Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 555. máls.

Þskj. 809  —  555. mál.Frumvarp til laga

um landshlutaverkefni í skógrækt.

(Lagt fyrir Alþingi á 132. löggjafarþingi 2005–2006.)
1. gr.

Tilgangur og markmið.


    Í því skyni að skapa skógarauðlind á Íslandi, rækta fjölnytjaskóga og skjólbelti, treysta byggð og efla atvinnulíf, skal eftir því sem nánar er ákveðið í fjárlögum hverju sinni veita fé til verkefna í skógrækt sem bundin eru við sérstaka landshluta. Í hverju landshlutaverkefni skal stefnt að ræktun skóga á að minnsta kosti 5% af flatarmáli láglendis neðan 400 m yfir sjávarmáli.

2. gr.

Skilgreiningar.


    Í lögum þessum, reglugerðum og reglum, settum á grundvelli þeirra, er merking hugtaka sem hér segir:
     1.      Fjölnytjaskógrækt. Ræktun skógar að teknu tilliti til fjölþætts efnahagslegs, félagslegs og náttúrufarslegs hlutverks skógarins.
                  Meginmarkmið fjölnytjaskógræktar er tvenns konar, nytjaskógrækt og landbótaskógrækt.
     2.      Nytjaskógrækt. Ræktun skógar með það að meginmarkmiði að framleiða viðarafurðir til iðnaðarnota.
     3.      Landbótaskógrækt. Ræktun skógar með það að meginmarkmiði að fegra land, bæta jarðveg og nýta verndarmátt skóga.
     4.      Skjólbelti. Raðir eða þyrping trjáa og runna sem ræktuð eru í því skyni að auka hvers kyns uppskeru, skýla búfénaði og mannvirkjum tengdum landbúnaði eða sem undanfari skógræktar á bersvæði.

3. gr.

Landshlutaverkefni í skógrækt.


    Landbúnaðarráðherra er heimilt eftir því sem fé er veitt til á fjárlögum hverju sinni að starfrækja sérstök landshlutaverkefni í skógrækt. Landshlutaverkefnin eru: Suðurlandsskógar, Norðurlandsskógar, Skjólskógar á Vestfjörðum, Vesturlandsskógar og Héraðsskógar á Austurlandi.
    Verkefnin heyra undir landbúnaðarráðuneytið og skulu þau veita framlög til fjölnytjaskógræktar og skjólbeltaræktar á lögbýlum.
    Landbúnaðarráðherra getur, í samráði við Skógrækt ríkisins, falið stjórn landshlutaverkefnanna umsjón annarra tengdra verkefna í skógrækt.

4. gr.

Landshlutaáætlanir.


    Fyrir hvert landshlutaverkefni skal gera sérstaka landshlutaáætlun. Áætlunin skal ná yfir 40 ár og taka mið af bæði skógræktarlegum og hagrænum forsendum. Áætlunina, eða einstaka þætti hennar, skal endurskoða á 10 ára fresti, eða oftar ef ljóst er að forsendur áætlunar bresta, og leiðrétta ef afgerandi frávik verða.
    Landshlutaáætlun skal taka mið af þeim fjárveitingum sem Alþingi hefur ætlað landshlutaverkefnunum í sérstakri þingsályktun þar um, sem landbúnaðarráðherra leggur fram og ná skal til 10 ára í senn.

5. gr.

Stjórn og rekstur.


    Landbúnaðarráðherra skipar þriggja manna stjórn fyrir hvert landshlutaverkefni til fjögurra ára í senn. Skal einn stjórnarmanna tilnefndur af félagi skógarbænda á viðkomandi svæði, annar af Skógrækt ríkisins og sá þriðji skipaður án tilnefningar.
    Stjórnin hefur á hendi yfirstjórn verkefnisins og samþykkir starfs- og fjárhagsáætlanir þess. Hún ræður framkvæmdastjóra sem annast daglegan rekstur.
    Skógrækt ríkisins veitir aðstoð og faglegar leiðbeiningar við verkefnin. Landbúnaðarráðherra setur stjórnum landshlutaverkefnanna starfsreglur.

