Vegalög

Þriðjudaginn 30. janúar 2007, kl. 16:30:21 (4022)


133. löggjafarþing — 62. fundur,  30. jan. 2007.

vegalög.

437. mál
[16:30]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að fara í andsvör við hv. þingmenn í þessari umræðu (Gripið fram í: Þú leggur ekki í það.) en vegna þess að hv. þingmaður veittist alveg sérstaklega að samgönguráðherra fyrir gjaldtöku í Hvalfjarðargöngunum þá tel ég mig knúinn til þess að fara í örfáum orðum yfir upphaf þess máls og sá veldur miklu sem upphafinu veldur. (ÖS: Ekki horfa á mig.) Hv. þm. Jóhann Ársælsson var í Alþýðubandalaginu árið 1990. Þá var gerður samningur, reyndar í janúar árið 1991, milli þáverandi samgönguráðherra og þingmanns Alþýðubandalagsins, Steingríms J. Sigfússonar, uppáskrifaður af ráðherra fjármála, Ólafi Ragnari Grímssyni, þar sem gerður er samningur milli Spalar og þáverandi samgönguráðherra um að grafa jarðgöngin. Þeir fengu heimild til að taka þetta gjald og að það væri innheimt í 25 ár og það skyldi vera 14% arður af uppfærðu hlutafé félagsins á hverjum tíma sem var alveg einsdæmi þá. (Gripið fram í.) Síðan var þessi samningur sem þáverandi fjármálaráðherra, Ólafur Ragnar Grímsson, og þáverandi samgönguráðherra, Steingrímur J. Sigfússon gerðu staðfestur með sérstakri þingsályktunartillögu 18. mars 1991. Í framhaldi af því var hv. þm. Jóhann Ársælsson heilt kjörtímabil fram til 1995 á Alþingi og ég man aldrei eftir því að hann hafi gert athugasemdir við þennan samning sem er grundvöllur að gjaldtöku í Hvalfjarðargöngunum.