Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1520, 132. löggjafarþing 694. mál: Landhelgisgæsla Íslands (heildarlög).
Lög nr. 52 14. júní 2006.

Lög um Landhelgisgæslu Íslands.


I. KAFLI
Stjórn Landhelgisgæslu Íslands, starfssvæði og verkefni.

1. gr.

Hlutverk.
     Landhelgisgæsla Íslands sinnir öryggisgæslu og björgun á hafi úti, fer með löggæslu á hafinu og gegnir öðrum verkefnum samkvæmt ákvæðum laga þessara, ákvæðum reglugerða á grundvelli þeirra og öðrum lögbundnum fyrirmælum.

2. gr.

Stjórn.
     Dómsmálaráðherra fer með yfirstjórn Landhelgisgæslu Íslands.
     Ráðherra skipar forstjóra til fimm ára í senn. Forstjóri stjórnar daglegum rekstri Landhelgisgæslu Íslands og er ráðherra til ráðgjafar og aðstoðar um allt er lýtur að málefnum hennar.
     Skipurit Landhelgisgæslu Íslands skal staðfest af ráðherra.

3. gr.

Starfssvæði.
     Starfssvæði Landhelgisgæslu Íslands er hafið umhverfis Ísland, þ.e. innsævið, landhelgin, efnahagslögsagan og landgrunnið, auk úthafsins samkvæmt reglum þjóðaréttar. Landhelgisgæsla Íslands sinnir einnig verkefnum á landi í samstarfi við lögreglu og önnur yfirvöld.

4. gr.

Verkefni.
     Verkefni Landhelgisgæslu Íslands eru eftirfarandi:
  1. Öryggisgæsla á hafinu í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands, samninga við önnur ríki og ákvæði laga.
  2. Löggæsla á hafinu, þ.m.t. fiskveiðieftirlit og aðstoð við löggæslu á landi í samvinnu við ríkislögreglustjóra og lögreglustjóra.
  3. Leitar- og björgunarþjónusta við sjófarendur, skip og önnur farartæki á sjó.
  4. Leitar- og björgunarþjónusta við loftför.
  5. Leitar- og björgunarþjónusta á landi.
  6. Aðkallandi sjúkraflutningar í samvinnu við aðra björgunaraðila.
  7. Aðstoð við almannavarnir.
  8. Aðstoð, þegar eðlilegar samgöngur bregðast, svo sem vegna hafíss, snjóalaga, ofviðra eða náttúruhamfara.
  9. Eftirlit á hafinu samkvæmt lögum um siglingavernd og öðrum sambærilegum lögum.
  10. Að tilkynna um, fjarlægja eða gera skaðlaus reköld, tundurdufl, sprengjur eða aðra hluti sem sjófarendum getur stafað hætta af auk sprengjueyðingar á landi.
  11. Sjómælingar, sjókortagerð, útgáfa tilkynninga til sjófarenda, sjávarfallataflna og leiðsögubóka auk annarra rita sem tengjast siglingum.
  12. Móttaka tilkynninga frá skipum samkvæmt lögum um útlendinga og eftirlit með lögsögumörkum á hafinu.

     Ráðherra setur nánari ákvæði um framkvæmd einstakra verkefna í reglugerð.

5. gr.

Samningsbundin þjónustuverkefni.
     Landhelgisgæslu Íslands er heimilt að gera þjónustusamninga, m.a. um eftirtalin verkefni:
  1. Fiskveiðieftirlit.
  2. Fjareftirlit með farartækjum á sjó.
  3. Almennt sjúkraflug og aðstoð við læknisþjónustu.
  4. Mengunarvarnir og mengunareftirlit á hafinu.
  5. Sprengjueyðingu og hreinsun skotæfingasvæða.
  6. Eftirlit með skipum á hafinu og aðstoð við framkvæmd vitamála.
  7. Rekstur vaktstöðvar siglinga.
  8. Móttöku og miðlun tilkynninga frá skipum.
  9. Tolleftirlit.
  10. Rannsóknir og vísindastörf á hafinu eftir því sem aðstæður leyfa.

     Landhelgisgæslu Íslands er heimilt í samráði við ráðherra að taka að sér ólögbundin verkefni með samningum þegar sérstaklega stendur á.

II. KAFLI
Lögregluvald og valdbeitingarheimildir.

6. gr.

