Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 49. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 49  —  49. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um forræði yfir rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma.

Flm.: Kolbrún Halldórsdóttir, Jón Bjarnason, Steingrímur J. Sigfússon,


Hlynur Hallsson, Ögmundur Jónasson.


    Alþingi ályktar að forræði rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma flytjist frá iðnaðarráðherra til umhverfisráðherra og að flokkun vatnsfalla og jarðhitasvæða samkvæmt henni verði lögð fyrir Alþingi til nánari ákvörðunar um verndun og nýtingu þeirra.

Greinargerð.


    Tillaga þessi var flutt á 131. löggjafarþingi og var þá send út til nokkurs fjölda umsagnaraðila. Segja má að umsagnirnar séu tvenns konar; stofnanir umhverfisráðuneytisins og náttúruverndarsamtök eru fylgjandi breytingunni sem tillagan felur í sér, en orkufyrirtæki og stofnanir iðnaðarráðuneytisins ekki. Í ljósi þess að hér virðast hagsmunir skiptast nokkuð hreint milli fagsviða telja flutningsmenn fullt tilefni til að endurflytja tillöguna.
    Í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar Sjálfbær þróun í íslensku samfélagi – framkvæmdaáætlun til aldamóta (júní 1997) var greint frá því að gerð yrði áætlun til langs tíma um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Fyrirmyndin var fengin frá Noregi þar sem lokið var vinnu við að flokka vatnsföll og gerð hafði verið áætlun um verndun þeirra og nýtingu. Í upphafi var ljóst að íslensk stjórnvöld vikju frá aðferðarfræði Norðmanna í a.m.k. einu veigamiklu atriði þar sem hér yrði áætlunin á forræði iðnaðarráðherra en ekki umhverfisráðherra eins og í Noregi. Þetta fyrirkomulag var frá upphafi gagnrýnt, enda um náttúruvernd og skipulagsmál að ræða sem eðli málsins samkvæmt eru á forræði umhverfisráðherra. Umhverfis- og náttúruverndarsinnar voru þó almennt jákvæðir gagnvart því að hefja ætti vinnu við rammaáætlunina og létu í ljósi vonir um að hún yrði notuð til að friða þau vatnsföll og þau jarðhitasvæði sem ekki væri ásættanlegt að fórna til orkuvinnslu vegna neikvæðra umhverfisáhrifa. Einnig var það gagnrýnt að ekki væri ljóst fyrir fram hvernig farið yrði með niðurstöður áætlunarinnar.
    Í nóvember 2003 voru gerðar opinberar niðurstöður fyrsta áfanga rammaáætlunar. Um líkt leyti lagði iðnaðarráðherra fram skýrslu á Alþingi um niðurstöðurnar (þskj. 648, 454. mál 130. löggjafarþings). Í þeirri skýrslu segir að líta megi á niðurstöður fyrsta áfanga rammaáætlunar sem grunn fyrir mat á frumáætlunum virkjana og að stjórnvöld geti nýtt niðurstöðurnar sem grundvöll að stefnumörkun í orku- og náttúruverndarmálum. Þá segir einnig að iðnaðarráðherra muni geta notfært sér niðurstöðurnar við stefnumörkun í frumrannsóknum ríkisins í orkumálum og við útgáfu rannsóknar- og nýtingarleyfa nýrra virkjana. Af þessu má ljóst vera að iðnaðarráðherra ætlar sér að taka ákvarðanir á grundvelli fyrirliggjandi vinnu og að stjórnvöld hafa ekki í hyggju að gefa flokkun þeirri sem fólgin er í niðurstöðum fyrsta áfanga rammaáætlunarinnar neitt skuldbindandi vægi eða lagagildi. Einnig þar fara íslensk stjórnvöld allt aðra leið en í Noregi en Stórþingið tók rammaáætlunina til ítarlegrar umfjöllunar og samþykkti loks endanlega flokkun þeirra vatnsfalla sem hún náði til. Flokkarnir voru fjórir og gildi þeirra eftirfarandi:
     1.      Þeir kostir sem orkufyrirtæki gátu sótt um heimildir til að virkja.
     2.      Þeir kostir sem settir voru í biðstöðu á þeirri forsendu að ekki lægju fyrir nægjanleg gögn til að taka afstöðu til þeirra.
     3.      Þeir kostir sem ekki voru taldir standa orkufyrirtækjum til boða vegna óásættanlegra umhverfisárifa en þó var ekki útilokað að þeir kæmu einhvern tíma til álita.
     4.      Þeir kostir sem voru taldir verðmætastir og voru því friðlýstir.
    Engin slík aðferðafræði hefur verið kynnt af hálfu íslenskra stjórnvalda. Fráleitt verður að teljast að forræði þessa máls verði áfram á hendi eins af atvinnumálaráðuneytunum sem eðli máls samkvæmt hefur nýtingar- og framkvæmdaáform í fyrirrúmi.
    Þessi tillaga gerir ráð fyrir að forræði þeirra niðurstaðna rammaáætlunar sem þegar liggja fyrir og áframhaldandi vinna verði undir yfirstjórn og á ábyrgð umhverfisráðuneytisins. Auk umhverfis- og náttúruverndar fer það ráðuneyti með skipulagsmál sem tengjast náið þeim ákvörðunum sem vinna að rammaáætlun á að leggja grunn að. Sú formbreyting á yfirstjórn rammaáætlunar er einnig brýn vegna framhaldsvinnu að verkefninu.
    Í niðurlagi skýrslu iðnaðarráðherra sem getið var hér að framan kemur fram að áætlað sé að vinna annan áfanga áætlunarinnar á næstu þremur til fjórum árum. Þeirri vinnu muni stýrt af fámennari verkefnisstjórn en þeirri sem vann fyrsta áfangann og verkefnisstjórnin verði eingöngu skipuð fulltrúum frá iðnaðar- og umhverfisráðuneyti auk helstu hagsmunaaðila.
    Af því sem hér hefur verið fært fram má ljóst vera að rammaáætlun ríkisstjórnarinnar verður ekki það tæki sem henni var ætlað nema hún lúti forræði þess ráðherra sem fer með umhverfisvernd og skipulagsmál og Alþingi fjalli um hana og taki ákvarðanir með hliðsjón af niðurstöðunum.