Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 760. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1304  —  760. mál.
Svarheilbrigðisráðherra við fyrirspurn Valdimars L. Friðrikssonar um blóðgjafir og Blóðbankann.

     1.      Hversu margir blóðgjafar komu á ári í Blóðbankann árin 2000–2005, hversu mikið blóð var gefið á þessum árum og hver var mesti fjöldi blóðgjafa á einum degi á tímabilinu?
    Samanlagður fjöldi heimsókna í Blóðbankann var á þessu tímabili 18–20 þúsund á hverju ári. Samanlagt var safnað u.þ.b. 13.500–15.000 einingum heilblóðs á hverju ári á þessu tímabili. Minna má á að í hverri einingu eru 450 ml, þannig að um er að ræða allt að 6.750 lítra af heilblóði sem safnað er á hverju ári. Árlega eru notaðar um 13.500–15.000 einingar af rauðkornaþykkni, árleg notkun af blóðvökva var 3.000–5.000 einingar og einingar af framleiddu blóðflöguþykkni voru 1.200–1.400 árlega.
    Mesti fjöldi heimsókna blóðgjafa á einum degi í Blóðbankann við Barónsstíg var 228 blóðgjafar þann 28. nóvember 2002 og 222 blóðgjafar þann 25. nóvember 2004. Í báðum tilvikum varð að snúa blóðgjöfum frá vegna þess að eigi hafðist undan. Í þeim tilvikum hafði skapast mikil eftirspurn eftir blóðhlutum á skömmum tíma.

     2.      Hversu mörg stöðugildi voru hjá Blóðbankanum á árunum 2000–2005?
    Á þessu tímabili voru að meðaltali 40–42 stöðugildi í Blóðbankanum, starfsmenn um 50.

     3.      Hversu marga fermetra hefur Blóðbankinn undir starfsemi sína?
    Núverandi húsnæði Blóðbankans er um 650 fermetrar að brúttóstærð.

     4.      Er fyrirhugað að endurbæta húsnæði Blóðbankans eða flytja hann í nýtt húsnæði og þá hvenær?

    Endurnýjun á húsnæði Blóðbankans hefur verið til skoðunar undanfarin ár. Hefur þar bæði verið til skoðunar að byggja nýtt húsnæði sem og að leigja. Þarfalýsing fyrir leiguhúsnæði er í lokagerð og er þar gert ráð fyrir u.þ.b. tvöföldun á húsnæði. Óskað hefur verið eftir heimild fjármálaráðuneytisins til að auglýsa eftir húsnæði, en svar hefur ekki borist enn.