6. gr.

Samningar.


    Landshlutaverkefni á hverju svæði skal gera samning um þátttöku í skógræktarverkefni við hvern skógarbónda, sem fær framlag samkvæmt ákvæðum þessara laga. Samningur skal taka mið af gildandi landshlutaáætlun hverju sinni, sbr. 4. gr., og skal þar tekið fram hvers konar fjölnytjaskógrækt og/eða skjólbeltarækt stefnt er að.
    Samningurinn skal hið minnsta vera til 40 ára og vera á formi sem landbúnaðarráðherra hefur staðfest, að fengnu áliti Skógræktar ríkisins og Landssamtaka skógareigenda.
    Ef annar en landeigandi, eða eftir atvikum annar en rétthafi, undirritar samning um skógræktarverkefni skal landeigandi samþykkja hann með áritun sinni. Samningnum skal þinglýst á þá fasteign sem hann tekur til.

7. gr.

Uppsögn samnings og endurgreiðsla framlaga.


    Óski skógarbóndi eða landeigandi eftir því að losa land sitt undan kvöðum samkvæmt samningi um þátttöku í skógræktarverkefni áður en samningstíma er lokið skal hann endurgreiða framlög ásamt verðbótum samkvæmt vísitölu neysluverðs. Endurgreiðslufjárhæðin lækkar hlutfallslega út samningstímann og fyrnist um 2,5% á almanaksári, hafi samningur verið virkur í a.m.k. 10 ár, og fellur skuldin niður eftir 40 ár. Framlög sem veitt eru síðustu 10 ár fyrir uppsögn fyrnast þó ekki.
    Óski verkefnisstjórn eftir því að losna undan skuldbindingum samnings um þátttöku í skógræktarverkefni skal skógarbónda og landaeiganda tilkynnt um það með sannanlegum hætti. Uppsögn samkvæmt þessari málsgrein skal tilkynnt fyrir 1. október og tekur gildi frá og með næstu áramótum. Ekki skal endurgreiða samningsbundin framlög vegna uppsagnar samkvæmt þessari málsgrein. Eftir að samningur um þátttöku fellur niður gilda ákvæði skógræktarlaga um skóginn að öðru leyti.

8. gr.

Um samningsbrot.


    Skýri þátttakandi rangt frá staðreyndum sem máli skipta við skógræktarverkefni á samningslandi eða vanefni að öðru leyti skyldur sínar ítrekað eða í veigamiklum atriðum er verkefnisstjórn heimilt að rifta samningi og endurheimta framlög.
    Áður en verkefnisstjórn tekur ákvörðun skv. 1. mgr. skal skógarbónda, og landeiganda, sé hann annar, með sannanlegum hætti gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum skriflega á framfæri. Ákvörðun verkefnisstjórnar skal rökstudd og má skjóta henni til landbúnaðarráðherra innan 30 daga frá því að hún var kynnt hlutaðeigandi. Kæra frestar því að ákvörðun verði virk.

9. gr.

Þátttaka í kostnaði.


    Þátttaka ríkissjóðs í kostnaði hvers landshlutaverkefnis greiðist með sérstakri fjárveitingu sem færð er undir landbúnaðarráðuneytið.
    Landshlutaverkefnin greiða undirbúnings- og rekstrarkostnað og laun stjórnar og fastra starfsmanna. Enn fremur greiða þau allt að 97% af samþykktum kostnaði við skógrækt.

10. gr.

Ársskýrslur og ársreikningar.


    Ársskýrslur og ársreikningar landshlutaverkefna skulu samþykktir af viðkomandi stjórn og skulu enn fremur staðfestir af landbúnaðarráðherra. Þar skal koma fram staða framkvæmda og verkefnisins í heild á hverjum tíma og yfirlit yfir ráðstöfun fjármuna. Landshlutaverkefnin skulu skila ársskýrslu sinni sem staðfest hefur verið af ráðherra til Skógræktar ríkisins.
    Reikninga landshlutaverkefna skal birta í Stjórnartíðindum, endurskoðaða af Ríkisendurskoðun.

