Vegalög

Þriðjudaginn 30. janúar 2007, kl. 16:32:22 (4023)


133. löggjafarþing — 62. fundur,  30. jan. 2007.

vegalög.

437. mál
[16:32]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Stundum finnst mönnum þægilegt að forða sér inn í fortíðina. Þetta er ekki það sem málið snýst um í dag. (Samgrh.: Þeir gáfu upp boltann.) Við vissum að við þyrftum að greiða þessi gjöld árum saman og höfum gert það sem höfum nýtt þennan veg. Það sem við viljum fá að vita í dag er hvort hugmyndin sé að menn haldi því áfram og hvort það sé sanngjarnt. Er það skynsamlegt? Ég held að svörin við þessu séu í öllum tilfellum nei. Það er auðvitað hæstv. ráðherra að svara því hvað hann vill gera í næstu framtíð hvað þessa hluti varðar og hvort hann er búinn að skipta um skoðun, því að þegar rætt var um Sundabrautina fyrr á kjörtímabilinu skipti hæstv. ráðherra yfir í skuggagjöldin. Nú svarar hann því ekki hvort hann sé sammála þeim í Speli að fara að undirbúa það að innheimta gjöld fyrir stækkun Hvalfjarðarganganna til að framlengja það ástand sem er og sem gerir upp á milli byggðarlaga í landinu. Þó svo að þessi göng hafi verið gerð á sínum tíma er þá ekki nóg að hafa innheimt fyrir alla þá framkvæmd og borgað hana í topp þegar það er búið? Er það ekki nóg? Ég tel að það sé ástæða til að hæstv. ráðherra svari þessu. Hann gerði það ekki í því andsvari sem við hlýddum á áðan.