Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 740. máls.

Þskj. 1076  —  740. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 96/1997, um eldi og heilbrigði sláturdýra, slátrun, vinnslu, heilbrigðisskoðun og gæðamat á sláturafurðum,
með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 132. löggjafarþingi 2005–2006.)




1. gr.

    Í stað 2. og 3. mgr. 11. gr. laganna koma þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Landbúnaðarstofnun innheimtir eftirlitsgjald af sláturleyfishöfum í hlutfalli við innvigtun þeirra af hverri kjöttegund til að standa straum af kostnaði við eftirtalda þætti heilbrigðiseftirlits með sláturafurðum:
     a.      Laun og ferðakostnað kjötskoðunarlækna og aðstoðarfólks þeirra.
     b.      Reglulega sýnatöku í sláturhúsum og úrvinnslu sýna.
     c.      Rannsóknir á þeim sýnum sem nauðsynlegt er talið að taka, t.d. vegna reglubundinna mælinga á lyfjaleifum og aðskotaefnum eða rannsókna á örverum og vatni.
     d.      Nauðsynlegt námskeiðahald og viðhaldsmenntun fyrir kjötskoðunarlækna og aðstoðarfólk þeirra.
     e.      Yfirstjórn og samræmingu eftirlitsins.
     f.      Nauðsynlega aðstöðu og tækjabúnað vegna eftirlitsins.
Eftirlitsgjaldið tekur ekki til greiðslu á öðrum kostnaði við heilbrigðiseftirlit en að framan greinir.
    Viðbótareftirlit með sláturafurðum er nauðsynlegt þegar tiltekin starfsemi sláturleyfishafa eða annars aðila uppfyllir ekki þær venjulegu kröfur sem gerðar eru til framleiðslu sláturafurða að mati Landbúnaðarstofnunar vegna gruns um smitefni eða mengun eða vegna annarra atvika. Kostnaður af viðbótareftirlitinu greiðist af þeim sem ber ábyrgð á viðkomandi starfsemi til Landbúnaðarstofnunar og skal fjárhæð gjaldsins nema raunkostnaði við eftirlitið.
    Landbúnaðarráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd eftirlits og innheimtu eftirlitsgjalds samkvæmt þessari grein. Í reglugerðinni skal m.a., í samræmi við ákvæði b- og c-liðar 2. mgr., kveðið á um hvaða reglubundnu sýni skuli tekin. Ráðherra er einnig heimilt að kveða nánar á um til hvaða þátta heilbrigðiseftirlitið tekur. Ráðherra skal gefa út gjaldskrá um heilbrigðiseftirlitið sem byggð skal á raunkostnaði þess.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í 2. mgr. 11. gr. laga nr. 96/1997, um eldi og heilbrigði sláturdýra, slátrun, vinnslu, heilbrigðisskoðun og gæðamat á sláturafurðum, með síðari breytingum, er kveðið á um það með hvaða hætti gjald fyrir þá heilbrigðisskoðun sem fram fer í sláturhúsum eftir ákvæðum III. kafla laganna er innheimt. Eftirlitsgjaldið er innheimt sem ákveðin krónutala á hvert kíló kjöts, nánar sundurgreint eftir tegundum, og rennur það í sjóð í vörslu landbúnaðarráðherra. Einnig kemur fram í sömu lagagrein að eftirlitsgjaldinu sé ætlað að standa straum af heilbrigðiseftirliti kjötskoðunarlækna og að það sé miðað við raunkostnað. Í þessu frumvarpi er gert ráð fyrir því að í stað þess að Alþingi ákveði með lögum þá krónutölu sem greiða á fyrir hvert kíló kjöts vegna heilbrigðiseftirlits verði ráðherra falið með heimild í 2. mgr. 11. gr. laganna að setja gjaldskrá fyrir heilbrigðiseftirlitið sem byggð skal á raunkostnaði við eftirlitið.
    Gildandi lög tryggja ekki nægjanlega vel að gjaldtakan endurspegli raunverulegan kostnað við eftirlitið sem skapað hefur tortryggni af hálfu sláturleyfishafa. Töluverð umræða hefur t.d. verið uppi um það að kostnaður við eftirlitið, hvað varðar ákveðnar tegundir kjöts, niðurgreiði eftirlit með öðrum tegundum kjöts og því sé í raun ekki stuðst við raunkostnað. Jafnframt er ekki æskilegt og ekki í anda nútímastjórnsýslu að breyta þurfi lögum ef kostnaður eykst eða minnkar við eftirlitið og má telja að með því að heimila ráðherra að setja gjaldskrá sé auðveldara að endurspegla raunverulegan kostnað við eftirlitið og bregðast fljótar við hækkunum og lækkunum.
    Ákvörðun um fjárhæðir í gjaldskránni verður að byggjast á traustum útreikningi á þeim kostnaði sem almennt hlýst af heilbrigðiseftirlitinu, enda er óheimilt að innheimta hærra þjónustugjald en sá kostnaður er sem hlýst af því að veita þjónustu, sbr. t.d. Skýrslu umboðsmanns Alþingis 1992:220. Núverandi gjaldtaka dregur hins vegar meiri dám af almennri skattlagningu en töku þjónustugjalda enda er fjárhæð þess fastsett í lögin eins og áður segir.