11. gr.

Reglugerð og almenn lagaákvæði.


    Að öðru leyti en greinir í lögum þessum fer um ræktun og meðferð skóga sem ræktaðir eru fyrir tilstuðlan landshlutaverkefna í skógrækt samkvæmt ákvæðum laga um skógrækt, nr. 3/1955, með síðari breytingum.
    Landbúnaðarráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þessara laga.

12. gr.

Gildistaka og brottfall eldri laga.


    Lög þessi öðlast þegar gildi. Við gildistöku þeirra falla úr gildi lög um Héraðsskóga, nr. 32/1991, lög um Suðurlandsskóga, nr. 93/1997, og lög um landshlutabundin skógræktarverkefni, nr. 56/1999. Skógræktarsamningar sem gerðir voru með stoð í þeim lögum halda gildi sínu. Ákvæði laga þessara gilda um eldri skógræktarsamninga eftir gildistöku þeirra, eftir því sem við á.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Stjórnir núverandi skógræktarverkefna halda umboði sínu þar til ný stjórn hefur verið skipuð samkvæmt ákvæðum laga þessara. Skógræktarverkefni samkvæmt lögum þessum taka við réttindum og skyldum eldri skógræktarverkefna.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í ákvæði I til bráðabirgða í núgildandi lögum um landshlutabundin skógræktarverkefni, nr. 56/1999, kemur fram að landbúnaðarráðherra skuli fjórum árum frá setningu laganna endurskoða ákvæði þeirra, auk ákvæða laga um Héraðsskóga, nr. 32/1991, og Suðurlandsskóga, nr. 93/1997. Frumvarpi þessu er ætlað að verða við þeim lagafyrirmælum, enda ljóst að komið er fram yfir þann tíma sem lögum nr. 56/1999 var ætlað að gilda. Töluverð reynsla er komin á þá starfsemi sem fram fer nú undir þremur mjög svipuðum lagabálkum. Reynslan af framkvæmd laganna hefur verið mjög góð og mikill áhugi um allt land á verkefnunum, ekki aðeins meðal þátttakenda heldur einnig annarra, svo sem sveitarstjórna og almennings. Nú hafa verið gerðir um 760 samningar við skógræktarbændur og aðra landeigendur og rúmlega 100 jarðir eru á biðlista. Alls hafa verið gróðursettar um 40 milljónir plantna í um 18 þúsund hektara lands.
    Hins vegar hefur reynslan sýnt að núgildandi lagabálkar taka ekki á nokkrum álitamálum sem töluverð óvissa hefur ríkt um og nauðsynlegt er að kveðið sé skýrt á um í lögum.
    Helstu nýmæli laganna má segja að séu skýr ákvæði um endurgreiðslu skógræktarframlaga og fyrningu þeirra og skýr ákvæði um þau tilvik þegar skógarbóndi hefur vanefnt samning, skógarbóndi vill segja upp samningi eða skógræktarverkefni vill sjálft losna undan samningi. Skilin milli Skógræktar ríkisins og verkefnanna eru gerð skýrari og hlutverk landshlutaverkefnanna afmarkað.
    Mikilvægt nýmæli er að finna í frumvarpinu þar sem gert er ráð fyrir því að ákvæði núgildandi laga um að skógarbóndi greiði til baka hluta af þeim tekjum sem hann kann að hafa af skóginum falli brott. Í núgildandi lögum um landshlutabundin skógræktarverkefni og lögum um Suðurlandsskóga og Héraðsskóga er gert ráð fyrir því að skógarbændur greiði allt frá 15–35% af söluverðmæti hvers rúmmetra trjáviðar á rót til baka þegar kemur að því að trén eru felld. Í 6. gr. núgildandi laga um landshlutabundin skógræktarverkefni er hlutfallið sem greiða á til ríkisins af verðmæti trjáviðar 15%. Sambærilegt ákvæði um 15% endurgreiðsluhlutfall er nú í 5. gr. laga um Suðurlandsskóga. Í lögum um Héraðsskóga er endurgreiðsluhlutfallið enn hærra, eða 30%, og við það bætist 