Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 40. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Prentað upp.

Þskj. 40  —  40. mál.
Leiðréttur texti.




Tillaga til þingsályktunar



um opinbera nefnd um öryggi og varnir Íslands.

Flm.: Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir,


Össur Skarphéðinsson, Jón Gunnarsson.


    Alþingi ályktar að kjósa skuli níu manna nefnd til þess að gera úttekt á stöðu öryggis- og varnarmála á Íslandi í ljósi þeirra miklu breytinga sem orðið hafa í heiminum frá lokum kalda stríðsins. Nefndarmenn verði níu og tilnefndir af þingflokkum í samræmi við þingstyrk hvers flokks, þó þannig að hver þingflokkur tilnefni minnst einn fulltrúa í nefndina.
    Verkefni nefndarinnar séu:
     1.      Að gera úttekt á stöðu Íslands á alþjóðlegum vettvangi og skilgreina þá vá sem kann að steðja að landinu, hvort sem er óbeint af völdum hernaðar annarra ríkja, af hugsanlegum árásum annarra ríkja, af völdum hryðjuverka eða af annars konar ógnum, svo sem mengunarslysum.
     2.      Að kanna hvernig sams konar úttekt hefur farið fram í nágrannalöndum okkar, m.a. í Noregi og á Írlandi, með það fyrir augum að nýta það sem vel er gert. Nefndin kalli til sérfræðinga á sviði utanríkismála eftir því sem þörf þykir.
     3.      Að greina stöðu Íslands að alþjóðalögum, þ.e. gildi varnarsamningsins, hlutverk Íslands í Atlantshafsbandalaginu og hlutverk Íslands í Sameinuðu þjóðunum. Sérstaklega verði fjallað um sögulega arfleifð Íslendinga sem þátttakenda í samstarfi á alþjóðavettvangi og hvert framlag Íslendinga til þjóðaréttar og alþjóðasamfélagsins skuli vera í því ljósi.
     4.      Að fjalla sérstaklega um erindi og stefnu Íslands í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna með tilliti til framboðs Íslands til ráðsins árin 2009–2010.
     5.      Að gera tillögur um ráðstafanir innan stjórnkerfisins til þess að tryggja nauðsynlegan viðbúnað og öryggi landsins.
    Nefndin skili niðurstöðum sínum innan árs frá samþykkt þessarar tillögu með skýrslu til Alþingis. Nefndin ráði til sín starfsmann sem jafnframt verði ritari hennar.

Greinargerð.


