Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 43. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 43  —  43. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um vegagerð um Stórasand.

Flm.: Halldór Blöndal, Guðmundur Hallvarðsson,


Birkir J. Jónsson, Arnbjörg Sveinsdóttir, Gunnar Örlygsson,
Einar Már Sigurðarson, Sigurður Kári Kristjánsson.


    Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að undirbúa og hrinda í framkvæmd nauðsynlegum rannsóknum og mælingum til þess að hægt sé að setja veg frá Norðurárdal í Skagafirði um Stórasand til Borgarfjarðar í mat á umhverfisáhrifum svo fljótt sem kostur er. Vegurinn verði í flokki C1, sem er 7,5 metra breiður vegur með bundnu slitlagi. Hafa skal í huga að þessi framkvæmd sé öll eða að hluta unnin sem einkaframkvæmd og að kostnaður við hana greiðist með veggjöldum eftir því sem eðlilegt er. Vegurinn sé tekinn inn í næstu samgönguáætlun eins og hún verður lögð fyrir Alþingi.

Greinargerð.


    Tillaga til þingsályktunar um veg frá Norðurárdal um Stórasand til Borgarfjarðar var lögð fyrir 130. löggjafarþing 2003–2004 með ítarlegri greinargerð, sem ekki er endurprentuð hér, þar sem hún er öllum tiltæk á netinu, og vísast til hennar (þskj. 1322, 864. mál). Rétt er þó að fara nokkrum orðum um tillöguna.
    Fyrr á þessu ári var stofnað hlutafélag á Akureyri, Norðurvegur, sem hefur það að markmiði að leggja veg bundnu slitlagi yfir Kjöl niður í Skagafjörð í Norðurárdal sunnan Blöndulóns og sé staðið undir kostnaði með veggjöldum, eftir því sem eðlilegt getur talist. Sunnlendingar hafa sýnt þessari framkvæmd mikinn áhuga.
    Undirbúningur að vegi frá Gjábakka um Lyngdalsheiði til Laugarvatns er á lokastigi. Gera verður ráð fyrir því, að umferðin um Kjöl fari um þennan nýja veg um Þingvöll til Reykjavíkur, sem mun kalla á vegabætur um þjóðgarðinn nema annað komi til. Í þessu sambandi skiptir ekki máli, þótt gámaumferð verði beint frá þessu svæði og látin fara Hellisheiði. Eftir sem áður munu einkabílar og hópferðabílar fara um Þingvöll af augljósum ástæðum, enda styst.
    Á undanförnum árum hefur verið unnið að því að byggja upp veginn um Uxahryggi og í samgönguáætlun er gert ráð fyrir uppbyggðum vegi með bundnu slitlagi um Kaldadal. Er ekkert nema gott um það að segja, enda liggur í augum uppi, að það kallar á nýjan veg eftir vesturbakka Almannagjár og síðan sunnan í Ármannsfelli norður á bóginn. Vegurinn mun þá að mestu leyti liggja utan þjóðgarðsins í staðinn fyrir að fara niður í hann eins og nú er.
    Vegur um Stórasand styttir leiðina milli Akureyrar og Reykjavíkur um u.þ.b. 40 km og 40 km til viðbótar, ef farið er um Kaldadal. Þetta verður falleg leið og einn af kostum hennar er, að hún mun hlífa þjóðgarðinum á Þingvöllum við gegnumakstri. Þess er því að vænta, að tillaga þessi fái góðar undirtektir.
    Loks er þess að geta, að þess er víða krafist nú, að Reykjavíkurflugvöllur verði lagður niður. Fyrirséð er, að áætlunarflug milli Akureyrar og Reykjavíkur leggst niður um leið eða því sem næst.
    Vafalaust er, að vegur um Stórasand er sú vegaframkvæmd utan nábýlis Reykjavíkur, sem mesta arðsemi hefur. Að því ber að hyggja.