Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 191. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 599  —  191. mál.
Frumvarp til lagaum fjarskiptasjóð.

(Eftir 2. umr., 9. des.)1. gr.
Fjarskiptasjóður.

    Stofna skal sérstakan sjóð, fjarskiptasjóð, sem hefur það hlutverk að stuðla að uppbyggingu á sviði fjarskiptamála á grundvelli fjarskiptaáætlunar. Sjóðurinn er eign ríkisins. Varsla hans og dagleg umsýsla heyrir undir samgönguráðuneytið.

2. gr.
Hlutverk.

    Hlutverk sjóðsins er að úthluta fjármagni til verkefna sem miða að uppbyggingu stofnkerfa fjarskipta, verkefna sem stuðla að öryggi og samkeppnishæfni þjóðfélagsins á sviði fjarskipta og annarra verkefna, enda sé kveðið á um þau í fjarskiptaáætlun, og ætla má að ekki verði í þau ráðist á markaðsforsendum.

3. gr.

Stjórn.


    Samgönguráðherra skipar fimm menn í stjórn fjarskiptasjóðs, þar af formann og varaformann, auk varamanna. Skipunin gildir til þriggja ára í senn.
    Stjórn sjóðsins skal hafa yfirumsjón með fjármálum fjarskiptasjóðs í samræmi við hlutverk sjóðsins. Stjórn sjóðsins er jafnframt verkefnastjórn fjarskiptaáætlunar og skal hún skila skýrslu um starfsemi sjóðsins til samgönguráðherra sem leggur hana fyrir Alþingi til upplýsingar.

4. gr.
Fjármögnun verkefna.

    Stjórnin ákveður framlög úr sjóðnum í samræmi við hlutverk sitt og fjarskiptaáætlun og semur greiðsluáætlun þar um innan heimilda fjárlaga. Stjórnin getur sett nánari reglur um framkvæmd einstakra verkefna, þar á meðal um faglegt eftirlit með verkefnum og framvindu þeirra. Stjórnin getur ákveðið tilfærslu fjármuna milli ára og/eða einstakra verkefna ef nauðsyn krefur.

5. gr.
Umsýsla og eftirlit.

    Þeir sem fá úthlutað fé úr fjarskiptasjóði skulu gera grein fyrir framvindu verkefna og ráðstöfun fjár samkvæmt nánari reglum sjóðstjórnar.
    Póst- og fjarskiptastofnun hefur eftirlit með framkvæmd verkefna sjóðsins sem njóta styrkja. Um framkvæmd útboða og eftirlit fer samkvæmt ákvæðum fjarskiptalaga.

6. gr.

Tekjur.


    Tekjur fjarskiptasjóðs eru framlag úr ríkissjóði samkvæmt ákvörðun Alþingis og tekjur af ávöxtun fjármuna sjóðsins.

7. gr.
Kostnaður af rekstri.

    Fjarskiptasjóður ber allan kostnað af starfsemi sinni og allan kostnað Póst- og fjarskiptastofnunar af starfsemi sem tengist verkefnum sjóðsins.

8. gr.
Reglugerðarheimild.

    Samgönguráðherra er heimilt að kveða nánar á um skipulag sjóðsins og framkvæmd laga þessara með reglugerð.

9. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Lög þessi falla úr gildi í árslok árið 2011, inneign sjóðsins eftir uppgjör verkefna við þau tímamót rennur í ríkissjóð.