.is
    eða símleiðis í síma 563 0772 hjá Svandísi.

Virðingarfyllst,



Ögmundur Jónasson,


formaður þingfl. VG.


Svandís Svavarsdóttir,


framkvæmdastjóri.


    Hjálögð er tillaga til þingsályktunar nr. 25 frá 131. þingi um gjaldfrjálsan leikskóla.

Fylgiskjal II.


Upplýsingar frá sveitarfélögunum um stöðu leikskólamála.



Reykjavíkurborg.
    Upplýsingar fengnar af heimasíðu Reykjavíkurborgar:
    Í Reykjavík er gjaldfrjálst leikskólanám fyrir 5 ára börn, sem nemur þremur klukkustundum fyrir hádegi. Greitt er fyrir fæði. Gjöldin skiptast í þrjá flokka og eru niðurgreidd að hluta til ákveðinna hópa.
    Stefnt er að því að gera leikskólann gjaldfrjálsan og verður það gert í þrepum.
    Stefnt er að sjö stunda gjaldfrjálsri dvöl barna á leikskólum og verði þeim áfanga náð í fjórum skrefum
     1.      Þrjár stundir fyrir fimm ára börn sem þegar er komið til framkvæmda.
     2.      Tvær stundir fyrir öll börn.
     3.      Tvær stundir til viðbótar fyrir öll börn.
     4.      Þrjár stundir fyrir börn að fimm ára aldri.
    Áfram verður þó greitt fyrir mat.
Kópavogsbær.
    Upplýsingar fengnar af heimasíðu Kópavogsbæjar:
    Í Kópavogi er leikskólinn ekki gjaldfrjáls. Fyrir 8 tíma dagvistun með fæði eru gjöldin 29.188 kr. „Þeir sem greiða lægra gjald fá 35% afslátt af almennu gjaldi en greiða fullt gjald fyrir hádegisverð og síðdegishressingu. Í þeim hópi eru einstæðir foreldrar, námsmenn, leikskólakennarar í leikskólum Kópavogs og leiðbeinendur með a.m.k. 3ja mánaða starfsaldur í leikskólum Kópavogs. Námsmenn þurfa að framvísa vottorði til staðfestingar fyrir hverja önn.“ Ekki kemur fram á heimasíðunni hvort áform séu um að gera leikskólann gjaldfrjálsan.
Hafnarfjarðarkaupstaður.
    Svar barst 26. september:
    Ekki hefur verið tekið skref í þá átt að gera leikskólana gjaldfrjálsa og ekki hafinn undirbúningur að því.
Sveitarfélagið Álftanes.
    Svar barst 29. september:
    Álftanesbær mun yfirfara gjaldskrá leikskóla og reglur um niðurgreiðslu daggæslu barna í heimahúsum. Skoðað verður hvort veita eigi barnafjölskyldum á Álftanesi sambærilega þjónustu og Reykjavíkurborg hyggst veita sínum íbúum á næstu árum.
Mosfellsbær.
    Svar barst símleiðis 10. október:
    Gjaldfrjáls leikskóli hefur ekki verið til umræðu í Mosfellsbæ. Þar eru um 458 börn í vistun, flest heilan dag. Tvær nýjar deildir eru fyrirhugaðar í mars 2006. Leikskólarnir rúma öll 2 ára börn og eldri.
Kjósarhreppur.
    Svar barst 21. september:
    Sveitarfélagið hefur gert samkomulag við Reykjavíkurborg um vistun barna og fer eftir sömu gjaldskrá.
Reykjanesbær.
    Svar barst 21. september:
     A.      Enn sem komið er þá hefur gjaldfrjáls leikskóli ekki komið í tillöguformi inn í bæjarstjórn en verið er að skoða ýmsa möguleika á stuðningi við barnafólk.
     B.      Komi ekki fé frá hinu opinbera til þessa verkefnis þarf að leggja enn frekari álögur á íbúa verði í það ráðist
Grindavíkurbær.
    Svar barst 29. september:
    Í Grindavík eru reknir tveir leikskólar, annar þeirra er einkarekinn og er fjögurra deilda, en hinn er rekinn af sveitarfélaginu og er tveggja deilda. Kostnaður vegna reksturs þeirra er 96,6 millj. kr. hvert ár, en tekjur þeirra eru 13,8 millj. kr. (Tölur samkvæmt fjárhagsáætlun 2005). Ekki er fyrirhugað að gera leikskólana gjaldfrjálsa enda mundi það kalla á frekari uppbyggingu í kjölfarið.
Sveitarfélagið Garður.
    Svar barst 23. september:
    Í Garði er starfandi einn tveggja deilda leikskóli, sem heitir Gefnarborg. Sveitarfélagið á húsnæðið en reksturinn er boðinn út. Samkvæmt fjárhagsáætlun 2005 greiðir sveitarfélagið um 39 millj. kr. í rekstur. Fram undan er stækkun leikskólans um eina deild, en ekki hefur verið rætt um gjaldfrjálsan leikskóla.
Vatnsleysustrandarhreppur.
    Svar barst 5. október:
    Í Vogum er einn leikskóli, þriggja deilda, með 85 börnum. Samkvæmt áætlun 2005 kostar rekstur leikskólans 45,1 millj. kr. Ekki hefur verið rætt um hvert stefna eigi. Ef ráðist yrði í aðgerðir sambærilegar þeim sem gerist í nágrannasveitarfélögum, að bjóða upp á gjaldfrjálsan leikskóla fyrir 5 ára börn, þyrfti að hækka vistunaraldurinn upp í 18 mánaða til 2 ára, en nú eru eins árs börn í vistun í leikskólanum.
Akraneskaupstaður.
    Svar barst 5. október:
    Á Akranesi eru starfandi þrír leikskólar, alls 12 deildir. Greiðslur sveitarfélagsins nema um 169 millj. kr. Rætt hefur verið um að gera hluta af leikskólagöngu gjaldfrjálsan, en niðurstaðan varð sú að forgangsverkefnið væri að jafna kostnað foreldra sem nýta þjónustu dagforeldra annars vegar og leikskóla hins vegar. Frá næstu áramótum verður því greiðsla foreldra fyrir þjónustu dagforeldra sú sama og hjá leikskólum bæjarins. Öll börn tveggja ára og eldri hafa leikskólavist.
Hvalfjarðarstrandarhreppur.
    Svar barst 21. september:
    Hvalfjarðarstrandarhreppur rekur leikskóla í samstarfi við Leirár- og Melahrepp og Skilmannahrepp, en Innri-Akraneshreppur nýtir þjónustu leikskólans án eignaraðildar. Í vor, við næstu sveitarstjórnarkosningar, verða áðurnefnd sveitarfélög sameinuð.
    Hjá hreppsnefnd Hvalfjarðarstrandarhrepps hefur málefnið ekki verið til umræðu en mun verða kynnt á næsta fundi í byrjun október.
Skilmannahreppur.
    Svar símleiðis 30. september:
    Gjald tekið ef foreldrar þurfa að koma með börn fyrir kl. 8. Ef foreldrar sækja ekki börnin á tilsettum tíma hefur skólinn leyfi til að rukka gjald. Greitt er fyrir fæði. Ákvarðanir teknar um framhaldið í þessum mánuði (gildir fram að sameiningu).
Skorradalshreppur.
    Svar barst símleiðis 30. september:
    Hreppurinn kaupir þjónustu frá Borgarfjarðarsveit.
Borgarfjarðarsveit.
    Svar sent 5. október:
    Hjá Borgarfjarðarsveit hafa á undanförnum tveimur árum verið tekin stór skref hvað varðar niðurgreiðslur vistunar barna hjá dagmæðrum og á leikskólum. Hingað til hefur Borgarfjarðarsveit verið með lægri gjaldtöku en sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu.
Kolbeinsstaðahreppur.
    Svar barst símleiðis 3. október:
    Lítil deild innan grunnskóla, ekki gjaldfrjáls (yfirleitt tvö börn sem njóta þjónustunnar).
Grundarfjarðarbær.
    Svar barst 26. september:
    Hjá Grundarfjarðarbæ hafa ekki verið uppi nein áform um að gera dagvistun í leikskóla gjaldfrjálsa, hvorki að hluta til né öllu leyti. Á árinu 2004 voru rekstrargjöld Leikskólans Sólvalla í Grundarfirði rúmar 34 millj. kr. og tekjur voru rúmar 9 millj. kr. Leikskólagjöld stóðu því undir um 26% af rekstrarkostnaði.
Ísafjarðarbær.
    Svar barst 28. september:
    Ekki er í undirbúningi né hafa verið teknar neinar ákvarðanir um gjaldfrjálsan leikskóla hjá Ísafjarðarbæ.
    Rekstrarkostnaður leikskóla Ísafjarðarbæjar er áætlaður 136.259.000 kr. fyrir árið 2005 og eru tekjur af leikskólanum áætlaðar um 6.691.300 kr. Vegna rekstarstöðu sveitarfélagsins er ekki svigrúm til lækkana á gjaldskrám leikskóla.
Reykhólahreppur.