5% framlag sem greiða á inn á endurnýjunarreikning í vörslu Héraðsskóga. Sterk rök hafa verið færð fram fyrir því að ef skógrækt sem atvinnugrein hér á landi eigi að verða arðbær megi endurgreiðslubyrði ekki verða of þung, þ.e. landeigendur verða að sjá sér hag í að fella trén og koma afurðunum á markað. Rétt er að benda á að virðisauki skógræktarinnar felst auk timburframleiðslu í ýmsu öðru, svo sem bindingu kolefnis, fjölbreyttara náttúrufari, heftingu jarðvegseyðingar og útivistargildi svo eitthvað sé nefnt. Þá hefur einnig verið á það bent að þá og þegar timburskógar verða felldir og afurðir settar á markað gefast stjórnvöldum margar leiðir til að skattleggja atvinnugreinina á raunhæfan máta. Það er með öðrum orðum mjög erfitt að segja til um það nú hversu hátt endurgreiðsluhlutfallið á að vera þegar þar að kemur, en samdóma álit þeirra sem leitað hefur verið til um þetta atriði er að endurgreiðsluhlutfallið sem nú er í lögum sé of hátt og muni m.a. verka hamlandi á framboð viðar úr skóginum.
    Gert er ráð fyrir því að landbúnaðarráðherra setji reglugerð um nánari framkvæmd laganna.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í 1. mgr. 1. gr. frumvarpsins er fjallað um tilgang og markmið laganna. Greinin er að mestu efnislega samhljóða tilsvarandi greinum í núgildandi lögum. Þó með þeirri breytingu sem gerð er á tilgangi laganna að viðurkennt er að markmið með skógrækt geti verið margvísleg og misjöfn og háð bæði aðstæðum og óskum landeigenda á hverjum stað. Meðal markmiða með skógrækt er timburframleiðsla, framleiðsla annarra timburafurða, uppgræðsla lands og jarðvegsvernd, myndun skjóls fyrir fólk, búfé, ræktun eða byggingar, endurheimt framleiðni og virkni vistkerfa og kolefnisbinding. Hægt er að hanna og rækta skóg þannig að áhersla sé einkum lögð á eitt markmið, t.d. timburskógrækt, eða mörg markmið samtímis, þ.e. fjölnytjaskógrækt. Setning markmiða með skógrækt eða skjólbeltarækt á hverjum stað fer fram samfara gerð ræktunaráætlunar.
    Í 2. mgr. 1. gr. er getið um það markmið sem ætlunin hefur verið að lögfesta frá því að landshlutabundnu verkefnin hófu göngu sína, þ.e. að stefnt skuli að ræktun skóga á að minnsta kosti 5% af flatarmáli láglendis neðan 400 m yfir sjávarmáli á svæði hvers verkefnis. Ákvæði þetta var áður að finna í 1. mgr. 4. gr. laga nr. 56/1999, um landshlutabundin skógræktarverkefni, en betur þykir fara á því það sé í 1. gr. þar sem fjallað er um tilgang laganna og markmið.
    Ekki er lengur gert ráð fyrir því að tilgangur landshlutaverkefna sé að vernda og hirða um það skóglendi sem fyrir er, sbr. 1. gr. laga nr. 56/1999. Hugtakið skógrækt felur í sér allt frá undirbúningi lands til lokafellingar skógar og er verkefnunum því áfram heimilt að gera samninga um eldri skóga, svo fremi að þeir séu á lögbýlum. Skógrækt ríkisins er sá aðili sem í flestum tilvikum fer með málefni er varða skóga landsins. Í 1. tölul. 1. gr. laga um skógrækt, nr. 3/1955, segir t.d. að Skógrækt ríkisins skuli m.a. rekin með það að markmiði að vernda, friða og rækta skóga og skógarleifar, sem eru í landinu.

Um 2. gr.


    Greinin er lítið breytt frá því sem er í núgildandi lögum um landshlutabundin skógræktarverkefni, nr. 56/1999, en í henni eru helstu hugtök sem notuð eru í lögunum skilgreind. Breytingar á orðalagi miða að skýrari hugtakanotkun.

