Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 490. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 854  —  490. mál.
Svarviðskiptaráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur um stöðu bankanna.

    Ráðuneytið óskaði eftir því að Fjármálaeftirlitið og Samkeppniseftirlitið tækju saman svör við fyrirspurninni enda var í fyrirspurninni óskað álits þessara stofnana. Í samræmi við þetta byggjast svör ráðuneytisins alfarið á upplýsingum sem bárust frá þeim.

     1.      Hvert er álit Fjármálaeftirlitsins á mati greiningarfyrirtækjanna Barclays Capital og Credit Sights að staða viðskiptabankanna þriggja sé veikari en ársskýrslur þeirra gefa til kynna og að hraður vöxtur þeirra geti valdið þeim vandræðum í framtíðinni?
    Í svari Fjármálaeftirlitsins kemur fram að eftirlitið sé ekki sammála þeirri heildarmynd sem dregin er upp af stöðu bankanna í matsskýrslum umræddra greiningarfyrirtækja. Fyrir liggja nýleg álit alþjóðlegu matsfyrirtækjanna Moody's og Fitch um bankana þrjá, sem eru byggð á mun ítarlegri upplýsingum um starfsemi þeirra en telja verður að fyrrgreind greiningarfyrirtæki byggi mat sitt á. Enn fremur liggur fyrir nýleg skýrsla Moody´s um íslenska bankakerfið (Banking System Outlook, December 2005), sem að mati Fjármálaeftirlitsins gefur betri mynd af stöðu bankanna.
    Þá kemur fram í svari Fjármálaeftirlitsins að hröðum vexti bankanna fylgi ýmiss konar áhætta en að vöxturinn hafi jafnframt falið í sér ákveðna áhættudreifingu. Ein af forsendunum fyrir þessum vexti er að til staðar sé fullnægjandi áhættustýring hjá hverjum banka fyrir sig. Að mati Fjármálaeftirlitsins liggur ekki annað fyrir en að sá starfsþáttur bankanna sé með viðunandi hætti.

     2.      Er ástæða til að ætla að fámennur hópur tengdra aðila hafi haft áhrif til hækkunar á hlutabréfaverði umfram það sem eðlilegt getur talist og að bankarnir séu þar í lykilhlutverki? Hvaða áhrif getur það haft á fjármálastöðugleikann að útlánaþensla fjármálafyrirtækja sé að mestu fjármögnuð erlendis?

    Varðandi fyrri hluta þessa töluliðar fyrirspurnarinnar kemur fram í svari Fjármálaeftirlitsins að því sé ekki kunnugt um að þau atvik hafi átt sér stað sem lýst er í fyrirspurninni. Væru vísbendingar um slíkt kynni það að varða við 55. gr. verðbréfaviðskiptalaga um markaðsmisnotkun.
    Varðandi seinni hluta þessa töluliðar vísar Fjármálaeftirlitið til árlegrar skýrslu Seðlabanka Íslands um fjármálastöðugleika, sem gefin var út 26. apríl 2005, en þar er sérstakur kafli um fjármálafyrirtækin. Í þeim kafla er m.a. ítarlega fjallað um útlánaþenslu og gengisbundna fjármögnun bankanna og áhættur í því sambandi. Þá er í skýrslu Seðlabankans sérstakur kafli um þjóðhagslegt umhverfi og fjármálamarkaði þar sem fjallað er um þjóðhagsleg skilyrði fjármálastöðugleika. Í inngangskafla skýrslu Seðlabankans eru niðurstaða greiningar bankans dregin saman með eftirfarandi hætti: „Niðurstaða greiningar Seðlabankans er sú að þrátt fyrir að íslenska fjármálakerfið sé á mikilli siglingu og verði að glíma við ójafnvægi í þjóðarbúskap næstu árin sé það í meginatriðum traust. Það er traust í þeim skilningi að geta staðist áföll í efnahagslífi og á fjármálamörkuðum, miðlað lánsfé og greiðslum og dreift áhættu með viðhlítandi hætti.“ Samkvæmt svari Fjármálaeftirlitsins telur það að sú mynd sem dregin er upp í tilvitnaðri skýrslu Seðlabankans hafi ekki breyst í neinum verulegum atriðum. Von er á næstu skýrslu Seðlabanka Íslands um fjármálastöðugleika í apríl/maí nk.

     3.      Er það rétt að bæði Moody's og Fitch reikni inn í lánshæfismat bankanna vilja íslenskra stjórnvalda til að koma þeim til bjargar ef í nauðir rekur?

