Vegalög

Þriðjudaginn 30. janúar 2007, kl. 15:37:19 (4019)


133. löggjafarþing — 62. fundur,  30. jan. 2007.

vegalög.

437. mál
[15:37]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til vegalaga sem hæstv. samgönguráðherra hefur fylgt úr hlaði sem á að koma í staðinn fyrir vegalög nr. 45/1994.

Eins og fram kom í flutningi hæstv. ráðherra var frekar farin sú leið að búa til ný vegalög heldur en lagfæra þau og stagbæta þau sem fyrir eru. Held ég að það sé alveg hárrétt ákvörðun.

Mér sýnist, virðulegi forseti, við fyrstu yfirferð á þessu frumvarpi að hér sé verið að vinna gott verk. Mér sýnist líka að það sé meðal annars vegna þess að hæstv. ráðherra hefur beitt sér fyrir því að skipa töluvert stóran hóp manna og kvenna sem fór yfir þessi vegalög og var falið að vinna þá vinnu sem við sjáum hér í þessu frumvarpi. Ég held að þetta sé til mikillar eftirbreytni og mætti gera oftar. Það stytti kannski umræður á Alþingi og við sæjum betri frumvörp fyrir vikið. Ég segi fyrir mitt leyti að ég hef átt þess kost að fylgjast með vinnu þessarar nefndar í gegnum einn hv. alþingismann og félaga minn Einar Má Sigurðarson sem sat í þessum hóp og vann við þetta. Síðan förum við í samgöngunefnd auðvitað yfir frumvarpið.

Ég ítreka það sem ég segi að við fyrstu yfirferð sýnist mér hér hafa verið farin tvímælalaust rétt leið til að koma með ný lög enda hefur margt breyst frá 1994 þegar gömlu vegalögin voru sett, eins og til dæmis það að umferðaröryggismál skuli vera komin til samgönguráðuneytis sem auðvitað var líka alveg hárrétt. Þau eiga þar heima. Er í raun og veru furðulegt hvað það var seint sem þau færðust frá dómsmálaráðuneyti til samgönguráðuneytis.

Virðulegi forseti. Ég ætla nú við 1. umr. að fara yfir nokkra þætti þessa frumvarps. Það getur vel verið að það blandist eitthvað inn í, eins og hæstv. samgönguráðherra sagði áðan, tilhlökkun við að ræða samgönguáætlun sem að mér skilst verði lögð fram hér vikunni. Ef stjórnarflokkarnir klára málið frá sér nú í vikunni þá verður þetta vonandi lagt fram fljótlega þannig að við komumst sem fyrst í að ræða þessa miklu áætlun. Það hefði verið betra ef samgönguáætlunin hefði verið komin fram fyrr og við hefðum haft meiri og betri tíma til að fara í gegnum hana vegna þess að ég hygg að það verði dálítið skiptar skoðanir um hana og margir munu kalla eftir breytingum á henni eða einhverju nýju inn og öðru slíku, ég tala nú ekki um vegna þess að við erum að gera þetta á kosningavetri. Það verður því mikið farið í gegnum þetta. En það helgast auðvitað líka af því að þörfin er mjög brýn og mikil.

Virðulegi forseti. Hér í V. kaflanum er strax fjallað um vegáætlun og fjármögnun vega. Þar er fjallað um það hvernig fjár til vegamála skuli aflað. Þá kemur upp í huga minn svar sem ég fékk við fyrirspurn sem ég lagði fram á Alþingi fyrir tveimur árum síðan um skiptingu á skatttekjum ríkissjóðs af annars vegar umferð og hins vegar bílainnflutningi. Þar kom fram að heildarskatttekjur af bílanotkun og umferð voru 47 eða 48 milljarðar kr. En þá runnu aðeins — og ég segi: aðeins — um 14 milljarðar til Vegagerðarinnar, Vegagerðarinnar allrar, þar með talið reksturs, nýbygginga, viðhalds o.s.frv. Ég hef áður sagt það og segi það enn einu sinni að við þetta er auðvitað ekki hægt að búa. Það vantar miklu meira fé inn í samgönguáætlunina, í vegaáætlun, til þess að koma til móts við hina miklu umferð, breikka vegi, styrkja vegi, gera sums staðar bara kannski í fyrsta skipti nothæfa vegi til ýmissa staða og byggja jarðgöng, breikka brýr o.s.frv. Vegna hinnar miklu fjölgunar bíla undanfarin ár hér á landi er ljóst að framkvæmdir í samgöngumálum og vegamálum hafa ekki haldið í við þessa miklu umferð. Hér á höfuðborgarsvæðinu eru umferðarstíflur, teppur, á mestu annatímum dagsins, á morgnana og kvöldin þegar fólk er að fara til vinnu og frá vinnu. Þar getur verið um óþolandi langar biðraðir og umferðarteppur að ræða. En svo aftur víðast hvar og á mörgum stöðum úti á landi er spurningin hvort menn komist yfir höfuð bara á milli staða. Get ég þá nefnt mitt kjördæmi og hef oft tekið dæmi af norðausturhorni landsins þar sem vegir eru þannig að í raun ættu þeir að tilheyra samgönguminjasafni en ekki nútímavegum sem við viljum hafa árið 2006–2007.