    Tillaga þessi var fyrst flutt á 130. löggjafarþingi og er nú endurflutt lítið breytt. Tillagan miðar að því að skapa þverpólitíska sátt um það hvernig öryggis- og varnarmálum Íslands verði best háttað. Flutningsmenn telja það skilyrði þess að slík umræða verði með upplýstum og uppbyggilegum hætti að til starfa taki nefnd sem skili niðurstöðum sínum í formi skýrslu til löggjafans. Nefndin skuli skipuð níu nefndarmönnum, tilnefndum af þingflokkum í samræmi við þingstyrk hvers flokks, þó þannig að hver þingflokkur tilnefni minnst einn fulltrúa í nefndina. Gert er ráð fyrir að þingflokkarnir skipi sérfræðinga á sviði utanríkismála í nefndina innan eða utan þings.
    Sjálfstæð og framsýn utanríkisstefna á sviði varnar- og öryggismála þarf að taka mið af nýjum ógnum og hættum sem að Íslendingum kunna að steðja í breyttri veröld. Hún verður einnig að vera í samræmi við önnur meginmarkmið íslenskrar utanríkisstefnu, t.d. á sviði viðskipta, menningar og þróunarsamvinnu.
    Árið 1979, fyrir rúmum aldarfjórðungi, skipaði ríkisstjórn Íslands öryggismálanefnd, með fulltrúum allra þingflokka. Í skýrslu um utanríkismál frá sama ári segir að verkefni nefndarinnar verði „að afla gagna og eiga viðræður við innlenda og erlenda aðila til undirbúnings álitsgerðum um öryggismál íslenska lýðveldisins“. Nefndinni var falið að gera ítarlega úttekt á öryggismálum þjóðarinnar. Öryggismálanefnd starfaði í tólf ár og í henni sátu átta menn tilnefndir af þingflokkunum, auk þess sem nefndin hafði starfsmenn. Á hennar vegum voru gefin út ein 20 rit um öryggis- og varnarmál.
    Á undanförnum áratug hafa verið gefnar út skýrslur um ákveðin viðfangsefni Íslands í utanríkismálum. Þannig skilaði sérstök nefnd um öryggis- og varnarmál skýrslu til utanríkisráðherra árið 1993 eftir að hafa starfað í tæpt ár. Sú nefnd var hins vegar eingöngu skipuð fulltrúum ríkisstjórnarflokkanna. Þá hafa á liðnum áratug starfað sérstakar nefndir á vegum utanríkisráðuneytisins um tiltekin viðfangsefni, t.d. um áhrif hnattvæðingarinnar og þátttöku Íslands í friðargæsluverkefnum.
    Flutningsmenn eru þeirrar skoðunar að fullt tilefni sé til þess að koma á fót annarri slíkri nefnd með þátttöku allra þingflokka, þverpólitískri nefnd sem rannsakar og metur stöðu Íslands með tilliti til öryggis landsins og varnarþarfa. Með slíku samstarfi skapast grundvöllur almennrar umræðu í samfélaginu og með því væri stigið skref í átt frá átakahefð íslenskra stjórnmála í átt til samræðu og sátta um utanríkismál.
    Gildi þess að rannsaka og meta stöðu okkar í breyttum heimi er augljóst. Hvert sem litið er blasa verkefnin við. Almennt má segja að fólk sé enn að átta sig á afleiðingum loka kalda stríðsins, á nýjum ógnum, t.d. vegna hryðjuverka, á gjörbreyttum valdahlutföllum á alþjóðavettvangi og, að því er virðist, minnkandi gildi hernaðarbandalaga og vaxandi vægi viðskiptasamninga, að ógleymdum öðrum samskiptum ríkja, m.a. á sviði menningar.
    Á næstu árum mun stækkun Atlantshafsbandalagsins og stækkun Evrópusambandsins hafa mikil áhrif á stöðu okkar og hagsmunavörslu gagnvart vinaþjóðum í vestri og austri. Um leið og NATO stækkar í austur verður staða okkar á vesturjaðri Evrópu sýnilegri og ef til vill erfiðari við að eiga, en eins og kunnugt er hefur aðgerðastjórn Bandaríkjaflota á austanverðu Atlantshafi, og þar með yfirstjórn aðgerða á Íslandi, Grænlandi og Azoreyjum, verið flutt frá Norfolk í Bandaríkjunum til Evrópuherstjórnar Bandaríkjanna í Stuttgart í Þýskalandi.
    Samningaviðræður við bandarísk stjórnvöld um starfsemi hersins á Keflavíkurflugvelli standa yfir. Bandaríkjastjórn hefur gert kröfu um að dregið verði úr viðbúnaði í Keflavík. Um framkvæmd varnarsamningsins ríkir óvissa en ljóst er að breytingar eru fyrirsjáanlegar á viðbúnaði Bandaríkjahers hér á landi í náinni framtíð.
    Einnig er full ástæða til þess fyrir nefndina að skoða stöðu Atlantshafsbandalagsins í ljósi hlutverks þess í deilum og átökum umliðinna missira. NATO virðist skipta minna máli en áður á alþjóðlegum vettvangi. Það gegndi hvorki hlutverki í stríðinu í Afganistan né í Írak. Í baráttunni gegn margs konar hryðjuverkahópum virðist hlutverk þess vera óljóst. Atlantshafsbandalagið er ekki sterk stofnun sem slík en auðvitað standa að því gífurlega sterk herveldi. Þá virðist öryggis- og varnarstoð Evrópusambandsins enn sem komið er aðallega gegna táknrænu hlutverki. Aðildarríkjunum hefur reynst erfitt að koma á fót 60 þúsund manna hraðliði þrátt fyrir samkomulag þar um.
