Vegalög

Þriðjudaginn 30. janúar 2007, kl. 16:10:27 (4021)


133. löggjafarþing — 62. fundur,  30. jan. 2007.

vegalög.

437. mál
[16:10]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að ræða um þetta mál í heild. Þetta er mikið frumvarp og nefndarmenn munu örugglega fara vel í gegnum það og fá um það umsagnir frá þeim aðilum sem líklegastir eru til þess, sem bæði vilja hafa áhrif á það sem í lögunum verður og hafa kannski mesta hagsmuni af því sem hér er. En það eru auðvitað allir landsmenn sem hafa mikla hagsmuni af vegagerð í landinu og nýta hana og greiða reikninginn.

Þá er ég kominn að því sem ég ætlaði að nefna fyrst sem er að það þarf að sinna þeim málum miklu betur en gert hefur verið. Samfylkingin hefur verið með digrar yfirlýsingar um að vilja standa að því að gera stórátak í vegagerð í landinu og það er sannarlega tími til kominn.

Það hafa oft verið gefnar slíkar yfirlýsingar af samgönguyfirvöldum á undanförnum árum. En það má segja að það hafi verið regla að slíkar fyrirætlanir hafa síðan skroppið saman þegar hefur farið að líða eitthvað á það kjörtímabil sem þær áttu við.

Ég tel að það sé kominn tími til þess að Íslendingar fái nothæft vegakerfi um allt land. Til þess þarf stórátak. Við höfum sem sagt dagað uppi í einhvers konar undarlegri hugsun sem hefur falist í því að horfa aftur í tímann til kerruslóðanna og ónýtra vega og litið á það sem einhver afrek að búa til þá ófullkomnu vegi sem liggja um landið en duga engan veginn fyrir þá umferð sem nú er.

Þarna þarf nýja hugsun og meiri kjark en hefur verið sýndur á undanförnum árum. Ég vona sannarlega að Samfylkingin fái tækifæri til þess að sýna hvað hún vill og ætlar sér í þeim efnum.

Ég ætla að nefna sérstaklega 17. gr. sem m.a. hv. síðasti ræðumaður, Anna Kristín Gunnarsdóttir, fór vel yfir en ég vil bæta svolítið við. Hér er fjallað um gjaldtöku af umferð. Það er ýmislegt sem menn þurfa að hafa í huga hvað það varðar. Meðal annars er rætt um að taka megi gjöld af jarðgöngum og hér stendur, með leyfi forseta:

„Gjaldtöku má ekki haga með þeim hætti að raski jafnræði þeirra sem nota mannvirkin.“

Þetta virðist vísa til þess að það eigi einungis að gilda jafnræði milli þeirra sem nota viðkomandi mannvirki en það eigi ekki að vera neitt jafnræði milli fólksins í landinu. Við höfum ein jarðgöng sem er innheimt gjald fyrir. Það vill svo til að þau eru af einni af þremur aðalleiðum til höfuðborgarinnar. Eins og það kosti nú ekki eitthvað að byggja upp vegi á hinum tveimur aðalleiðunum.

Hvers vegna skyldu þeir sem koma norðan eða vestan og ætla norður eða vestur, eiga að borga fyrir aðganginn að höfuðborginni eða því að fara frá henni en ekki þeir sem fara á Reykjanes eða austur fyrir fjall?

Ég vil spyrja hæstv. samgönguráðherra, sem eftir mikla umræður um Sundabraut á fyrri hluta þessa kjörtímabils, féll frá því að það ætti að innheimta veggjald af Sundabrautinni og skipti yfir í skuggagjöldin, hvað hann segir um yfirlýsingu Spalar, sem rekur Hvalfjarðargöngin, um að hann ætli að nota lækkun á virðisaukaskattinum til að safna upp í næstu framkvæmd í Hvalfjarðargöngunum. Það er auðvitað ótækt að menn skuli ætla þennan veg til slíks.