Lögregluvald.
     Eftirtaldir starfsmenn Landhelgisgæslu Íslands fara með lögregluvald þegar þeir annast eða aðstoða við löggæslu samkvæmt lögum þessum í efnahagslögsögu Íslands:
  1. Forstjóri og löglærðir fulltrúar hans.
  2. Áhafnir skipa og loftfara Landhelgisgæslu Íslands.
  3. Sprengjusérfræðingar.
  4. Yfirmenn í stjórnstöð og vaktstöð siglinga.

     Við löggæslustörf skulu starfsmenn fara eftir lögreglulögum og lögum um meðferð opinberra mála eftir því sem við á.

7. gr.

Skylda til að hlýða fyrirmælum Landhelgisgæslu Íslands.
     Áhöfnum farartækja á sjó eða hafstöðva er skylt að hlýða fyrirmælum Landhelgisgæslu Íslands.

8. gr.

Vopnaburður.
     Starfsmenn Landhelgisgæslu Íslands, sem hafa lögregluvald og starfa við löggæslu, þ.m.t. siglingavernd og sprengjueyðingu, hafa heimild til að beita skotvopnum við störf sín samkvæmt reglum sem ráðherra setur.

9. gr.

Rannsókn um borð í skipi og yfirtaka á stjórn skips.
     Handhafar lögregluvalds í skipum og loftförum Landhelgisgæslu Íslands hafa heimild til að fara um borð í farartæki á sjó eða hafstöð til rannsóknar ef grunur leikur á um lögbrot og til að sinna lögbundnu eftirliti. Þeim er heimilt að vísa farartækjum til hafnar ef nauðsynlegt er til að ljúka rannsókn máls eða til að binda enda á brotastarfsemi. Þeim er jafnframt heimilt að yfirtaka stjórn skips.
     Handhafar lögregluvalds í skipum og loftförum Landhelgisgæslu Íslands hafa heimild til að banna stjórnanda farartækis að halda til hafnar ef grunur leikur á um brot gegn lögum um siglingavernd og framkvæma öryggisleit í vistarverum og á farþegum skips.

10. gr.

Skylda til að aðstoða Landhelgisgæslu Íslands.
     Skipstjórum og öðrum sem aðstoð geta veitt er skylt að aðstoða Landhelgisgæslu Íslands við löggæslustörf og björgun mannslífa þegar þess er óskað ef það er unnt án þess að þeir stofni lífi, heilbrigði, velferð eða verulegum hagsmunum sínum í hættu.

11. gr.

Bann við að tálma Landhelgisgæslu Íslands í störfum sínum.
     Enginn má á nokkurn hátt tálma því að starfsmenn Landhelgisgæslu Íslands sinni störfum sínum.

12. gr.

Þjóðaréttur.
     Landhelgisgæsla Íslands skal virða ákvæði alþjóðasamninga sem Ísland er aðili að þegar erlend skip eða hafstöðvar eiga í hlut.

III. KAFLI
Nánar um verkefni Landhelgisgæslu Íslands.

13. gr.

Björgun og aðstoð við sæfarendur.
     Landhelgisgæsla Íslands stjórnar og ber ábyrgð á leitar- og björgunaraðgerðum á hafinu.
     Landhelgisgæsla Íslands og starfsmenn hennar eiga rétt á björgunarlaunum samkvæmt siglingalögum og loftferðalögum.
     Ráðherra setur reglugerð um stjórnun björgunaraðgerða og samvinnu við aðra björgunaraðila.

14. gr.

Björgun og aðstoð við loftför.
     Landhelgisgæsla Íslands aðstoðar við leit að loftförum sem lenda í flugatvikum, flugslysum eða er saknað yfir sjó. Flugmálastjórn stjórnar leitarstarfi fram til þess að slysstaður finnst en Landhelgisgæsla Íslands tekur ábyrgð á vettvangsstjórn ef slysstaður er á hafinu.

15. gr.

