Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 613, 132. löggjafarþing 3. mál: ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf..
Lög nr. 133 20. desember 2005.

Lög um ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.


1. gr.

Markmið.
     Markmið laga þessara er að ráðstafa söluandvirði Landssíma Íslands hf. til að styrkja innviði íslensks samfélags án þess að raska stöðugleika í efnahagsmálum.
     Af söluandvirðinu, samtals 66,7 milljörðum kr., skal 43 milljörðum kr. varið til framkvæmda fram til ársins 2012 eins og nánar er kveðið á um í lögum þessum.

2. gr.

Vegaframkvæmdir.
     Á árunum 2007–2010 skal verja 15.000 millj. kr. til framkvæmda í vegamálum til viðbótar við það fé sem ætlað er til slíkra framkvæmda á vegáætlun.
     Fé til framkvæmda í vegamálum skiptist svo:
  1. Sundabraut: 8.000 millj. kr.
  2. Verja skal til þessa verkefnis 1.500 millj. kr. árið 2007, 2.500 millj. kr. árið 2008, 2.000 millj. kr. árið 2009 og 2.000 millj. kr. árið 2010.
  3. Breikkun Reykjanesbrautar: 1.600 millj. kr.
  4. Verja skal til þessa verkefnis 700 millj. kr. árið 2007, 600 millj. kr. árið 2008 og 300 millj. kr. árið 2009.
  5. Gerð gatnamóta við Nesbraut: 600 millj. kr.
  6. Fé þessu skal verja til framkvæmda árið 2007.
  7. Vestfjarðavegur: 700 millj. kr.
  8. Verja skal til þessa verkefnis 300 millj. kr. árið 2008, 200 millj. kr. árið 2009 og 200 millj. kr. árið 2010.
  9. Tröllatunguvegur um Arnkötludal: 800 millj. kr.
  10. Verja skal til þessa verkefnis 400 millj. kr. árið 2007 og 400 millj. kr. árið 2008.
  11. Þverárfjallsvegur: 300 millj. kr.
  12. Verja skal til þessa verkefnis 200 millj. kr. árið 2007 og 100 millj. kr. árið 2008.
  13. Norðausturvegur: 1.500 millj. kr.
  14. Verja skal til þessa verkefnis 300 millj. kr. árið 2007, 400 millj. kr. árið 2008, 400 millj. kr. árið 2009 og 400 millj. kr. árið 2010.
  15. Hringvegur um Hornafjarðarfljót: 800 millj. kr.
  16. Verja skal til þessa verkefnis 400 millj. kr. árið 2008 og 400 millj. kr. árið 2009.
  17. Bræðratunguvegur um Hvítá: 300 millj. kr.
  18. Verja skal til þessa verkefnis 100 millj. kr. árið 2008 og 200 millj. kr. árið 2009.
  19. Suðurstrandarvegur: 400 millj. kr.
  20. Verja skal til þessa verkefnis 200 millj. kr. árið 2008 og 200 millj. kr. árið 2009.


3. gr.

Uppbygging Landspítala – háskólasjúkrahúss.
     Verja skal samtals 18.000 millj. kr. til uppbyggingar Landspítala – háskólasjúkrahúss á lóð stofnunarinnar við Hringbraut í Reykjavík. Framlagi þessu skal verja til að ljúka skipulagsvinnu og undirbúningi svæðisins, byggja slysa- og bráðaþjónustu og reisa hús fyrir rannsóknir.
     Fjárframlögin skiptast þannig milli ára að verja skal 300 millj. kr. til þessa verkefnis árið 2005, 200 millj. kr. árið 2007, 1.500 millj. kr. árið 2008, 4.000 millj. kr. árið 2009, 4.000 millj. kr. árið 2010, 4.000 millj. kr. árið 2011 og 4.000 millj. kr. árið 2012.

4. gr.

Landhelgisgæslan.
     Verja skal 2.000 millj. kr. árið 2008 til kaupa eða leigu á fjölnota varðskipi fyrir Landhelgisgæslu Íslands.
     Þá skal verja 1.000 millj. kr. árið 2007 til kaupa eða leigu á eftirlitsflugvél fyrir Landhelgisgæslu Íslands.

5. gr.

Nýsköpun í íslensku atvinnulífi.
     Árið 2005 skal leggja fram til Nýsköpunarsjóðs 1.000 millj. kr. sem verði varið til að fjárfesta í nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum í samræmi við lögbundið hlutverk sjóðsins og ákvarðanir stjórnar hans.
     Þá skal Nýsköpunarsjóður fá 1.500 millj. kr. viðbótarframlag á árunum 2007–2009 til að standa undir hlutdeild sinni í stofnun nýrra samlagssjóða með lífeyrissjóðum og öðrum fjárfestum í nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum, enda nemi eignarhlutur annarra en Nýsköpunarsjóðs í slíkum sjóði a.m.k. 50%.

6. gr.

Fjarskiptasjóður.
     Leggja skal fram samtals 2.500 millj. kr. til nýs fjarskiptasjóðs sem hafi það hlutverk að stuðla að uppbyggingu á sviði fjarskiptamála, m.a. bættri farsímaþjónustu á landsbyggðinni og víðtækari dreifingu stafræns sjónvarps um gervihnött og átaki í háhraðatengingum á landinu.
     Fjárframlagið skiptist þannig milli ára að í sjóðinn fara 1.000 millj. kr. árið 2005, 500 millj. kr. árið 2007, 500 millj. kr. árið 2008 og 500 millj. kr. árið 2009.

7. gr.

Framkvæmdir í þágu geðfatlaðra.
     Verja skal samtals 1.000 millj. kr. til uppbyggingar búsetuúrræða og þjónustu við geðfatlaða.
     Fjárframlögin skiptast þannig milli ára að verja skal 200 millj. kr. til verkefnisins árið 2005, 200 millj. kr. árið 2007, 300 millj. kr. árið 2008 og 300 millj. kr. árið 2009.

8. gr.

Nýbygging fyrir Stofnun íslenskra fræða – Árnastofnun.
     Verja skal samtals 1.000 millj. kr. til nýbyggingar fyrir Stofnun íslenskra fræða – Árnastofnun.
     Fjárframlögin skiptast þannig milli ára að verja skal 300 millj. kr. til þessa verkefnis árið 2007, 300 millj. kr. árið 2008 og 400 millj. kr. árið 2009.

9. gr.

Gildistaka.
     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 9. desember 2005.