Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 667. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1236  —  667. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum, nr. 13 17. apríl 1984, með síðari breytingum.

Frá allsherjarnefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Rögnu Árnadóttur og Stefán Eiríksson frá dómsmálaráðuneyti.
    Umsagnir bárust frá Fangelsismálastofnun, ríkislögreglustjóranum, Lögmannafélagi Íslands og Persónuvernd.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum vegna frekari þátttöku Íslands í samningi Evrópusambandsins um gagnkvæma réttaraðstoð í sakamálum frá 29. maí 2000 og bókun við hann frá 16. október 2001. Um er að ræða ákvæði um þær málsmeðferðarreglur sem gilda skuli þegar beiðni er sett fram um gagnkvæma réttaraðstoð í sakamálum á grundvelli samningsins.
    Nefndin ræddi á fundum sínum að samkvæmt frumvarpinu skuli fylgja þeirri málsmeðferð sem aðildarríkið tilgreinir sérstaklega að því tilskildu að formlegu skilyrðin og málsmeðferðin brjóti ekki í bága við íslensk lög. Kom fram að um nýmæli væri að ræða miðað við reglu er gilti áður milli aðildarlandanna og kvað á um að aðili sem beiðni er beint til framkvæmdi réttarbeiðni á þann hátt er lög hans gerðu ráð fyrir. Nefndin leggur því áherslu á að við meðferð réttarbeiðna séu virtar þær grundvallarreglur sem gilda um málsmeðferð samkvæmt íslenskum lögum, svo sem samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála.
    Þá vekur nefndin athygli á því að í 23. gr. samningsins um gagnkvæma réttaraðstoð í sakamálum eru ákvæði um vernd persónuupplýsinga en í 3. mgr. kemur fram að aðildarríki sem veitir persónuupplýsingar geti krafist þess að aðildarríkið sem fékk þær veiti upplýsingar um notkun þeirra. Telur nefndin að í úrræðinu felist mikilvæg réttarvernd sem nauðsynlegt geti verið að nýta.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:

    Við 1. gr. bætist nýr liður, svohljóðandi: Í stað tilvísananna „6. mgr.“ í 2. mgr. og „2. mgr.“ í 4. mgr. kemur: 7. mgr. og: 3. mgr.

    Atli Gíslason sat fundinn sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur álitinu.
    Björgvin G. Sigurðsson og Sigurjón Þórðarson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 2. maí 2006.Bjarni Benediktsson,


form., frsm.


Jónína Bjartmarz.


Ágúst Ólafur Ágústsson.Birgir Ármannsson.


Guðjón Hjörleifsson.


Sigurður Kári Kristjánsson.Guðrún Ögmundsdóttir.