Sprengjueyðing.
     Landhelgisgæsla Íslands sér um að tilkynna, fjarlægja eða gera skaðlaus reköld, tundurdufl, sprengjur eða aðra hluti sem almenningi getur stafað hætta af bæði til sjós og lands.
     Ráðherra setur reglugerð um starfsemi sprengjusérfræðinga. Í reglugerðinni skal kveðið á um hæfisskilyrði, menntun og starfsreynslu sprengjusérfræðinga. Landhelgisgæsla Íslands gefur út starfsleyfi til starfsmanna sem uppfylla kröfur reglugerðarinnar og heimild þeirra til að halda réttindanámskeið í faginu.
     Landhelgisgæsla Íslands getur með samningum tekið að sér sprengjueyðingu og eyðingu hættulegra efna sem ekki teljast til lögbundinna verkefna stofnunarinnar.

16. gr.

Innflutningur og varsla sprengiefna og skotvopna.
     Landhelgisgæsla Íslands hefur heimild til að flytja inn, geyma og nota sprengiefni og skotvopn vegna starfa handhafa lögregluvalds. Fylgt skal verklagsreglum sem samþykktar eru af ráðherra um skráningu sprengiefnis og skotvopna í eigu stofnunarinnar, geymslu þeirra og notkun.

17. gr.

Sjómælingar.
     Ríkið er eigandi að öllum höfundaréttindum sem Landhelgisgæsla Íslands og Sjómælingar Íslands hafa öðlast. Um höfundarétt gilda að öðru leyti höfundalög.
     Landhelgisgæsla Íslands miðlar upplýsingum og er heimilt að veita aðgang að gögnum á sviði sjómælinga.
     Landhelgisgæslu Íslands er heimilt að afla sér tekna með sölu á afnotum af efni í vörslu stofnunarinnar og framleiðslu sem nýtur höfundaréttar. Gjöld skulu ákvörðuð í gjaldskrá sem ráðherra staðfestir og skal birta hana í B-deild Stjórnartíðinda. Gjaldskrá skal taka mið af kostnaði við þjónustu og framkvæmd einstakra verkefna, sbr. 1. og 2. mgr., þannig að mætt sé öllum þeim kostnaði sem af því hlýst.
     Ráðherra setur reglugerð um sjómælingar, sjókorta- og hafnakortagerð og annað efni á sviði sjómælinga sem Landhelgisgæsla Íslands gefur út. Í reglugerðinni skal kveðið á um kröfur um hæfisskilyrði, menntun og starfsreynslu sjómælinga- og sjókortagerðarmanna. Landhelgisgæsla Íslands gefur út starfsleyfi til starfsmanna sem uppfylla kröfur reglugerðarinnar og heimild þeirra til að halda réttindanámskeið í faginu.
     Heimilt er að semja við innlend og erlend fyrirtæki og stofnanir um framkvæmd ákveðinna verkefna sjómælinga og stofna hlutafélag um starfsemina.

18. gr.

Fjareftirlit með fiskiskipum.
     Landhelgisgæsla Íslands annast fjareftirlit með íslenskum fiskiskipum og móttekur og miðlar upplýsingum um íslensk og erlend fiskiskip úr fjareftirlitskerfinu í samræmi við alþjóðasamninga sem Ísland er aðili að.

19. gr.

Móttaka tilkynninga og miðlun upplýsinga.
     Tilkynningar frá farartækjum á sjó sem Landhelgisgæslu Íslands er falið að taka á móti skulu berast á þar til gerðu eyðublaði. Þar skulu koma fram allar upplýsingar sem stjórnendum farartækja á sjó eða útgerðum þeirra er skylt að veita.
     Landhelgisgæslu Íslands er heimilt að veita öðrum opinberum stofnunum upplýsingar um farartæki á sjó vegna lögboðins eftirlits þeirra. Einnig er heimilt að veita erlendum ríkjum upplýsingar um farartæki á sjó í samræmi við alþjóðasamninga sem Ísland hefur gert.
     Heimilt er að nýta allar upplýsingar um farartæki á sjó sem berast stjórnstöð Landhelgisgæslu Íslands til björgunarstarfa, fiskveiðieftirlits, löggæslustarfa og annars eftirlits á vegum ríkisins.

IV. KAFLI
Skipulag, stjórn og starfsmenn.

20. gr.

Ráðning starfsliðs.
     Forstjóri ræður aðra starfsmenn Landhelgisgæslu Íslands og ákveður starfssvið þeirra í samræmi við þarfir stofnunarinnar, sérþekkingu þeirra og réttindi.

21. gr.