Hæstv. ráðherra hefur ítrekað verið spurður eftir þessu máli á undanförnum árum og loksins þegar lækkun virðisaukaskattsins komst til framkvæmda þá héldu allir að það mundi verða til þess að lækka verð í göngin. En nú liggur fyrir þessi yfirlýsing Spalar um að safna þeim fjármunum upp í nýja framkvæmd vegna stækkunar Hvalfjarðarganga.

Ég spyr þess vegna hæstv. ráðherra: Er hann búinn að skipta um skoðun? Var það ekki þannig að hæstv. ráðherra ætlaði að beita sér fyrir því að slíkar aðferðir yrðu ekki notaðar? Ég tel ástæðu til þess að fá skýr svör um þetta efni.

Þetta snýst nefnilega ekki einungis um að það að fólk sem býr á þessu svæði þurfi að borga fyrir að fá að fara þessa leið. Gjöld sem koma niður með svona mismunandi hætti eins og þessi gjöld, hafa áhrif á byggðina, á þróun byggðar. Það skyldi nú ekki vera, að það að á undanförnum árum hefur fjölgað miklu meira, hefur orðið miklu meiri þróun í byggð fyrir austan fjall en uppi í Borgarfirði, hafi haft eitthvað með það að gera að það er dýrara að ferðast hérna á milli? Það skyldi nú ekki vera. Því hvar eiga menn eiginlega leita skýringanna á því að þróun byggðar hefur orðið miklu hraðari og miklu meiri fólksfjölgun fyrir austan fjall en uppi í Borgarfirði?

Uppi í Borgarfirði eru tveir háskólar sem hafa verið að springa út og uppi í Hvalfirði, á sama svæði, eru stærstu fyrirtæki sem rekin eru í nágrenni höfuðborgarinnar, járnblendiverksmiðjan og álverið. Samt sem áður fjölgar fólkinu miklu hraðar á Suðurlandi. Hvernig stendur á því? Ég held að það sé dálítil ástæða til þess að skoða þetta í samhengi við þróun byggðar. Hvers vegna gengur svona vel á Suðurlandi? Hvers vegna fjölgar fólkinu svona hratt þar? Ég held að það geti hafi veruleg áhrif að fólk skuli þurfa að borga fyrir að fara í gegnum Hvalfjarðargöngin.

Það eru ekki bara þeir sem búa á þessu svæði sem greiða þetta. Þetta er líka skattur á Vestfirðinga og Norðlendinga og aðra þá sem þurfa að fara vestur eða norður til Akureyrar.

Það er líka annað atriði sem ég vil benda nefndarmönnum sérstaklega á að skoða. Hér segir: „Óheimilt er að leggja á samtímis veggjald og notkunargjald fyrir notkun tiltekins mannvirkis.“

Þetta væri nú fínt ef þetta stæði bara eitt og sér. En það er annað sem stendur fyrir aftan: „Heimilt er þó að leggja á gjald fyrir notkun jarðganga og brúa samhliða notkunargjaldi á aðlæga vegi.“ Þýðir þetta ekki að menn geti t.d. innheimt veggjald af Hvalfjarðargöngum? Jú, það hefur nefnilega verið gert á undanförnum árum.

Þeir sem hafa borgað 100% gjald í Hvalfjarðargöngin munu greiða þau eins og þau eru í dag, algerlega upp, þ.e. umferðin í gegnum göngin borgar þau upp, þeir hafa ekki bara borgað það gjald, þeir hafa líka borgað veggjaldið sitt í gegnum göngin. Er þetta eðlilegt? Ég tel það ekki vera eðlilegt. Það er viðurkennt að á öðrum svæðum, t.d. ef lagður yrði vegur yfir hálendið og innheimt veggjald af, þar eigi ekki að fara með tvöfalda gjaldtöku eins og gert hefur verið í Hvalfjarðargöngunum. Af hverju leiðir það ekki til þess að menn viðurkenni líka að það eigi að fella niður veggjald í gegnum Hvalfjarðargöngin og aðlægum vegspotta þar?

