Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 245. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 580  —  245. mál.
Svarfélagsmálaráðherra við fyrirspurn Þórarins E. Sveinssonar um skammtímaatvinnuleyfi ungmenna.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Er Ísland aðili að samkomulagi sem auðveldar ungmennum að fá skammtímaatvinnuleyfi í löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins, t.d. í námshléum eða námsleyfum?
     2.      Ef svo er, við hvaða ríki hefur þá verið gert slíkt samkomulag?
     3.      Ef svo er ekki, stendur þá til að gera slíkt samkomulag við einhver ríki?


    Ísland á hvorki aðild að né hefur gert samninga við önnur ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins sem auðveldar ungmennum að sækja um skammtímaatvinnuleyfi til að vinna í námshléum eða námsleyfum.
    Félagsmálaráðuneytið hefur haft til athugunar um nokkurt skeið í samráði við önnur ráðuneyti gerð hliðstæðra samninga milli Íslands og annarra ríkja utan Evrópska efnahagssvæðisins og nágrannaríki hafa gert vegna dvalar og vinnu ungs fólks. Stjórnvöld hafa litið gerð slíkra samninga jákvæðum augum og til þess fallna að auka viðsýni ungs fólks. Þeir geta haft í för með sér fjölgun tækifæra til menningarsamskipta og gagnkvæmra kynna af lífsháttum og viðhorfum meðal annarra þjóða. Það liggur hins vegar fyrir að slík samningsgerð krefst m.a. breytingar á lögum um atvinnuréttindi útlendinga og hefur málið því reynst tímafrekara en ráð var fyrir gert. Hafa þessi atriði meðal annars verið til umræðu í þeirri endurskoðun sem nú stendur yfir á löggjöf er fjallar um dvöl og atvinnu útlendinga hér á landi. Undirbúningur að því að unnt verði að gera samninga þessa efnis stendur því yfir í samvinnu við hlutaðeigandi ráðuneyti.