Virðulegi forseti. Ég er að endursegja það sem við í Samfylkingunni höfum sagt og hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, hefur sagt á fjölmörgum fundum í landsbyggðarkjördæmunum þremur í fundaherferð sinni sem stendur nú yfir. Fyrstu umferð lauk í gærkvöldi á fundi á Egilsstöðum þar sem formaður Samfylkingarinnar boðar og segir frá þeirri stefnu sem Samfylkingin vill hafa fyrir komandi ár, þ.e. að stórauka þurfi fé til vegamála, til vegaframkvæmda, hér á landi og það eigi að fara í sérstakt samgönguátak, töluvert mikið átak. Hún hefur svo sýnt okkur fram á það og lýst hennar sýn og okkar sýn á þetta kerfi, á þessar framkvæmdir til næstu jafnvel átta ára.

Ég held að það sé mikilvægt fyrir okkur að horfa það langt fram í tímann vegna þess að stundum eru byggðar upp væntingar á ákveðnum landsvæðum eins og með jarðgöng eða lagfæringar á vegum sem ekki standast. En stundum væri hægt að koma til móts við þarfir íbúanna með tímasettri áætlun sem mundi þá standast og væri hægt að fara eftir. En þá er ég, virðulegi forseti, að vitna til þess að við höfum séð frá hæstv. ríkisstjórn miklar og góðar áætlanir um framkvæmdir í vegamálum og það er svo skrýtið að hæstu fjárveitingarnar áttu sér stað fyrir árin 1999 og 2003. Hvers vegna nefni ég þessi tvö ár, virðulegi forseti? Jú, þetta voru kosningaárin, kosningar til Alþingis. (Samgrh.: Þú þarft ekki að vera hissa á því.) Nei. Ég tek eftir því að hv. samgönguráðherra kallar hér fram í segir að ég skuli ekki vera hissa á því. Nei, það er nefnilega þannig að menn þurfa ekki að vera hissa á því. En maður er hissa á því að það hefur ekki verið staðið við þetta. (Samgrh.: Um þetta var kosið.) Það var ekki kosið um það, virðulegi forseti, að það skyldu svo vegaframkvæmdir skornar niður um 2 milljarða á hverju ári eftir að búið var að kjósa. (Gripið fram í: Áform ...) Skorið var niður um 2 milljarða á ári. Ég tek eftir því og fagna því sérstaklega ef hæstv. samgönguráðherra vill ræða þessi mál vegna þess að það er vissulega gott, 2 milljarðar í niðurskurð þrjú ár í röð eða 6 milljarðar á því kjörtímabili sem nú er að ljúka.

Virðulegi forseti. Nú er ég kominn út í samgönguáætlunina sem kemur vonandi sem fyrst en við erum hér kannski að fá smjörþefinn af því sem þar kemur.

Ég er ákaflega ánægður með það og stoltur yfir því sem formaður Samfylkingarinnar hefur verið að segja frá á fundum okkar þar sem hún hefur lagt höfuðáherslu á það að meginþættir í nýrri byggðastefnu, í byggðaátaki séu samgöngumál, menntamál og atvinnumál. Hún hefur útskýrt það á þann hátt sem þar hefur komið fram á fundum og hefur fengið ákaflega jákvæðar og góðar viðtökur hjá öllum þeim fjölda fundarmanna sem mætt hafa á þessa níu fundi sem lokið er.

Virðulegi forseti. Nokkur nýmæli eru í þessum vegalögum og ég hika ekki við að halda því fram að í 17. gr. sé kannski merkilegasta nýmælið þar sem opnað er fyrir að hægt sé að fara í vegaframkvæmdir miðað við vegaáætlun í einkaframkvæmd, að það þurfi sem sagt ekki endilega að fara þá leið sem hefur verið farin hingað til í þeirri einkaframkvæmd sem við tölum nú mest um, Hvalfjarðargöngin, þ.e. að menn þurfi að takast á um það hér á Alþingi og semja um það sérlög heldur sé hægt að fara með það í gegnum samgönguáætlun ef menn vilja fara þessa leið.