Mér finnst ástæða til þess að menn velti þessu fyrir sér sérstaklega ef það er nú hugmyndin að fara að innheimta víðar einhvers konar veggjald af mannvirkjum, að gjaldtakan verði ekki tvöföld.

Málið er einfalt. Ríkissjóður gæti einfaldlega skilað veggjaldinu til Spalar í Hvalfirði og Spölur lækkað veggjaldið á móti þannig að ekki væri verið að innheimta bæði gjaldið í gegnum göngin og líka veggjaldið af þeim sem nota göngin. Þetta er óeðlileg gjaldtaka. Ég er ekki að halda því fram að hún sé gríðarlega mikil, en hún er samt þó nokkur og ástæða til þess að ríkið gefi gaum að því hvort sanngjarnlega sé að hlutunum farið. Ég ætla ekki að ræða meira um þetta, ég vildi koma þessu til nefndarmanna, til umhugsunar, að fara yfir þetta mál.

Mig langar líka að ræða um 22. gr. Þar er að mínu viti mikilvæg breyting á ferðinni og ég fagna því að hæstv. ráðherra skuli hafa beitt sér fyrir því að halda uppi ferjusiglingum af öðrum ástæðum en þeim sem menn hafa fram að þessu talið að ættu að liggja til grundvallar, þ.e. vegna mikilvægrar ferðaþjónustu. Siglingarnar eru sérstaklega ofarlega í huga mínum vegna þess að þær eru líka öryggismál fyrir svæðið. Við vitum að það getur orðið snjóþungt og erfið færð á vetrum á sunnanverðum Vestfjörðum, en siglingar um Breiðafjörð tengja það svæði. Og þótt þær vegabætur sem þar stendur til að gera komist í framkvæmd þá vitum við ekki enn þá hvort þær leysi samgöngumál þar að fullu. Þess vegna er ástæða til þess að fagna því að þarna skuli vera opnað fyrir möguleikana til þess að halda slíkri þjónustu áfram.

Mig langar svo að nefna 28. gr. þar sem er talað um vegi og skipulag og hlut Vegagerðarinnar að því að koma að skipulagi. Hér stendur, með leyfi forseta:

„Ákveða skal legu þjóðvega í skipulagi að fenginni tillögu Vegagerðarinnar.“

Ég vek athygli á þessari grein vegna þess að það er eins og Vegagerðin sé ekki endilega nógu mikill áhrifavaldur í þessum efnum stundum. Ég hef þá sérstaklega í huga veginn um Grunnafjörð, sem kallaður er um Grunnafjörð, en er þó vegur sem gert er ráð fyrir að liggi fyrir framan Grunnafjörð.

Þegar fjallað var um þennan veg í skipulagi hreppanna sunnan Skarðsheiðar, þá var gert ráð fyrir honum. Skipulagsstofnun og/eða Umhverfisstofnun gerðu athugasemdir við þær skipulagshugmyndir, umhverfisráðherra sendi inn athugasemdir við þær. Í þeim athugasemdum var greinilega stuðst við hugmyndir sem alls ekki voru raunverulega hugmyndir Vegagerðarinnar um það sem stóð til að gera.

Í umsögnum Skipulagsstofnunar, sem hæstv. umhverfisráðherra á svo auðvitað að staðfesta, þ.e. skipulagið sjálft, var gengið út frá því að aðalleiðin á þjóðvegi 1 yrði áfram í kringum Grunnafjörð eins og hún er núna. En að vegurinn sem Borgnesingar og Akurnesingar vilja fá, til að tengja saman Akranes og Borgarnes og að verði jafnframt aðalleiðin á þjóðvegi 1, það yrði sem sagt ekki aðalleiðin. Á þessum forsendum voru athugasemdir Skipulagsstofnunar, þær voru hugsaðar til þess að koma í veg fyrir þessar fyrirætlanir.