Um 3. gr.


    Samkvæmt núgildandi lögum eru nú starfrækt sex landshlutabundin skógræktarverkefni. Þau eru Héraðsskógar, sem starfa eftir lögum nr. 32/1991, Suðurlandsskógar, sem starfa eftir lögum nr. 93/1997, og Norðurlandsskógar, Skjólskógar á Vestfjörðum, Vesturlandsskógar, og Austurlandsskógar, sem starfa eftir lögum um landshlutabundin skógræktarverkefni, nr. 56/1999. Í 3. gr. er gert ráð fyrir því að landshlutaverkefnin verði eftirleiðis fimm talsins og taki Héraðsskógar á Austurlandi við verkefnum Héraðsskóga og Austurlandsskóga með brottfalli laganna um Héraðsskóga. Suðurlandsskógar falla undir landshlutaverkefnin um leið og sérlög um Suðurlandsskóga falla brott.
    Gert er ráð fyrir því að landbúnaðarráðherra sé framvegis heimilt að starfrækja landshlutaverkefni í skógrækt í stað þess að stofna til þeirra eins og er nú. Ekki er því gert ráð fyrir nýjum landshlutaverkefnum. Þá eru landshlutaverkefnin nafngreind eins og áður sagði.
    Í 2. mgr. 3. gr. frumvarpsins er stjórnsýsluleg staða verkefnanna skilgreind. Verkefnin heyra undir landbúnaðarráðherra og er hvert og eitt verkefni stjórnsýslustofnun með sérstakri stjórn. Einnig kemur fram í greininni að framlög verkefnanna eru bundin við lögbýli. Með hliðsjón af því að eitt af markmiðum laganna er að treysta byggð og efla atvinnu þykir eðlilegt að binda verkefnin áfram við lögbýli. Þróun undanfarinna ára hefur verið á þá leið að fjölmörg ný lögbýli hafa verið stofnuð til sveita, eins og sjá má af þeirri fjölgun lögbýla sem landbúnaðarráðuneytið viðurkennir árlega. Í ljós hefur komið að mörg þessara býla eru stofnuð til að hefja þar starfsemi í skógrækt. Ákvæði um lögbýlisskilyrði er nú að finna í 5. gr. laga nr. 56/1999, um landshlutabundin skógræktarverkefni.
    Í 3. mgr. er samsvarandi ákvæði og nú er að finna í 10. gr. laga nr. 56/1999, um landshlutabundin skógræktarverkefni.

Um 4. gr.


    Greinin er að mestu efnislega samhljóða 1. mgr. 4. gr. núgildandi laga um landshlutabundin skógræktarverkefni. Breyting felst þó í því að í stað þess að 40 ára áætlun hvers landshlutaverkefnis sé skipt niður í tíu ára tímabil er gert ráð fyrir endurskoðun áætlunarinnar á 10 ára fresti eða oftar. Breyting þessi er í takt við nútímavinnubrögð í skipulagsmálum og gerir verkefnunum kleift að aðlagast breyttum forsendum og nýjum áherslum sem fram kunna að koma.
    Í 2. mgr. 4. gr. er að finna nýmæli sem ætlað er að tryggja að áætlanir landshlutaverkefnanna taki mið af þeim fjárveitingum sem Alþingi hefur ætlað til skógræktarverkefnanna til 10 ára í senn. Einnig er ákvæðinu ætlað að tryggja ákveðinn fyrirsjáanleika í störfum verkefnanna. Kveðið er á um að landbúnaðarráðherra leggi fram þingsályktunartillögu á Alþingi um fjárframlög til verkefnanna. Ákvörðun Alþingis ræður svo fjárveitingunum sem verkefnin taka mið af við áætlanagerð sína og framkvæmdir. Eðli verkefnanna og framkvæmdir í skógrækt kalla á langtímaáætlanir um fjárveitingar. Þær tryggja trúverðugleika og markvissara og skilvirkara starf. Við gerð fjárhags- og framkvæmdaáætlana þessara verkefna þarf að nota aðrar vinnuaðferðir en við áætlanagerð fyrir mörg önnur verkefni eða stofnanir á vegum ríkisins. Ferlið frá því að landeigandi sækir um þátttöku í skógræktarverkefni þangað til gróðursetning hefst getur verið allt að tveimur árum. Við undirskrift skógræktarsamnings við landeiganda felst skuldbinding af beggja hálfu, m.a. hve margar plöntur skuli gróðursetja árlega. Svo að hægt verði að standa við þessa samninga þarf að ganga frá plöntukaupum við plöntuframleiðendur a.m.k. tvö ár fram í tímann til að framleiðsla þeirra og afhending plantnanna geti staðist þegar að gróðursetningu er komið. Í upphafi verkefnanna var í raun engin trygging fyrir því að verkefnin hefðu fjármagn til að leysa plönturnar út þegar þær voru tilbúnar. Vorið 2003 samþykkti Alþingi þingsályktun í anda þess sem hér er lagt til að verði lögboðið. Sú þingsályktun var til fimm ára og markaði tímamót hvað varðar alla áætlanagerð fyrir verkefnin. Þótt ekki hafi með öllu tekist að framfylgja henni hvað fjárveitingar varðar hefur hún þó verið verkefnunum leiðarljós og orðið þess valdandi að unnt hefur verið að standa við gerða samninga af ríkisins hálfu.
    