Ég hika ekki við að segja að ég held að þetta nýmæli eigi alveg tvímælalaust rétt á sér í vegalög. Ég er hlynntur því að þessi leið verði skoðuð, þ.e. einkaframkvæmdarleiðin. Ég get kannski komið að því síðar eða í umræðu um samgönguáætlun að þessa leið beri að skoða þó svo að ekki sé hægt að fullyrða að hún sé alltaf hagkvæmasta leiðin og best. Oft og tíðum getur það líka verið gott að sjálfsögðu að gera það fyrir eigið fé ríkissjóðs sem líka hefur miklu betri lánskjör en fyrirtæki. En við höfum hins vegar séð áætlanir þar sem hafa verið sýndir útreikningar um að þetta þurfi ekki endilega að vera miklu dýrara en annað.

Nú er rætt um einkaframkvæmd við tvöföldun á Suðurlandsvegi og það er líka í raun rætt um einkaframkvæmd á Vaðlaheiðargöngum. Fyrirtæki fyrir norðan, Greið leið, hefur unnið þar undirbúningsvinnu ákaflega faglega. Það er sem sagt tilbúið eiginlega til ákvarðanatöku. Eitt af því sem við bíðum ákaflega spennt yfir í samgönguáætlun hæstv. ríkisstjórnar er hvað verði um framkvæmdir við Vaðlaheiðargöng eða verður það yfir höfuð sett inn á þann hátt og þetta fyrirtæki og sveitarstjórnarmenn og aðrir fyrir norðan hafa lagt upp með, þ.e. að þetta komi strax í samgönguáætlun og heimild verði veitt til þess að hefja framkvæmdir sem allra fyrst. Það tengist svo öðru máli sem hefur oft verið rætt og verður þá væntanlega líka í samgönguáætlun, þ.e. hvort hægt sé að gera þetta saman á það hagkvæman og góðan hátt að um leið og Vaðlaheiðargöng eru gerð þá sé Akureyrarflugvöllur lengdur. En ég ætla nú ekki að fara frekar út í það, virðulegi forseti, í einstökum þáttum.

Í 17. gr. er líka fjallað um möguleika á að taka notkunargjöld í gegnum svokallaða GPS-tækni. Þessu fagna ég alveg sérstaklega sem hér er sett inn vegna þess að ég hef áður á hinu háa Alþingi rætt um þann möguleika að rukka gjöld, áður fyrir þungaskatt, núverandi olíugjald, með GPS-tækni. Ég hef spurt um það og sagt að ég telji alveg fullkomlega koma til greina að GPS-tækni verði til dæmis notuð til þess að taka gjöld af flutningastarfsemi á vegum landsins. Því vil ég hér spyrja hæstv. samgönguráðherra út í það sem hann getur svarað í sinni seinni ræðu, hvort hann telji koma til greina að nota GPS-tæknina, að byrja og þróa og fylgjast með og skoða það að nota þessa tækni við að rukka inn í staðinn fyrir olíugjöld af flutningabílum og koma þannig til móts við þá sem kvarta mikið yfir háum flutningskostnaði. Það má nota þetta á þann hátt sem kemur þá líka inn á vegaviðhald og minnkar slit á vegum, til dæmis ef sett verður inn ákvæði um að flutningabílar geti kannski keyrt með 50 eða 75% afslætti ef keyrt er á næturnar. Ég held að þetta sé hugmynd sem full ástæða er til að skoða ákaflega vel. Þá dreifum við umferðinni betur og það er líka sannað að vegslit er minna þegar vegir eru kaldari. Þess vegna fagna ég því sem hér er hreyft í athugasemdum um greinina, skýringum með greinunum, til dæmis 17. gr., að hægt sé að taka svokallað notkunargjald með GPS-staðsetningartæki. Og það sem ég nefndi hér með flutningabílana gæti komið til móts við þá miklu kröfu að lækka flutningskostnaðinn. Áður hef ég að minnsta kosti einu sinni, kannski tvisvar rætt um það á hinu háa Alþingi og þá skattheimtu sem á sér stað af þessari starfsemi og íþyngir mjög lífi fólks úti á landi og atvinnurekstri úti á landi og er í raun samkeppnishindrun fyrir atvinnurekstur á landsbyggðinni.

Virðulegi forseti. Tíminn líður hratt í þessari fyrri ræðu minni. Ég var að ræða um 17. gr., um gjaldtökuheimildina sem þarf að vera inni, hvort sem það er með veggjöldum eða notkunargjöldum, ef út í einkaframkvæmd verður farið. Hér er talað um hina ýmsu vegi og ég vil segja um tengivegina og héraðsvegina að sá vegflokkur hefur fengið langminnst fé af samgönguáætlun undanfarinna ára. Þar þarf að gefa í.

Varðandi ferjurnar sem fjallað er um í 22. gr. og eiga að sjálfsögðu heima í samgönguáætlun, þá er rétt að minna á það að þegar ferjurnar fóru til Vegagerðarinnar í samgönguáætlun, áður vegáætlun, fylgdi tekjustofn ekki með. Hann var ekki aukinn í samræmi við kostnaðinn. Hið sama á við auðvitað um flugið sem við höfum líka talað um.