    Með frumvarpinu er ætlunin að marka ramma um það til hvaða þátta heilbrigðiseftirlitið nær, einkum sökum aukinna heimilda ráðherra, og til þess að auka skýrleika laganna. Í gildandi lögum er landbúnaðarráðherra falið að setja nánari reglur um framkvæmd eftirlitsins og um innheimtu gjalds fyrir það. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að ráðherra hafi áfram sambærilegar heimildir til að kveða nánar á um framkvæmd eftirlitsins innan ramma laganna, að auki hefur hann heimild til þess að kveða nánar á um til hvaða þátta heilbrigðiseftirlitið tekur og er jafnframt falið að setja gjaldskrá um eftirlitið.
    Við gerð frumvarpsins var stuðst við reglugerð (EB) nr. 882/2004 frá 29. apríl 2004 um opinbert eftirlit með fóðri, matvælum, heilbrigði dýra og dýravernd, enda er reglugerðin nokkuð nákvæm og má að mörgu leyti telja æskilegt að íslenskur réttur sé skyldur rétti nágrannaþjóða okkar í Evrópu á þessu sviði. Reglugerð þessi hefur ekki verið tekin upp í EES- samninginn en svo kann þó að verða innan skamms, enda standa nú yfir viðræður á milli Íslands og Evrópusambandsins um upptöku viðauka I við samninginn, þar sem reglugerðina er að finna. Komi til þess að Ísland gerist aðili að viðauka I þurfa að gilda hér á landi sömu reglur og í löndum Evrópusambandsins hvað þetta varðar. Reglugerðin hefur verið tekin upp í norskan rétt.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Með 1. efnismgr. er hið gjaldskylda heilbrigðiseftirlit útfært og tekið fram til hvaða þátta það nær. Inntak eftirlitsins er hér betur útfært en í gildandi lögum og skýrt kveðið á um að eftirlitsgjaldið taki ekki til greiðslu á öðrum kostnaði en þeim sem fram kemur í málsgreininni.
    Gert er ráð fyrir því að sérstakur sjóður í vörslu landbúnaðarráherra verði lagður niður, en gjöldin renni þess í stað beint til Landbúnaðarstofnunar sem framkvæmir eftirlitið.
    Í 2. efnismgr. er mælt fyrir um það nýmæli í lögunum, sem leiðir af afmörkun 1. efnismgr., að ef þörf er á viðbótareftirliti með sláturafurðum skuli viðkomandi sláturleyfishafi eða framleiðandi greiða fyrir slíkt eftirlit sérstaklega en kostnaður af því verði ekki innifalinn í hinu almenna eftirliti sem mælt er fyrir um í 1. efnismgr. Nefna má hér þau dæmi að komi upp salmonella eða efnamengun (t.d. díoxín-mengun) þar sem taka þarf aukalega sýni, þá mun ákvæðið eiga við. Önnur dæmi eru ef kanna þarf virkni varnaraðgerða sem gripið hefur verið til eða greina þarf hvort farið hafi verið að fyrirmælum yfirvalda.
    Á síðustu árum hafa komið upp allnokkur tilvik þar sem greinst hafa á búum smitefni sem ógna matvælaöryggi og þörf hefur verið á því að taka aukalega sýni úr afurðum af einstaka búi. Slík aukasýnataka getur reynst nokkuð kostnaðarsöm. Skv. 2. efnismgr. verður framleiðandi, þar sem greinst hefur smitefni, sjálfur að bera þann kostnað sem af viðbótarsýnatökum og prófunum hlýst, enda er það í anda þess að þeir sem þarfnist nánara eftirlits, e.t.v. vegna verri aðstöðu eða verri heilbrigðisstöðu, borgi þann kostnað sjálfir. Þannig ætti það að vera framleiðendum til hagsbóta að hafa ástand búa þeirra með þeim hætti að ekki þurfi að koma til sérstakra prófana vegna smitefna hjá þeim. Með þessu er jafnframt tryggt að kostnaði vegna sýnatöku hjá einstökum framleiðendum sé ekki velt yfir á stéttina í heild sinni, sem eykur kostnað allra framleiðenda og leiðir til hækkunar verðlags.
    2. efnismgr. er í samræmi við 28. gr. fyrrgreindrar reglugerðar Evrópusambandsins nr. 882/2004.
    Í 3. efnismgr. er opnað fyrir þann möguleika ráðherra að kveða nánar á um framkvæmd eftirlitsins. Í núgildandi 3. mgr. 11. gr. er að finna svipaða heimild til handa ráðherra. Nýmæli er þó að ráðherra er sérstaklega veitt heimild til að kveða nánar á um til hvaða þátta heilbrigðiseftirlitið tekur. Heimild ráðherra samkvæmt greininni er þó ávallt bundin við þá flokka eftirlits sem taldir eru upp í 1. efnismgr., en ráðherra er heimilað að skilgreina þá nánar og sundurgreina, ef aðstæður breytast með ófyrirséðum hætti.
    Í 4. málsl. málsgreinarinnar er kveðið á um skyldu ráðherra til að setja gjaldskrá um eftirlitið sem byggjast skal á raunkostnaði við það. Við setningu gjaldskrárinnar mun ráðherra hafa samráð við eftirlits- og fagaðila til þess að tryggja að haganlegar aðferðir verði hafðar uppi við innheimtu og framkvæmd gjaldtökunnar.