Um. 5. gr.


    Greinin er að mestu samhljóða 7. gr. laga um Suðurlandsskóga, nr. 93/1997. Gert er ráð fyrir því að stórn hvers landshlutabundins verkefnis sé í höndum þriggja manna stjórnar sem skipuð verði til fjögurra ára í senn. Í núgildandi lögum um landshlutabundin skógræktarverkefni er gert ráð fyrir fjögurra manna stjórn. Breytingin er lögð til svo að auka megi hagkvæmni í rekstri verkefnanna og minnka yfirbyggingu þeirra. Með skipan stjórnarinnar er tryggt að tekið sé mið af sjónarmiðum skógarbænda og fagsjónarmiðum þeim sem Skógrækt ríkisins er ætlað að endurspegla. Ráðherra skipar þriðja mann stjórnarinnar án tilnefningar.
    Það nýmæli er í 3. mgr. 5. gr. frumvarpsins að gert er ráð fyrir því að landbúnaðarráðherra setji stjórnum verkefnanna starfsreglur. Með setningu slíkra reglna verður leitast við að tryggja sem best samræmda framkvæmd hjá verkefnunum.

Um 6. gr.


    Ákvæði 1. mgr. greinarinnar er að mestu samhljóða 2. mgr. 4. gr. núgildandi laga um landshlutabundin skógræktarverkefni.
    Í 2. mgr. er hins vegar um nýmæli að ræða, en þar er kveðið á um að samningar við þátttakendur skuli vera til 40 ára. Í núgildandi lögum eru ekki ákvæði um gildistíma samninga. Sú hefð hefur þó skapast að gera samninga til 10 ára með ákvæðum sem ná til allt að 40 ára. Á því fyrirkomulagi eru augljósir gallar. Um er að ræða ákvæði um framlög til fyrstu grisjunar, sem að mati Skógræktar ríkisins getur átt sér stað allt að 40 árum eftir gróðursetningu og er nauðsynleg til að tryggja að tiltekin markmið með skógrækt náist. Með ákvæðinu um samningstíma eru tekin af öll tvímæli um gildistíma þeirra.
    Í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 56/1999, um landshlutabundin skógræktarverkefni, er gert ráð fyrir því að landbúnaðarráðherra staðfesti samninga við hvern og einn þátttakanda verkefnis. Nú er lagt til að þessi háttur verði aflagður. Ekki er talin þörf á því að ráðuneytið staðfesti alla samninga og er ábyrgð á því að samningarnir séu lögformlega réttir lögð á herðar landshlutaverkefnanna sjálfra. Það að ráðuneytið hafi áður staðfest það staðlaða form sem notað er að fengnu áliti Skógræktar ríkisins og Landssamtaka skógareigenda er talið fullnægjandi.