    Svar barst 5. október:
    Hreppurinn rekur leikskólann Hólabæ á Reykhólum. Enginn leikskólakennari er starfandi á honum en þar eru 12–14 börn í vetur.
    Ekki hefur verið rætt um að lækka leikskólagjöldin, en þau eru 18.500 kr. fyrir heilsdagsvistun. Heitur matur í hádeginu kostar 185 kr. á dag.
Tálknafjarðarhreppur.
    Svar barst símleiðis 3. október:
    Ekki gjaldfrjáls leikskóli. Hlutdeild notanda eru 17% af kostnaði, auk þess sem rukkuð eru fæðisgjöld. Í málefnaskrá sem lá til grundvallar kosningu um sameiningu sveitarfélaganna (Tálknafjarðar og Vesturbyggðar) sagði að skoða skyldi gjaldfrjálsan leikskóla af fullri alvöru.
Súðavíkurhreppur.
    Svar barst í pósti 29. september:
    Frá og með 1. september 2005 verður leikskólinn í Súðavík að fullu gjaldfrjáls, þ.e. í allt að 8 klst. á dag fyrir börn á leikskólaaldri. Fæðisgjöld eru fyrir morgunmat (2.100 kr. á mánuði), hádegisverð (2.300 kr. á mánuði) og síðdegishressingu (1.600 kr. á mánuði).
Kaldrananeshreppur.
    Fjögur börn eru í dagvist. Ekki gjaldfrjálst en einfalt væri að gera þetta gjaldfrjálst, að sögn oddvita. Dvöl frá 8–15 alla daga nema föstudaga, þá til hádegis, kostar 14.592 kr. Engin fæðisgjöld eins og er, en til stendur að taka þau upp.
Broddaneshreppur.
    Svar barst símleiðis 3. október:
    Eru með samning við Borgarbyggð og Borðeyri. Gjaldskrá eftir bæjarfélögum sem samningur gildir við.
Hólmavíkurhreppur.
    Svar barst símleiðis 3. október:
    Ekki gjaldfrjáls leikskóli, en einn sá ódýrasti á landinu, að sögn sveitarstjóra (15.498 kr fyrir 8 tíma, hressing 1.050 kr. á mánuði, hádegismatur 2.625 kr. mánuði). Vildu gjarnan hafa leikskólann gjaldfrjálsan en mega ekki missa þann tekjustofn, þótt lítill sé.
Sveitarfélagið Skagafjörður.
    Svar barst 29. september:
    Umræðan um þessi mál er á frumstigi. Ekki hefur verið tekin nein ákvörðun til frambúðar en fylgst er með því hvaða stefnu málin taka hjá öðrum sveitarfélögum.
Akureyrarkaupstaður.
    Svar barst 23. september:
    Gjaldskrá leikskóla Akureyrarbæjar breyttist 1. maí sl. Þá lækkaði gjald fyrir gifta og sambúðarforeldra um 25%. Þetta er fyrsta skrefið í átt til þess að gera leikskólana gjaldfrjálsa. Ekki er búið að taka ákvörðun um hvenær og hvernig næsta skref verður tekið. Í fjárhagsáætlun fyrir árið 2006 er gert ráð fyrir að leikskólatekjur bæjarins verði 162 millj. kr., en bærinn leggur á móti 20 millj. kr. vegna afsláttargjalda (til einstæðra foreldra, ef báðir foreldrar eru í námi og vegna systkinaafsláttar).
Húsavíkurbær.
    Svar barst 19. september:
    Engin tillaga hefur borist um gjaldfrjálsan leikskóla hjá bænum og virðast engin áform vera um slíkt.
    Kostnaður við leikskólastarfsemi á vegum Húsavíkurbæjar var samkvæmt ársreikningum 2004 71.000.000 kr. Í því felst rekstur tveggja leikskóla á Húsavík, sérkennsluþjónusta við leikskóla og þátttöka í rekstri leikskóla í Aðaldal fyrir börn í Reykjahverfi.
Dalvíkurbyggð.
    Svar barst 20. september:
    Engin markmið sett um gjaldfrjálsan leikskóla.
    Dalvíkurbyggð rekur beint og óbeint þrjá leikskóla og gæsluvöll að sumri til. Auk þess greiðir byggðin niður vistun hjá dagmæðrum og er um að ræða mismun á þeirra gjaldi og leikskólagjaldi.
    Samkvæmt fjárhagsáætlun 2005 er liðurinn 04-1 Leikskólar og dagvistun um 56 millj. kr.
Eyjafjarðarsveit.
    Svar barst 22. september:
    Einn leikskóli, Krummakot, rekinn í sveitinni og þjónar á milli 50 og 60 börnum. 50 heilsdagsrými.