Varðandi VI. kaflann þar sem er talað um skipulag og veghelgunarsvæði þá sé ég ekki alveg og hef ekki alveg kynnt mér það hvort þarna sé um mikla breytingu að ræða. Þó er fjallað um að óski sveitarstjórn eftir að önnur leið verði valin en Vegagerðin leggur til að þá megi rukka sveitarfélagið um þann aukna kostnað. Ég hygg að þetta verði nú dæmi sem komi mjög upp þegar verður rætt um framtíðarlegu og hvernig Sundabrautin skuli liggja, hvort hún verður lögð yfir um Sundin með göngum eða á annan hátt.

En varðandi skipulag þá langar mig að spyrja hæstv. ráðherra út í það hvort sé hér einhver breyting á þannig að Vegagerðin hafi meira vald og jafnvel dálítið vald fram yfir viðkomandi sveitarfélög um það hvernig vegir skuli liggja að þjóðvegum. Upp í huga mér kemur núna framkvæmd uppi í Borgarnesi varðandi nýbyggingu verslunarhúsnæðis á svæði sem ég kann nú ekki alveg að segja hvað heitir. Ég veit að hæstv. samgönguráðherra kann að nefna það betur. En mér hefur fundist þar vera vegtenging sett inn á þjóðveginn sem er beinlínis stórhættuleg, þ.e. að taka þetta þannig inn á veginn sem raun ber vitni. Þarna eru búin til gatnamót þar sem verið er að koma úr verslun sem er mjög vinsæl og mikið farið í. Mér finnst þarna hafa verið gerð tenging sem geti skapað allt of mikla hættu. Að mig minnir hef ég heyrt einhvern tímann talað um að Vegagerðin ætti ekkert marga möguleika á að fá þessu breytt. Þess vegna spyr ég hæstv. samgönguráðherra hvort hér í þessu frumvarpi sé tekið eitthvað öðruvísi á því máli þannig að Vegagerðin geti komið inn með sérstaklega hugsun um umferðaröryggi.

Virðulegi forseti. Ég skil vel að sveitarfélagið Borgarbyggð hafi viljað stuðla að því að þessi verslun kæmi á svæðið og uppbyggingu á þessu svæði og meðal annars hjá Sparisjóði Mýrasýslu. En það er svolítið umhugsunarvert hvernig vegtengingin er þarna við þjóðveginn.

Þá er ég kominn yfir í VII. kafla um þá réttarþróun sem hæstv. ráðherra fjallaði um, um eignarnám og bráðabirgðaafnot lands. Ég tek eftir því og ég fagna því líka að þarna sé sett inn í lögin að landeigendur séu skyldugir til að veita Vegagerðinni heimild til að fara um land til undirbúnings og skoðunar á vegstæðum. Ég held að það sé mikilvægt að setja þetta þarna inn. Það eru líka sett þarna inn meðalhófsákvæði um að menn skuli ganga varlega um svæðið sem farið er um. Ég tel að þetta sé ákaflega mikilvægt og kannski mikilvægar nú en oft áður vegna þess að svo virðist vera, virðulegi forseti, að með kaupum ýmissa aðila sem ekki beint kannski búa á jörðum heldur kaupa jarðir, safna jafnvel jörðum eins og sumir gera, þá horfir fólk orðið öðruvísi á þetta en áður fyrr þegar menn fögnuðu því að Vegagerðin kom og lagði góða og fína vegi.

Virðulegi forseti. Dæmi er um það frá Norðausturlandi að svona ferli tekur óralangan tíma. Í raun hefur Vegagerðin ekki verið undirbúin undir þann langa tíma og langa kæruferli og allt það sem er hægt að setja upp varðandi þessi atriði. Ég fagna þess vegna að þetta skuli vera sett þarna inn. Ég fagna líka vegna þess að ákvæðið á ekki að vera þannig að hægt sé að ganga að yfir allt hvernig sem Vegagerðin vill. Þarna er svona meðalhófsregla sett fram og vona ég að sátt verði um þann þátt sem þarna er settur inn.

Virðulegi forseti. Ég hef ekki getað farið yfir allt frumvarpið eins og ég hefði viljað í ræðutíma mínum sem nú er á enda. Ég segi eingöngu að ég held að hér sé stigið gott skref. Hér er hið besta mál að koma fram. (Forseti hringir.) Ég segi að það verður tilhlökkunarefni að vinna þetta mál ásamt öðrum í samgöngunefnd þó ég geri mér grein fyrir því, virðulegi forseti, að fundum (Forseti hringir.) samgöngunefndar muni fjölga mjög núna næstu missiri.