Um 2. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 96/1997, um eldi og heilbrigði sláturdýra, slátrun, vinnslu, heilbrigðisskoðun og gæðamat á sláturafurðum, með síðari breytingum.

    Með frumvarpinu er lögð til breyting á gjaldtökuákvæðum laganna vegna kostnaðar við heilbrigðiseftirlit kjötskoðunarlækna í sláturhúsum. Tilgreint er hvaða kostnaði tekjum af eftirlitsgjaldinu er ætlað að standa undir og að landbúnaðarráðherra skuli setja gjaldskrá fyrir eftirlitið, byggða á raunkostnaði, í stað þess sem er í gildandi lögum að Alþingi ákveður með lögum þá krónutölu sem greiða skal fyrir hvert kíló kjöts vegna eftirlitsins. Í frumvarpinu er að finna nýmæli um greiðslu kostnaðar í þeim tilvikum að viðbótareftirlit með sláturafurðum er nauðsynlegt. Eðli máls samkvæmt yrði þar um að ræða óreglulegar tekjur á móti kostnaði og óvíst um fjárhæðir í því sambandi. Þá eru skýrðar heimildir ráðherra til reglugerðarsetningar um nánari framkvæmd eftirlitsins, innheimtu eftirlitsgjalds og til hvaða þátta eftirlitið tekur.
    Tekjur af gjaldi fyrir heilbrigðiseftirlit með sláturafurðum hafa verið álíka kostnaði við eftirlitið hin síðari ár, voru 80 m.kr. árið 2004 og samkvæmt bráðabirgðauppgjöri fyrir árið 2005 námu tekjurnar 83 m.kr. Ekki er því gert ráð fyrir að lögfesting frumvarpsins leiði til verulegra breytinga á heildartekjum af gjaldinu.
    Ekki verður séð að frumvarpið, verði það óbreytt að lögum, hafi í för með sér kostnað fyrir ríkissjóð.