    Gjaldskrá Krummakots hefur til þessa verið einna lægst miðað við aðra leikskóla á Eyjafjarðarsvæðinu þar til bæjaryfirvöld á Akureyri tóku ákvörðun um verulega lækkun á gjaldskrám sinna leikskóla í byrjun þessa árs. Tekjur Eyjafjarðarsveitar af vistgjöldum vegna reksturs leikskólans verða væntanlega um 8,6 millj. kr. árið 2005. Verði leikskólinn gjaldfrír aukast því útgjöld sem því nemur.
Grýtubakkahreppur.
    Svar barst 20. september:
    Engin áform um gjaldfrjálsan leikskóla nema ríkið komi að málinu
Skútustaðahreppur
    Svar barst 19. september:
    Gjaldfrjálst er fyrir 5 ára börn í leikskóla. Aðstæður í Mývatnssveit eru þannig að t.d. kostar eyðing minka svipað og rekstur leikskólans.
Tjörneshreppur
    Svar barst 24. september:
    Enginn leikskóli er í hreppnum.
Þingeyjarsveit
    Svar barst 20. september:
    Sveitarstjórn hefur tekið undir með fræðslunefnd um að bjóða megi gjaldfrjálsan leikskóla fyrir síðasta árgang leikskóla en sveitarstjórnarmenn greindi á um tímasetningu. Samþykkt var að hefja gjaldfrjálsan leikskóla fyrir síðasta árgang frá og með 1. janúar 2006.
Öxarfjarðarhreppur.
    Svar barst 22. september:
    Sveitarstjórn hefur ekki rætt þann möguleika að hafa gjaldfrjálsan leikskóla og því stendur það ekki til á þessum vetri. Nýlega var ákveðið að lengja skóladag leikskólans til að koma til móts við þarfir foreldra. Sveitarfélagið á fullt í fangi með að mæta auknum kostnaði vegna samninga við kennara.
Fjarðabyggð.
    Svar barst símleiðis:
    Börn á lokaári leikskóla hafa gjaldfrjálsa 4 tíma á dag, frá kl. 8–12, frá síðustu áramótum. Fjarðabyggð er annars með lág leikskólagjöld, með þeim fimm lægstu á landinu. Börn byrja við eins árs aldur og eru engir biðlistar eftir plássi. Í Neskaupstað er leikskóli með fimm deildum, þrjár eru á Eskifirði og fjórar á Reyðarfirði. Síðustu tvö árin hefur verið yfir 90% nýting á leikskólunum. Engin frekari áform eru um niðurfellingu gjaldskrár.
Djúpavogshreppur.
    Svar barst 20. september:
    Ekki hefur verið fjallað um málið formlega en hreppurinn má ekki við því að missa tekjustofn.
Austurbyggð.
    Svar ritað 19. september:
    Reknir eru tveir leikskólar, annar á Stöðvarfirði en hinn á Fáskrúðsfirði. Aðeins hefur verið rætt um gjaldfrjálsan leikskóla, en engin ákvörðun tekin enn.
Vestmannaeyjabær.
    Svar barst 21. september:
    Engin áform eru um gjaldfrjálsan leikskóla.
Rangárþing ytra.
    Svar barst 19. september:
    Rangárþing ytra hefur tekið þann hátt upp að 5 ára börn fá 4 klst. dvöl í leikskólum sveitarfélagsins gjaldfrítt. Þetta er gert til þess að hvetja alla foreldra til þess að hafa börn sín a.m.k. þennan tíma í leikskóla síðasta árið fyrir upphaf grunnskólagöngu þeirra.
    Fyrir utan þetta eru veittir afslættir til forgangshópa sem nema 30% af fullu gjaldi.
    Systkinaafslættir eru 40% og 90% með þriðja barni.
Hrunamannahreppur.
    Svar barst 20. september:
    Hafa ekki fjallað um gjaldfrjálsan leikskóla en telja málefnið gott. Mega þó ekki við því að missa þann tekjustofn sem leikskólagjöldin eru, en til menntamála fara um 65% af tekjum sveitarfélagsins.
Grímsnes- og Grafningshreppur.
    Svar barst 29. september:
    Málefnið hefur ekki verið rætt í sveitarstjórninni.
Bláskógabyggð.
    Svar barst 10 október:
    Ekki hefur verið tekin nein ákvörðun um gjaldfrjálsan leikskóla og ekki liggja fyrir neinar tillögur í því sambandi.