    Staða Íslands í þessari deiglu er staða herlauss lands á jaðri Evrópu. Hún virðist veik en í henni felast jafnframt tækifæri, jafnt í sérstöðu okkar sem í hefðbundnu samstarfi og einnig á nýjum sviðum og í fjarlægum heimsálfum.
    Framboð Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna markar tímamót í stjórnmálasögu okkar og samskiptum við önnur lönd. Undirbúningur er hafinn og ljóst að eigi sætið að nást þarf að halda vel á málum. Framboð sem þetta krefst þó ekki síður málefnalegs undirbúnings. Sterkt framboð byggist á trúverðugri og traustri utanríkisstefnu. Ísland hefur margt fram að færa á alþjóðlegum vettvangi, fyrir utan það sem segir sig sjálft, að vera herlaust smáríki, eiga aðild að NATO og vera eitt af auðugustu löndum heims. Þess vegna er nauðsynlegt að utanríkisstefnan í heild sinni sé hvort tveggja í senn metnaðarfull og raunsæ. Önnur ríki munu að öllum líkindum spyrja um framlög Íslands til þróunarsamvinnu, um umhverfisvernd, um aðstoð við flóttamenn, um viðhorf til frjálsrar verslunar og Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, um atkvæðagreiðslur á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og framlög til stofnana þeirra. Þetta þarf nefndin að hafa hugfast við störf sín.
    Á umliðnum missirum hefur áhersla verið lögð á þátttöku Íslands í friðargæsluverkefnum. Það er mat flutningsmanna að gera þurfi skýran greinarmun á friðargæsluverkefnum, sem eru í raun verkefni herliðs, og uppbyggingarstarfi í kjölfar ófriðar. Fjöldi frjálsra félagasamtaka um allan heim starfar að mannúðarmálum með ýmsum hætti. Samtök eins og Rauði krossinn eru sérhæfð í að veita neyðaraðstoð á átakasvæðum eða eftir náttúruhamfarir. Aðrar stofnanir, t.d. Sameinuðu þjóðirnar og þróunarsamvinnustofnanir ýmissa landa, eru best til þess fallnar að skipuleggja og standa fyrir uppbyggingarstarfi á sviði menntunar, heilsugæslu og annarra verkefni sem miða að því að styrkja innviði samfélags að loknum átökum.
    Skilgreina þarf verkefni íslensku friðargæslunnar betur og marka stefnu sem tekur tillit til annarrar starfsemi íslenska ríkisins og íslenskra mannúðarsamtaka erlendis. Breyta þarf þeim hugsunarhætti að Íslendingar séu aðeins að leggja eitthvað að mörkum af því að hart er lagt að þeim, t.d. á vettvangi NATO. Við eigum sjálf að hafa frumkvæði að aðgerðum í samræmi við stefnu okkar og markmið.
    Til þess að treysta öryggi landsins á nýrri öld er ekki nóg að einblína á landvarnir eða hernaðarmátt. Vesturlandabúar eiga mikilla hagsmuna að gæta þegar kemur að því að draga úr fátækt í heiminum og minnka hina gríðarlegu misskiptingu tekna og auðlinda sem við blasir í upphafi 21. aldar. Því er það einnig verkefni okkar á Íslandi að skilgreina þær ógnir sem að landinu kunna að steðja, ekki bara í ljósi hefðbundinnar herfræði, heldur einnig í ljósi þeirra ógna sem kunna að felast í umhverfisslysum, náttúruhamförum og síðast en ekki síst í afleiðingum örbirgðarinnar sem stór hluti mannkyns má búa við.
    Eins og hér hefur verið rakið hefur öryggishugtakið ekki aðeins hernaðarlega þýðingu. Þekking á stöðu efnahagsmála, umhverfismála, mannréttinda og þjóðfrelsisbaráttu minni- hlutahópa víða um heim og áhrifum þeirra á öryggi okkar í viðsjárverðum heimi er ekki síður nauðsynleg. Hið sama má segja um áhrif glæpastarfsemi sem teygir anga sína víða, svo sem til ólöglegrar vopna- og eiturlyfjasölu og ekki síður til verslunar með konur og börn til kynlífsþrælkunar.
    Hryðjuverkaárásir síðustu ára hafa afhjúpað varnarleysi okkar gagnvart slíkum ódæðisverkum og hafa leitt okkur fyrir sjónir að órói, átök og kúgun í fjarlægum löndum, svo ekki sé talað um gamlar syndir stórveldanna, geta haft bein áhrif á öryggi okkar og lífsafkomu. Öryggi okkar sem almennra borgara grundvallast ekki síst á því að búa við félagslegt réttlæti, frelsi og virðingu fyrir mannréttindum. Þetta þarf einnig að hafa hugfast þegar meta á öryggi Íslands og stöðu landsins í alþjóðasamfélaginu.
    Það er löngu tímabært að skoða öryggismál í mun víðara samhengi en gert hefur verið. Öryggismál Íslands snúast ekki eingöngu um það hvort hér séu táknrænar varnir heldur einnig hvað Íslendingar sjálfir geta lagt af mörkum. Það þarf að sýna frumkvæði sem byggist á vel ígrundaðri utanríkisstefnu. Þverpólitísk nefnd um öryggismál sem fengi það verkefni að meta stöðu Íslands í upphafi 21. aldarinnar væri mikilvægt skref í rétta átt. Slíkt starf gæti stuðlað að opinni umræðu um þessi mál og vakið fleiri til vitundar um mikilvægi þeirra.