Þarna þarf auðvitað að grípa í taumana og sjá til þess að gerður verði samanburður á þessum tveimur leiðum. Þessi leið styttir þjóðveg 1 að vísu ekki mikið, um einn og hálfan kílómetra eða svo, en þetta er miklu betri leið en sú sem nú er farin og hún styttir leiðina milli tveggja byggðarlaga mjög mikið. Hún styttir leiðina milli Akraness og Borgarness líklega um átta eða níu kílómetra og er betri leið að mörgu leyti en sú sem er farin núna.

Það sem er eðlilegt að fara fram á í þessu sambandi er að gerður verði samanburður á þessum tveimur leiðum, að gert verði umhverfismat og á grundvelli slíks umhverfismats verði tekin ákvörðun.

Ég fyrir mitt leyti efast ekki um að leiðin fyrir framan fjörðinn er miklu betri þegar horft er til náttúrunnar. Þetta er Ramsarsvæði og allur flutningur og umferð um þennan veg er auðvitað hættuvaldur. Mengunarslys geta orðið á þeirri leið. En ef vegurinn liggur fyrir framan fjörðinn þá er þeirri hættu afstýrt. Fyrir nú utan hagræðið sem er af því að láta veginn liggja þar sem heimamenn hafa viljað að hann lægi.

Svo er annað sem ég vil nefna og hef oft gert áður, en ég sé ástæðu til þess að segja það enn einu sinni að hér vantar að lagðar séu fram skipulagshugmyndir til lengri tíma en menn hafa gert fram að þessu. Það þarf skipulagshugmyndir til svona 40 ára til þess að unnið sé að skipulagi með framtíðarmarkmið í huga og ekki verði skipulagsslys eins og við höfum horft upp á. Menn þurfa að ákveða hvar jarðgöng eigi að liggja í framtíðinni og hvar miklar umferðaræðar eigi að vera til lengri framtíðar litið.

Ef slíkt framtíðarskipulag hefði legið fyrir þegar menn tóku ákvörðun um að gera göng til Siglufjarðar eins og nú er verið að bora, þá er ég sannfærður um að þau göng hefðu aldrei legið þar. Vegna þess að þá hefði legið fyrir hvar menn ætla að gera göng í gegnum Tröllaskaga því ég efast ekki um að allir hljóti að sjá að menn munu ekki keyra upp í milli 500 og 600 metra hæð til Akureyrar í framtíðinni. Auðvitað koma jarðgöng sem tengja saman Skagafjörð og Eyjafjörð. Ef það hefði legið fyrir hvar þau göng ættu að vera þá tel ég að þau hefðu legið nálægt Hólum. Þá hefði niðurstaðan augljóslega verið sú að menn hefðu gert göng út í Fljót frá Siglufirði. Þau göng yrðu ekki nema fjögurra kílómetra löng. Nú er verið að leggja 11 kílómetra göng til að tengja þessi svæði.

Ég tel að þetta sé sönnun fyrir því að þarna hafi orðið skipulagsmistök vegna þess að menn horfa ekki nógu langt fram í tímann. Það er auðvitað of seint að tala um það í þessu máli sérstaklega en þetta er kannski dæmi til að minna okkur á að það þarf á svona framtíðarhugsun að halda í vegamálum. Þar hefur Vegagerðin mikið hlutverk og hún þarf að vera skipulagsyfirvöldum til ráðuneytis og það þarf auðvitað samstarf milli þessara aðila sem verður þá til þess að færri skipulagsslys verða í framtíðinni en til þessa.

Ég ætla svo sem ekki að hafa ræðu mína lengri enda er tími minn víst fokinn frá mér. Ég vildi fyrst og fremst koma því sem ég hef sagt á framfæri og svo vildi ég fylgja því eftir að fá að vita hvað hæstv. ráðherra hyggst fyrir hvað varðar veggjöld á leiðinni til og frá hans kjördæmi. Að hann segi þeim kjósendum sem búa báðum megin við og nota þessa tengileið til borgarinnar að og frá, hvað hann ætlast fyrir í þessum efnum. Því það er ástæða til að spyrja núna þegar það liggur fyrir að stefnt er að því að halda áfram gjaldtöku á þeirri leið.