Fylgiskjal III.

Leikskólar Reykjavíkur:

Gjaldskrá Leikskóla Reykjavíkur – leikskólagjöld.


(Gjaldskráin gildir frá 1. september 2005.)



Kennslugjald Fæðisgjald Samtals K+F
Vistunar- tími Flokkur I Flokkur II Flokkur III Morgun- hressing Hádegis- verður Nón- hressing Flokkur I Flokkur II Flokkur III
2.800 2.050 1.160
4,0 klst. 11.200 8.200 4.640 1.140 0 0 12.340 .9.340 5.780
4,5 klst. 12.600 9.225 5.220 1.140 0 0 13.740 10.365 6.360
5,0 klst. 14.000 10.250 5.800 1.140 3.400 0 18.540 14.790 10.340
5,5 klst. 15.400 11.275 6.380 1.140 3.400 0 19.940 15.815 10.920
6,0 klst. 16.800 12.300 6.960 1.140 3.400 0 21.340 16.840 11.500
6,5 klst. 18.200 13.325 7.540 1.140 3.400 0 22.740 17.865 12.080
7,0 klst. 19.600 14.350 8.120 1.140 3.400 1.140 25.280 20.030 13.800
7,5 klst. 21.000 15.375 8.700 1.140 3.400 1.140 26.680 21.055 14.380
8,0 klst. 22.400 16.400 9.280 1.140 3.400 1.140 28.080 22.080 14.960
8,5 klst. 23.800 17.425 9.860 1.140 3.400 1.140 29.480 23.105 15.540
9,0 klst. 25.200 18.450 10.440 1.140 3.400 1.140 30.880 24.130 16.120
9,5 klst. 26.600 19.475 11.020 1.140 3.400 1.140 32.280 25.155 16.700

Skýringar á gjaldflokkum:
     I.      Samkvæmt I. flokki greiða giftir foreldrar og sambúðarfólk.
     II.      Samkvæmt þessum flokki greiða foreldrar þar sem annað foreldrið er í námi. Miðað er við að nám sé lánshæft skv. viðmiðunarreglum Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Skrifstofa LÍN veitir upplýsingar um þá skóla og það nám sem metið er lánshæft. Námsmaður skal vera í a.m.k. 75 % námi á háskólastigi en í 100 % námi sé hann í sérnámi.
             Námsmenn við Háskóla Íslands skulu taka a.m.k. 11 einingar á önn.
             Þessi gjaldflokkur á einnig við ef stundað er fullt nám í framhalds-, mennta-, fjölbrauta- og iðnskóla. Kvöldnám er ekki tekið gilt.
             Skólavottorð berist skrifstofu Leikskóla Reykjavíkur í janúar og september ár hvert. Námssamningar berist skrifstofu skrifstofu L.R. í byrjun samningstímans.*
     III.      Samkvæmt III. flokki greiða einstæðir foreldrar, foreldrar þar sem báðir eru í námi sbr. skilgreiningu LÍN á lánshæfu námi og foreldrar ef báðir eða annað eru öryrkjar. Starfsmenn Leikskóla Reykjavíkur falla einnig undir þennan flokk.

