Vegalög

Þriðjudaginn 30. janúar 2007, kl. 15:57:44 (4020)


133. löggjafarþing — 62. fundur,  30. jan. 2007.

vegalög.

437. mál
[15:57]
Hlusta

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er skoðun mín að ásamt menntamálum og endurreisn atvinnulífs víðast hvar á landsbyggðinni séu samgöngumál og þá einkum og sér í lagi vegamálin sá málaflokkur sem skiptir landsmenn alla og sérstaklega íbúa á vissum svæðum landsins mestu máli. Það fer ekki hjá því að manni verði hugsað til íbúa Vestfjarða sérstaklega og norðaustursvæðisins að hluta til þegar vegamál ber á góma því að slíkt ófremdarástand hefur verið og er og verður fyrirsjáanlega enn þá um langa hríð í samgöngumálum á þeim svæðum.

Það er hárrétt sem kom fram áðan í máli fyrri ræðumanns að stórlega hefur verið dregið saman í fyrirætluðum samgöngubótum á landinu undanfarin þrjú ár og það hefur sérstaklega komið hart niður á þeim landsvæðum sem ég nefndi áðan, Vestfjörðum ekki síst, þar sem menn eru enn þá að keyra á malarvegum, komast ekki inn á svæðið nema um malarvegi. Fólk er að keyra á stórhættulegum vegum þar sem það getur búist við grjóti ofan á bílana sína hvenær sem er ársins eða snjóflóðum í þannig veðri og vegirnir eru rétt rúmlega einbreiðir.

Við ræðum frumvarp til vegalaga og fáum vonandi fljótlega í hendurnar vegáætlun eða samgönguáætlun því að þetta eru hvort tveggja þingmál sem skipta landsmenn höfuðmáli og við þurfum að fá góðan tíma til að ræða þessi mál.

Þegar við skoðum vegáætlun er nokkuð ljóst að þetta snertir eiginlega þrjá flokka fyrir utan ríkið, það eru þrír hagsmunaaðilar. Það eru sveitarfélögin, landeigendur og einstaklingar. Ef maður horfir um öxl á samskipti ríkisins og þessara aðila er eiginlega óhjákvæmilegt að komast að þeirri niðurstöðu að það halli alltaf á mótaðila ríkisins í þessum efnum. Við sjáum líka tóninn í bókun fulltrúa sveitarfélaganna í endurskoðunarnefnd sem ráðherra kynnti áðan. Þeir eru að sjálfsögðu fullir tortryggni vegna viðskipta sinna við ríkið og benda á það í bókun sinni, að fyrir utan það að þetta mál er með öllu órætt á vettvangi sveitarfélaganna, þ.e. að færa vegi innan sveitarfélaga í þeirra hendur, þá kemur auðvitað upp viðvörun vegna fjárhagslegra samskipta ríkis og sveitarfélaga sem sveitarfélögin hafa nú ekki góða reynslu af, eins og við vitum sem hér erum og við þingmenn stjórnarandstöðunnar viðurkennum, þó að stjórnarþingmenn viðurkenni það auðvitað seint.

Í 17. gr. þessa lagafrumvarps er talað um gjaldtöku. Ekki fer hjá því að manni detti í hug Hvalfjarðargöngin sem ákveðinn hluti landsmanna er látinn borga með ferð sinni um þau og verður aldrei of oft bent á hversu mikil ósanngirni felst í því gagnvart þessum hluta landsmanna og þá sérstaklega þeim sem þurfa vegna búsetu sinnar og vinnu sitt hvorum megin við göngin að eiga oft leið þar um. Eins og við vitum er mikill fjöldi fólks sem býr á Akranesi og í sveitunum þar í kring sem sækir vinnu og skóla til Reykjavíkur og er látinn borga framkvæmdina á þessum göngum. Þetta er vissulega hlutur sem fólk undirgekkst á sínum tíma með vísan í það að það átti um aðra leið að velja þó að sú leið væri í rauninni aðeins teóretísk vegna þess að þó að fólki sé boðið að keyra um Hvalfjörð í staðinn fyrir að borga í göngin þá er það auðvitað ekki valkostur þegar til kastanna kemur.

