Vegalög

Þriðjudaginn 30. janúar 2007, kl. 16:36:22 (4025)


133. löggjafarþing — 62. fundur,  30. jan. 2007.

vegalög.

437. mál
[16:36]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég varð fyrir miklum vonbrigðum. Ég áleit að hæstv. ráðherra mundi svara því mjög skýrt hvað hann vildi gera í framhaldinu, hvort hann væri sammála þeirri ákvörðun Spalar að menn fari að safna upp fjármunum til að fara í eðlilegar viðbótarframkvæmdir eða hvort hæstv. ráðherra hugsi sér að hafa áhrif á hvaða fyrirætlanir menn hafi þarna og standi við það sem hann sagði fyrr á kjörtímabilinu að hann vildi frekar að tekin yrðu upp skuggagjöld heldur en að farið yrði í að innheimta meiri veggjöld á þessari leið. Ég tel reyndar að ríkið geti tekið upp annan hátt, ef það vill og það er mjög eðlilegt að ríkið geri það, en þarna er á og tekið á sig þær skuldir sem þarna eru, geri málið upp. Full ástæða er til að skoða þá leið úr því sem komið er og af því að til stendur að gera þessi mannvirki enn afkastameiri en þau eru og miklu fyrr en menn reiknuðu með. Það þarf auðvitað að endurskoða málin þegar svo er komið. Hins vegar er algerlega ólíðandi að af þremur aðalleiðum til borgarinnar borgi menn fyrir eina þeirra. Hæstv. ráðherra hlýtur að sjá að það er mjög ósanngjarnt og menn verða að taka á því máli.

Hæstv. ráðherra sagði það blasa við að gjöldin yrðu lækkuð. Yfirlýsingar Spalar benda ekki til þess. Spölur ætlar að fara að safna í sjóð og spurningin er … (Gripið fram í.) Hæstv. ráðherra fær tækifæri til að svara þessum spurningum síðar úr því að hann gerði það ekki núna en ég vænti þess varla úr því að hann lét hjá líða að koma með svörin núna.