    Gjaldskrá Leikskóla Reykjavíkur er byggð upp á kennslugjaldi og fæðisgjaldi. Sé barn í leikskólanum þegar morgunverður og/eða síðdegishressing er framreidd er greitt fyrir málsverðina.
    Kennslugjaldið er í þremur flokkum eins og fram kemur hér að ofan, en fæðisgjald er það sama í öllum flokkum.
    Systkinaafsláttur er 40% af kennslugjaldi með öðru barni og 90% af kennslugjaldi með þriðja barni. Leikskólagjald er greitt eftir fjölda þeirra klukkustunda sem barn dvelur í leikskólanum. Heimilt er að kaupa 1/ 2 klst.

Gjaldskrá 5 ára barna 2005.

    Gjaldfrjálst leikskólanám fyrir 5 ára börn er þrjár klukkustundir fyrir hádegi. Greitt er fyrir fæði.
    Frá 1. september 2005 er greitt fyrir börn fædd árið 2000 samkvæmt gjaldskrá 5 ára barna.

Kennslugjald Fæðisgjald Samtals K+F
Vistunar- tími Flokkur I Flokkur II Flokkur III Morgun- hressing Hádegis- verður Nón- hressing Flokkur I Flokkur II Flokkur III
2.800 2.050 1.160
4,0 klst. 2.800 2.050 1.160 1.140 0 0 3.940 3.190 2.300
4,5 klst. 4.200 3.075 1.740 1.140 0 0 5.340 4.215 2.880
5,0 klst. 5.600 4.100 2.320 1.140 3.400 0 10.140 8.640 6.860
5,5 klst. 7.000 5.125 2.900 1.140 3.400 0 11.540 9.665 7.440
6,0 klst. 8.400 6.150 3.480 1.140 3.400 0 12.940 10.690 8.020
6,5 klst. 9.800 7.175 4.060 1.140 3.400 0 14.340 11.715 8.600
7,0 klst. 11.200 8.200. 4.640 1.140 3.400 1.140 16.880 13.880 10.320
7,5 klst. 12.600 9.225. 5.220 1.140 3.400 1.140 18.280 14.905 10.900
8,0 klst. 14.000 10.250 5.800 1.140 3.400 1.140 19.680 15.930 11.480
8,5 klst. 15.400 11.275 6.380 1.140 3.400 1.140 21.080 16.955 12.060
9,0 klst. 16.800 12.300 6.960 1.140 3.400 1.140 22.480 17.980 12.640
9,5 klst. 18.200 13.325 7.540 1.140 3.400 1.140 23.880 19.005 13.220

Flokkur I     2.800 kr. Útreikningur (2.800 * tímar + fæði = mánaðargjald)
Flokkur II     2.050 kr. Útreikningur (2.050 * tímar + fæði = mánaðargjald)
Flokkur III     1.160 kr. Útreikningur (1.160 * tímar + fæði = mánaðargjald)

Morgunverður     1.140 kr.
Hádegisverður     3.400 kr.
Nónhressing     1.140 kr.

Systkinaafsláttur reiknast eingöngu af tímagjaldi
Yngsta barn fullt gjald
Annað barn 40% afsláttur
Þriðja barn 90% afsláttur
Afsláttur reiknast alltaf á elsta barn

Dæmi:
Foreldrar eiga tvö börn sem eru í leikskóla í 8 klst. á dag og greiða samkvæmt flokki I.
Fyrir yngra barnið greiða þau fullt gjald: 28.080 kr. á mán.
Systkinaafsláttur fyrir eldra barnið er 40% af kennslugjaldi 22.400*0,6=13.440
Við það bætist fæðisgjald: 1.140+3.400+1.140=5.680
Fyrir eldra barnið greiða þau því 13.440+5.680=19.120 kr. á mán.
Samtals 47.200 kr. á mánuði fyrir bæði börnin.
Systkinaafsláttur er reiknaður út á sama hátt fyrir foreldra sem greiða samkvæmt flokki II og III.