Vegalög

Þriðjudaginn 30. janúar 2007, kl. 15:31:06 (4016)


133. löggjafarþing — 62. fundur,  30. jan. 2007.

vegalög.

437. mál
[15:31]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það fari ekkert á milli mála að rannsóknir á sviði vegagerðar eru mjög mikilvægar. Þess vegna er sérstakt ákvæði um að tilteknum hundraðshluta af útgjöldum til vegamála sé varið til rannsókna og í þessu frumvarpi er verið að auka það. Ég get tekið undir að það er nauðsynlegt.

En á hitt er að líta að viðhald einstakra vegkafla segir út af fyrir sig kannski ekkert til um það hvort þurfi að gera meira á þeim tilteknu köflum en verið hefur. Aðalatriðið er að ég tel að þetta frumvarp komi einmitt til móts við þau sjónarmið að við þurfum að auka rannsóknir og þróun og líka eftirlit.

Þess vegna er sérstaklega fjallað um vegrýni og skoðun bæði hvað varðar hönnun og að sjálfsögðu framkvæmdir og viðhald og annað er snýr að allri þeirri þjónustu.

Ég get því bara tekið undir með hv. þingmanni að við þurfum að leggja mjög mikið í þróunar- og rannsóknakostnað í þessari mannvirkjagerð og ég vænti þess að eiga drjúga stuðningsmenn í þeim efnum í liði Frjálslyndra.