Núna aftur á móti er búið að gera ýmislegt og annað stendur fyrir dyrum þar sem fólk hefur valkosti. Þá er ég að tala um ný jarðgöng fyrir austan þar sem fólk hefur kost á annarri leið en þarf ekki að borga í göngin, Fáskrúðsfjarðargöngin. Einnig stendur fyrir dyrum að byggja 7–8 milljarða kr. göng á Norðurlandi eystra, milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar, en ekki er reiknað með að fólk borgi í göngin. Það er því auðvitað algjörlega óásættanlegt að hæstv. samgönguráðherra skuli enn þá þrjóskast við að koma því réttlætismáli í höfn að landsmenn geti keyrt um göngin án þess að verða að borga í þau, jafnvel stórfé, eins og þeir þurfa að gera sem ekki eru með áskrift. Hver einstök ferð kostar þúsund krónur. Maður getur séð það í hendi sér t.d. hvílík hindrun þetta gjald er fyrir ferðaþjónustu. Ef fólki dytti nú í hug t.d. að sækja ágætt veitingahús á Skaganum þá á það líka kost á veitingahúsi fyrir austan fjall, sem er ágætt, en það munar þegar 2 þús. kr. á matarreikningnum þegar upp er staðið vegna gjaldanna í göngin. Það veitingahús má vera miklu betra á Skaganum til að það verði ofan á. (Gripið fram í.)

Þetta er, þrátt fyrir að hæstv. ráðherra geri grín að þessu, ekkert gamanmál, þetta er nefnilega háalvarlegt mál, hæstv. ráðherra. En ég á svo sem satt að segja ekki von á að hæstv. ráðherra geri bragarbót á þessu máli fyrir lok starfsferils síns. Hann hefur fengið mjög mörg tækifæri til þess og það er stöðugt verið að minna hann á þörfina á að þetta verði lagfært, einkum og sér í lagi af hv. þm. Jóhanni Ársælssyni, þingmanni Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi en hæstv. ráðherra hefur lengst af látið sem málin séu í athugun og við vitum nú hvernig sú athugun hefur farið, hún leiðir ekki til neinnar niðurstöðu.

Ég verð að segja, frú forseti, að ég hef ákveðnar áhyggjur af örlögum landeigenda í viðskiptum við ríkið. Í frumvarpinu er kveðið á um bætur og kveðið er á um uppsetningu girðinga meðfram vegum og um eignarnámsrétt o.s.frv. Þetta er allt saman ágætt en þegar maður fer að skoða málin geta komið upp dæmi sem eru mjög óhagstæð fyrir landeigendur þegar til lengri tíma er litið.

Ég ætla að nefna dæmi þar sem frekar lítilli bújörð hefur verið skipt í fimm búta af Vegagerð ríkisins. Nú hefur Vegagerðin væntanlega séð til þess að girða hvern og einn bút af meðfram vegunum sem fara þvers og kruss í gegnum þessa jörð en síðan er það bóndans að sjá um viðhald á þeim girðingum öllum. Hann fær væntanlega bætur í eitt skipti fyrir það óhagræði sem af þessu hlýst og hann fær uppsetta girðingu einu sinni en síðan má hann kosta viðhald á þeim girðingum um aldur og ævi.

Þó að okkur þéttbýlisbúunum finnist það gott og gilt að gerðir séu nýir og góðir vegir, sem beinastir og stystir og allt það, er afar mikilvægt líka að Vegagerðin gæti að því hvernig hún fer með eignir manna. Skoðun mín er sú að landeigendur hafi oftar en ekki borið skarðan hlut frá borði í viðskiptum sínum við Vegagerðina og það sama er að segja um einstaklinga. Ég veit ekki til þess að eitt einasta dæmi finnist þar sem einstaklingar hafi unnið lögsókn gegn ríkinu því að ef málið hefur verið vafasamt lendir það alltaf endanlega á verktakanum, ef það lendir ekki á einstaklingnum sjálfum.

Við erum að tala um ákaflega mikilvægan þátt í lífi landsmanna, þ.e. Vegagerðina. Ég á von á að það verði margir þingmenn sem eigi eftir að lúslesa frumvarpið með tilliti til umbjóðenda sinna og til framtíðar. Eins og ég sagði áðan er þetta eitt það almikilvægasta sem við höfum með höndum á Alþingi, að skipuleggja samgöngubætur og þar er virkilega verk að vinna sem verður að fara í á næstu árum. Ég held reyndar að fleiri og fleiri séu að verða sér þess meðvitaðir, m.a. Samtök verslunar og þjónustu sem hélt málþing fyrr í vetur um forkastanlegt ástand á vegum landsins, en ekkert tillit hefur verið tekið til þess í framkvæmdaáætlunum ríkisins eða fjárveitingum til vegabóta hvernig umferð og þunginn á vegunum hefur aukist þannig að vegfarendur eru orðnir í stórkostlegri lífshættu í umferðinni þegar út á þjóðvegina er komið.