Um 7. gr.


    Greinin er nýmæli sem ætlað er að skýra réttarstöðu og uppgjör aðila skógræktarsamnings ef aðilar vilja losna undan samningi áður en gildistími hans rennur út. Í 1. mgr. er tilgreint hvernig skuli fara að vilji landeigandi losa land sitt í heild eða að hluta undan samningi áður en gildistími hans rennur út. Með þessu ákvæði verður til reiknuð „skuld“ eða endurgreiðslufjárhæð sem telst þá vera „skuld“ skógarbónda við viðkomandi landshlutaverkefni. Er hugsanlegt að slík reiknuð „skuld“ geti haft neikvæð áhrif á markaðsverð jarðar. Til að draga úr slíkum áhrifum er gert ráð fyrir að „skuldin“ fyrnist með tíma. Endurgreiðslufjárhæðin fyrnist hlutfallslega um 1/ 40, eða 2,5%, á almanaksári. Fyrningin hefst strax árið eftir að framlag er fengið, þó þannig að síðustu 10 ár fyrir uppsögn samnings fyrnast ekki. Í núgildandi lögum eru ekki ákvæði um það hvernig skuli fara með mál ef skógarbóndi vill losna undan samningi. Í reynd hefur verið litið svo á að skógur sem plantað er eftir núgildandi lögum sé ekki eign landeiganda, eða skógarbónda eftir atvikum, fyrr en að samningstíma loknum og þá gildi þó áfram um hann ákvæði laganna um endurgreiðslu. Í núgildandi lög hefur hins vegar vantað skýr ákvæði um meðferð mála ef skógarbóndi vill hætta í verkefni.
    Í 2. mgr. greinarinnar er að finna ákvæði um það þegar verkefnisstjórn vill losna undan samningsskuldbindingum. Greinin kveður á um lágmarksmálsmeðferðarreglur ef svo ber undir.
    Segi þátttakandi í skógræktarverkefni upp samningi í heild eða að hluta skv. 7. gr., skal hann endurgreiða framlög sem hann hefur fengið til skógræktar á viðkomandi svæði. Endurgreiðsla fyrnist um 1/ 40, eða 2,5%, á almanaksári. Fyrningin hefst strax árið eftir að framlag er fengið, þó þannig að síðustu 10 ár fyrir uppsögn samnings fyrnast ekki.
         Dæmi um útreikning:
                  Skógarbóndi gerir samning við landshlutaverkefni árið 2001 og byrjar strax að fá framlag á hverju ári þaðan í frá. Í lok árs 2015 vill skógarbóndi losa landið undan samningi. Endurgreiðir hann þá heildarupphæð framlags áranna 2006–2015 framreiknað með vísitölu neysluverðs. Framlagið frá 2005 hefur fyrnst um 11/ 40, eða 27,5%, og endurgreiðir skógarbóndi því 29/ 40, eða 72,5%, af framlagi þess árs. Framlagið frá 2004 hefur fyrnst um 12/ 40 og er endurgreiðsla því 28/ 40, framlagið frá 2003 um 13/ 40 og endurgreiðsla því 27/ 40, framlagið frá 2002 um 14/ 40 og endurgreiðsla því 26/ 40, framlagið frá 2001 um 15/ 40 og endurgreiðsla því 25/ 40. Gert er ráð fyrir því að endurgreiðslan sé framreiknuð miðað við vísitölu neysluverðs.
    Vilji skógarbóndi segja upp samningi fyrir hluta samningsbundna landsins endurgreiðir hann samkvæmt sömu fyrningarreglu annars vegar framlög vegna framkvæmda á því svæði sem sem hann vill losa undan samningi miðað við framkvæmdaár og hins vegar hlutfall af sameiginlegum kostnaði sem samsvarar þeim hluta lands sem hann vill undanskilja samningi.
         Dæmi um útreikning:
                  Skógarbóndi vill losa undan samningi landskika sem nemur 4 hekturum af samtals 40 hektara samningsbundnu svæði, eða 10%. Á því svæði var jarðunnið fyrir 20 árum, gróðursett fyrir 19 árum og grisjað fyrir fimm árum. Framlagið fyrir jarðvinnslu er fyrnt um 20/ 40 og fyrir plöntur og gróðursetningu um 19/ 40, en framlagið fyrir grisjun er ekkert fyrnt. Endurgreiðir skógarbóndi því verkefninu 20/ 40af framlaginu vegna jarðvinnslu, 21/ 40 af framlaginu fyrir plöntur og gróðursetningu og allt framlagið fyrir grisjun á viðkomandi svæði, allt uppfært miðað við neysluvísitölu. Auk þessa hefur hann fengið framlög til friðunar lands (girðingarviðhalds) öll árin og endurgreiðir hann 10% af því sem hann hefur fengið undanfarin 20 ár samkvæmt fyrningarreglunni, uppfært með neysluvísitölu.