    Í skýrslu Moody´s um íslenska bankakerfið frá desember 2005, bls. 2, kemur fram eftirfarandi, í lauslegri þýðingu: „Verulegar líkur á stuðningi ríkissjóðs í tilviki kerfisáfalls.“ (Strong likelihood of state support in the event of systemic shock.) Hvað varðar fyrirliggjandi lánshæfismat frá Fitch fyrir sérhvern íslensku bankana þrjá þá felur það m.a. í sér eftirfarandi, í lauslegri þýðingu: „Banki þar sem miklar líkur eru á ytri stuðningi. Mögulegur stuðningsaðili er hátt metinn sem slíkur og hefur tilhneigingu til að veita viðkomandi banka stuðning.“ (A bank for which there is a high probability of external support. The potential provider of support is highly rated in its own right and has a high propensity to provide support to the bank in question.) Sbr. skilgreiningu á heimasíðu Fitch á einkunnagjöf fyrir stuðningseinkunnina 2 (support rating 2).

     4.      Hvert er mat Fjármálaeftirlitsins á þeirri aðvörun greiningarfyrirtækisins Credit Sights að ekki sé hægt að reiða sig um of á getu íslenska ríkisins til að bjarga bönkunum ef í harðbakka slær?

    Í svari Fjármálaeftirlitsins kemur fram að það telji sig ekki vera rétta aðilann til að svara þessum lið fyrirspurnarinnar.

     5.      Hvert er mat samkeppnisyfirvalda og Fjármálaeftirlitsins á því sem fram hefur komið nýlega í skýrslu greiningarfyrirtækisins Barclays Capital að í íslenska bankakerfinu séu óvenjulega náin og óheilbrigð eignatengsl og að slík eignatengsl og óbeinar fjárfestingar í eigin fyrirtækjum geti haft óæskileg áhrif á hagkerfið í heild sinni? Er ástæða til að bregðast við þeirri þróun?

    Í svari Fjármálaeftirlitsins kemur fram að eftirlitið sé ekki sammála þeirri mynd af eignatengslum í íslenska bankakerfinu sem dregin er upp í tilvitnaðri fullyrðingu. Þar sem um er að ræða eignatengsl í íslenska bankakerfinu sem skipta máli við mat á fjárhagsstöðu bankanna er tekið á því í reglum sem gilda um eiginfjárkröfur bankanna. Reglurnar eiga að fyrirbyggja svonefnd dóminóáhrif á eigin fé bankanna, sbr. 84. og 85. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.
    Í svari Samkeppniseftirlitsins kemur fram að það telur sig ekki hafa forsendur til að taka afstöðu til þess hvort eignatengsl í íslenska bankakerfinu séu óvenjulega náin eða óheilbrigð í samanburði við eignatengsl sambærilegra fyrirtækja í öðrum löndum, en orðalag spurningarinnar vísar til slíks samanburðar. Í svarinu kemur fram að Samkeppniseftirlitið telji hins vegar að ástæða sé til þess að fylgjast vel með þróun eignatengsla í íslenskum bönkum og raunar einnig fyrirtækjum á öðrum sviðum atvinnulífsins. Þetta sé mikilvægt, m.a. í því skyni að meta hvort myndast kunni eignatengsl sem feli í sér yfirráð í skilningi samkeppnislaga eða sem geti raskað samkeppni milli keppinauta. Enn fremur kemur fram í svari Samkeppniseftirlitsins að það muni leitast við að leggja mat á þetta í tengslum við framkvæmd samkeppnislaga.

     6.      Eru einhver þau einkenni á fjármálamarkaðnum nú og í næstu framtíð að ástæða sé til að upp geti komið alvarleg skakkaföll í fjármálakerfinu og hvernig er staða innstæðueigenda tryggð við þær aðstæður? Er ástæða til að bregðast við til að tryggja betur hag innstæðueigenda og þá hvernig?
    Í svari Fjármálaeftirlitsins við þeim hluta þessa töluliðar sem fjallar um einkenni á fjármálamarkaðinum og hugsanleg skakkaföll í fjármálakerfinu vísast til skýrslu Seðlabanka Íslands um fjármálastöðugleika frá apríl 2005. Að mati Fjármálaeftirlitsins hefur sú mynd sem þar er dregin upp af fjármálakerfinu og fjármálastöðugleika ekki breyst í neinum verulegum atriðum, sbr. enn fremur svar hér að framan við 2. tölulið fyrirspurnarinnar.
    Hvað varðar tryggingarvernd innstæðueigenda, vekur Fjármálaeftirlitið athygli ráðuneytisins á að sambærilegum spurningum var svarað af hálfu ráðuneytisins í á þskj. 780, 421. mál 131. löggjafarþings, sjá svör við 1. og 3. tölulið í því þingskjali.
    Þá vill ráðuneytið að lokum nota þetta tækifæri og geta þess að um tveggja ára skeið hefur átt sér stað óformlegt samráð forsætisráðuneytisins, fjármálaráðuneytisins, viðskiptaráðuneytisins, Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands um viðbúnað við hugsanlegum áföllum í fjármálakerfinu. Þessir aðilar hafa nýlega ákveðið að formbinda þetta samráð með samkomulagi. Með því verður leitast við að skerpa hlutverkaskiptingu, hindra tvíverknað og auka gagnsæi. Samkomulagið takmarkar ekki svigrúm hvers um sig til sjálfstæðra ákvarðana um aðgerðir út frá hlutverki og ábyrgð hvers um sig.