Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 770. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1307  —  770. mál.
Svarheilbrigðisráðherra við fyrirspurn Þuríðar Backman um þjónustu við psoriasis- og exemsjúklinga og greiðsluþátttöku Tryggingastofnunar.

     1.      Hvar hafa psoriasis- og exemsjúklingar fengið meðferð eftir að göngudeild Sjálfsbjargar á Bjargi lokaði um síðustu áramót?
    Eftir að göngudeild Sjálfsbjargar á Bjargi lokaði hafa þeir sjúklingar sem þurfa á slíkri meðferð að halda þurft að leita hennar til höfðuborgarsvæðisins.

     2.      Mun ráðherra beita sér fyrir því að þjónustu við psoriasis- og exemsjúklinga verði komið á fót á Akureyri?

    Heilbrigðisráðherra hefur fullan hug á að þjónusta við þennan sjúklingahóp verði bætt með auknum meðferðarmöguleikum á Akureyri og ráðuneytið hefur verið í sambandi við stjórnendur Fjórðungssjúkrahússins til að leita lausna við þeim vanda sem lokun göngudeildarinnar hefur skapað.

     3.      Hafa farið fram viðræður við húðsjúkdómalækna, FSA, Sjálfsbjörg eða Spoex varðandi undirbúning eða rekstur göngudeildar/húðdeildar á Akureyri?

    Stjórnendur Fjórðungssjúkrahússins hafa átt í viðræðum við ýmsa aðila um að vinna að bættri þjónustu við sjúklinga með húðsjúkdóma. Meðal annarra hafa sérfræðingar í húðsjúkdómum komið til viðræðna við stjórnendur sjúkrahússins, sem hafa fullan hug á að leysa þennan vanda. Einnig er mikilvægt að heilsugæslan á svæðinu eigi þátt í verkefninu og fleiri aðila hefur verið rætt við.

     4.      Hvenær væri hugsanlegt að slík starfsemi hæfist þar og hvernig yrði þjónustunni háttað?

    Málið er allt í skoðun af hálfu stjórnenda Fjórðungssjúkrahússins. Meðan slíkur undirbúningur og viðtöl við tengda aðila fer fram er ekki hægt að segja til um hvenær þjónustan sem komið verður á laggirnar hefst eða hvert fyrirkomulag hennar verður.

     5.      Mun ráðherra beita sér fyrir því að psoriasis- og exemsjúklingar sem búsettir eru utan höfuðborgarsvæðisins fái greiddan óhjákvæmilegan ferðakostnað vegna ítrekaðrar meðferðar í Bláa lóninu, eins og þeir sjúklingar sem leggjast inn á húðdeild LSH?
     6.      Hyggst ráðherra beita sér fyrir greiðslu ferðastyrks til sjúklinga af höfuðborgarsvæðinu sem nýta göngudeildarmeðferð Bláa lónsins?

    Ekki eru til nákvæmar upplýsingar um hversu margir fá meðferð í Bláa lóninu skipt eftir búsetu sjúklinganna. Áætla þarf viðbótarútgjöld Tryggingastofnunar ríkisins af því að greiða ferðakostnað vegna ítrekaðra meðferða í Bláa lóninu og hefur ráðuneytið það til athugunar.

     7.      Mun ráðherra beita sér fyrir endurskoðun á greiðsluþátttöku Tryggingastofnunar vegna meðferðar barna með psoriasis og exem og kostnaðar foreldra þeirra af þeim sökum?

    Greiðsluþátttaka Tryggingastofnunar ríkisins í meðferð barna með psoriasis og exem er eins og þegar um er að ræða meðferð barna með aðra sambærilega sjúkdóma. Ekki eru áform um að taka þennan sjúklingahóp út úr og gera breytingar vegna hans á greiðsluþátttöku Tryggingastofnunar.

     8.      Við hvaða erlendu meðferðarstofnun eða stofnanir hefur Tryggingastofnun gert samninga um loftslagsmeðferð fyrir psoriasissjúklinga?

    Tryggingastofnun ríkisins er með samning við Rikshospitalet í Ósló um meðferð á Vale Marina á Kanaríeyjum.

     9.      Hve margir sjúklingar sóttu um loftslagsmeðferð erlendis á tímabilinu 2000–2005 og hve margir fengu jákvæðan úrskurð?

    Nefnd samkvæmt 35. gr. laga um almannatryggingar afgreiðir umsóknir um meðferð erlendis. Á árunum 2000–2005 afgreiddi nefndin umsóknir vegna meðferðar psoriasissjúklinga eins og kemur fram í eftirfarandi töflu.

Afgreiddar umsóknir psoriasissjúklinga um loftslagsmeðferð.

Ár Fjöldi sjúklinga Samþykktir sjúklingar Samþykktar ferðir Synjað
2005 9 5 7 4
2004 14 13 15 1 (vísað frá)
2003 15 8 9 7
2002 12 7 7 5 (þar af 1 vísað frá)
2001 13 8 8 5 (þar af 1 vísað frá)
2000 12 9 9 3
Samtals 75 50 55 25 (þar af 3 vísað frá)