Um 8. gr.


    Greinin er nýmæli og kveður á um rétt landshlutaverkefnis til að rifta samningum og endurheimta framlög hafi þátttakendur ekki staðið við skuldbindingar sínar. Örfá tilvik hafa komið upp þar sem samningsbundinn skógarbóndi hefur vanrækt skyldur sínar, einkum um að vernda skógræktarsvæði fyrir beit. Hætta er á slíku við eigendaskipti jarða ef nýr landeigandi er ekki eins áhugasamur um skógrækt og sá sem gerði samninginn. Engin ákvæði eru í núgildandi lögum sem taka á þessum málum og er staða verkefnanna veik gagnvart landeigendum sem ítrekað brjóta samning. Grein þessari er ætlað að styrkja stöðu verkefnanna þegar slík tilvik koma upp. Kveðið er á um málsmeðferðarreglur þegar verkefni riftir samningi við skógarbónda og kæruleið til landbúnaðarráðherra í samræmi við þá almennu reglu stjórnsýsluréttarins að ákvörðun lægra setts stjórnvalds sé kæranleg til æðra setts stjórnvalds.

Um 9. gr.


    Greinin er efnislega samhljóða 5. gr núgildandi laga um landshlutabundin skógræktarverkefni, hluta 4. gr. laga um Suðurlandsskóga og hluta 4. gr. laga um Héraðsskóga. Kveðið er á um að framlög skuli nema allt að 97% af kostnaði, en það hlutfall er tilgreint í lögum um Héraðsskóga og notað af öllum verkefnunum. Greinin hefur því enga breytingu á rekstri verkefnanna í för með sér .

Um 10. gr.


    Það nýmæli er að finna í greininni að gert er ráð fyrir því að landshlutabundnu verkefnin skili ársskýrslu sinni, sem staðfest hefur verið af ráðherra, til Skógræktar ríkisins. Nauðsynlegt þykir að Skógrækt ríkisins hafi heildaryfirlit yfir framgang verkefnanna frá ári til árs.

Um 11. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 12. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um landshlutaverkefni í skógrækt.


    Frumvarpi þessu er ætlað að samræma og leysa af hólmi þrenn núgildandi sérlög um skógræktarverkefni.
    Frumvarpið er efnislega lítið breytt frá gildandi lögum. Helstu nýmæli þess felast annars vegar í ákvæðum 7. gr. um endurgreiðslu skógræktarframlaga og fyrningu þeirra komi til uppsagnar á samningi ásamt ákvæðum 8. gr. um riftun samnings og endurheimt framlaga vegna vanefnda, en á þessum þáttum er ekki tekið í gildandi lögum. Hins vegar í því að þvert á það sem er í gildandi lögum þá er í frumvarpinu ekki gert ráð fyrir að ríkissjóður eigi beina hlutdeild í tekjum af skógunum.
    Ekki er reiknað með að frumvarpið, verði það óbreytt að lögum, hafi áhrif á kostnað ríkissjóðs. Ekki eru forsendur til að meta á raunhæfan hátt tekjutap ríkissjóðs af brotthvarfi tekjuhlutdeildarákvæða gildandi laga.