Einkennisfatnaður og skilríki handhafa lögregluvalds.
     Við störf sín skulu starfsmenn Landhelgisgæslu Íslands bera einkennisbúninga samkvæmt reglugerð sem ráðherra setur. Handhafar lögregluvalds skulu bera á sér sérstök skilríki við framkvæmd starfa sinna. Ráðherra ákveður útlit, efni og notkun skilríkja með reglugerð.

22. gr.

Bann við verkföllum.
     Þeir starfsmenn Landhelgisgæslu Íslands sem sinna löggæslustörfum mega hvorki fara í verkfall né taka þátt í verkfallsboðun.

23. gr.

Bætur vegna líkams- eða munatjóns.
     Ríkissjóður skal bæta starfsmönnum Landhelgisgæslu Íslands, sem áhættusöm störf vinna, líkamstjón og munatjón sem þeir verða fyrir við störf sín. Greiða skal bætur fyrir missi framfæranda ef því er að skipta.

24. gr.

Trúnaðarlæknir.
     Starfsmenn Landhelgisgæslu Íslands skulu gangast undir læknisskoðun hjá trúnaðarlækni stofnunarinnar samkvæmt fyrirmælum yfirmanns ef þurfa þykir.
     Ráðherra er heimilt að setja reglur um lágmarkskröfur til heilsufars og líkamlegs atgervis starfsmanna sem teljast til starfsgengisskilyrða þeirra.

V. KAFLI
Rekstur skipa og loftfara.

25. gr.

Skip, loftför og önnur farartæki Landhelgisgæslu Íslands.
     Landhelgisgæsla Íslands gerir út skip og rekur loftför auk annarra farartækja sem nauðsynleg eru til gæslu landhelginnar og annarra verkefna stofnunarinnar. Bjóða má út eða stofna hlutafélag um flugrekstur, skiparekstur eða tækniþjónustu Landhelgisgæslu Íslands með skilyrðum sem ráðherra setur, að fengnum tillögum stofnunarinnar. Þá geta tæki verið eign Landhelgissjóðs.
     Skip og loftför Landhelgisgæslu Íslands skulu auðkennd með skjaldarmerki Íslands á áberandi stað. Skip skulu einkennd nafni en loftför með nafni og skrásetningareinkennum.
     Ráðherra ákveður með reglugerð lit og önnur einkenni farartækja Landhelgisgæslu Íslands.
     Landhelgisgæsla Íslands skal hafa tilskilin leyfi fyrir þeirri starfsemi sem stunduð er á hverjum tíma og lúta eftirliti Flugmálastjórnar eftir því sem við á.

26. gr.

Leynd yfir ferðum skipa og loftfara Landhelgisgæslu Íslands.
     Óheimilt er að greina opinberlega frá ferðum skipa og loftfara Landhelgisgæslu Íslands nema með samþykki stofnunarinnar. Einnig er óheimilt með öðrum hætti að veita áhöfnum skipa slíkar upplýsingar í þeim tilgangi að forða þeim frá rannsókn og kæru vegna lögbrots á hafinu.

27. gr.

Landhelgissjóður.
     Í sjóð, er nefnist Landhelgissjóður Íslands, skal renna sektarfé og andvirði upptækra verðmæta vegna brota gegn fiskveiðilöggjöfinni, og enn fremur hlutur Landhelgisgæslu Íslands af björgunarlaunum.
     Fé úr Landhelgissjóði skal varið til að fjármagna kaup eða leigu á skipum, loftförum eða öðrum tækjum til að sinna verkefnum Landhelgisgæslu Íslands.
     Ráðherra getur ákveðið að hluta af árlegum tekjum og vöxtum sjóðsins megi verja til rekstrarútgjalda Landhelgisgæslu Íslands.

VI. KAFLI
Ýmis ákvæði.

28. gr.

Nánari reglur um framkvæmd laganna.
     Ráðherra setur nánari reglur um framkvæmd laga þessara.

29. gr.

Refsingar.
     Brot gegn 7., 9., 10., 11. og 26. gr. laga þessara varða eins árs fangelsi eða fésektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.

30. gr.

Gildistaka.
     Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2006. Frá sama tíma falla úr gildi lög um Landhelgisgæslu Íslands, nr. 25 22. apríl 1967, með síðari breytingum, og lög um ráðstafanir til varnar því, að skipum sé leiðbeint við ólöglegar fiskveiðar, nr. 83 23. júní 1936, með síðari breytingum.

Samþykkt á Alþingi 3. júní 2006.