Vegalög

Þriðjudaginn 30. janúar 2007, kl. 16:45:35 (4027)


133. löggjafarþing — 62. fundur,  30. jan. 2007.

vegalög.

437. mál
[16:45]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi 1. umr. þessa máls koma inn á nokkur atriði í frumvarpi til vegalaga. Ég vil lýsa því yfir að mér finnst mjög margt vera jákvætt í því og tímabært hafi verið orðið að endurskoða vegalögin. Frumvarpið er að mörgu leyti mun skýrara og fært til nútímahorfs frá þeim lögum sem við búum við í dag.

Ég hef, hæstv. forseti, í þrígang lagt fram frumvarp til laga um breytingu á núgildandi vegalögum og um er að ræða tvö atriði sem lúta að öryggismálum. Annars vegar hef ég lagt nokkrum sinnum fram þingsályktunartillögu um rásir fyrir búfé, að inn í vegalögin komi sérstakt ákvæði um að Vegagerðinni eða þeim aðilum sem eru í vegagerð sé heimilt að setja niður rásir sem nú heita í frumvarpinu göng fyrir búfé. Ljóst er að mikil slysahætta skapast á fjölförnum vegum þar sem stórbúum hefur fækkað og það er orðið, því miður, nokkuð algengt að reka þurfi búfénað yfir þjóðvegi og fjölfarna vegi. Mér til mikillar ánægju sé ég að þetta er komið núna inn í það frumvarp sem við hér fjöllum um.

Eins hef ég lagt fram frumvarp um þann öryggisþátt að líta strax til hönnunar þjóðvega. Með leyfi hæstv. forseta vil ég fá að lesa upp þá breytingartillögu sem ég lagði fram við núgildandi 8. gr. en hún er svohljóðandi:

„Við gerð þjóðvega og við verulegar endurbætur á þjóðvegum skal farið að viðurkenndum öryggisstöðlum og þess gætt að vegirnir verði svo öruggir í notkun sem best verður á kosið að teknu tilliti til notkunar og aðstæðna hverju sinni.“

Þessi breytingartillaga mín sem er við 8. gr. núgildandi laga mundi falla mjög vel að 47. gr. í IX. kafla frumvarpsins, um ákvæði um öryggi vega og umferðar, sem ég tel vera til mikilla bóta en væri að mínu mati eðlilegra að kveða sterkar að orði en gert er greininni. Í greinargerðinni er ítarlegar farið yfir það sem að baki stendur en ég tel að réttara sé og hnykki á því betur að setja þessi ákvæði beint inn í greinina.

En hvað varðar ákvæði um öryggi vega og umferðar á í frumvarpinu að taka tillit til þess að gert verði umferðaröryggismat á öryggisþáttum nýrra vega, að gerð verði umferðaröryggisrýni, sem felst í rýni hönnunargagna á mismunandi stigum hönnunar, og gerð verði umferðaröryggisúttekt. Þetta er því allt til bóta, hæstv. forseti. Ég vil nefna þetta því ég tel að þetta eigi að vera ákveðnara í lagagreininni. Ég gerði tillögu um að í sjálfum lagatextanum verði kveðið á um að við gerð vegáætlunar skuli tekið mið af vegrýni út frá öryggissjónarmiðum. Það skiptir einmitt máli þegar verið er að skipuleggja og undirbúa legu og framkvæmdir að þá verði það ekki síst út frá öryggissjónarmiðum sem vegarstæði verður valið og hönnun gerð.

Margt kemur til þegar verið er að hanna vegi og umferðarmannvirki, t.d. snertir það leguna út frá landinu og umhverfissjónarmiðum, öryggi og einnig út frá kostnaði. Því miður, hæstv. forseti, er það oft svo að þegar þetta allt er tekið saman hefur ekki síst verið litið á kostnaðarþáttinn og hann hugsanlega oft verið látinn ráða þegar valið hefur verið og örygginu þá aðeins vikið til hliðar. Það sama má segja hvað varðar fjármagn til vegamála í dag, að mjög víða vantar vegrið og annan öryggisbúnað svo þjóðvegir okkar verði öruggari. Þarna skortir fé. Vegagerðin hefur, að ég tel, kortlagt mjög vel þá staði sem þyrfti að bæta hvað þetta varðar en hefur ekki haft fjármagn í þennan lið.

Það er margt skýrara í þessu lagafrumvarpi og það gleður mig einnig, hæstv. forseti, að sjá að í 10. gr. er búið að taka inn ákvæði um göngu- og hjólreiðastíga, að þeir flokkist nú með almenn um stígum en ekki eingöngu reiðstígar eins og hefur verið. Þetta hefur verið baráttumál okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir hefur í nokkur skipti lagt fram þingmál hvað varðar það að setja göngu- og hjólreiðastíga í vegalög og hafa þá möguleika að ferðast á þann hátt, ekki eingöngu akandi, og ég þakka það að þetta ákvæði sé komið inn. Þá er það næsta, þ.e. að nóg framkvæmdafé sé svo hægt verði að fara í kortlagningu og forgangsröðun. Að mínu mati á að forgangsraða út frá þéttbýliskjörnum, tengja þá, eins og gert hefur verið á höfuðborgarsvæðinu, og það á að halda á áfram og fara milli þéttbýliskjarna hringinn í kringum landið. Stórt verkefni er fyrir höndum og skiptir máli að skipuleggja þetta strax og ganga síðan markvisst í verkið.

Í 14. gr., sem er undir yfirskriftinni framsal veghalds þjóðvega, er komið inn á þann þátt að vegamálastjóra sé heimilt að fela sveitarstjórn veghald héraðsvega innan sveitarfélagsins óski viðkomandi sveitarfélag eftir því. Ég tel mjög mikilvægt að það sé þá að ósk sveitarfélaganna. Safnvegir og tengivegir hafa setið mjög á hakanum og gera þarf stórátak víða um land til að koma þeim yfir á 21. öldina. Það verður átak að fara í endurbyggingu og lagfæringu á slíkum vegum svo sómi sé að. Ef þeim málaflokki hefði verið komið yfir á sveitarfélögin hefði það verið mjög alvarlegt, að mínu mati, en hugsanlega telja efnameiri sveitarfélög eða þau sem telja að þau séu svo aftarlega á listanum og hafi setið svo á hakanum, að það eina sem dugi sé að fara í framkvæmdir á vegum sveitarfélaganna, en þá verður það að vera á þeirra forsendum og tryggt sé að þeim verði greitt eins og samkomulag næst um um kostnað.

Síðan kemur að 17. gr., sem ég tel að töluvert muni verða rædd í samgöngunefnd og eins þegar frumvarpið kemur til 2. umr., en það er gjaldtaka af umferð. Við höfum eingöngu þekkt gjaldtökuna frá Hvalfjarðargöngunum. Á sínum tíma rúmaðist sú mikla framkvæmd engan veginn innan fjárlagarammans eða möguleika þess að fara samkvæmt hefðbundnu leiðum í þá framkvæmd, en ég man svo vel eftir öðrum rökum sem voru látin gilda og þau eru — ég tel að þau séu alveg jafngild í dag — að það sé valkvætt. Hægt er að keyra áfram Hvalfjörðinn. Þetta er ekki eina leiðin vestur eða norður, hægt er að fara Hvalfjörðinn. Það er sem sé valkvætt og það tel ég að eigi að hafa í huga ef farið er í áframhaldandi einkaframkvæmdir, að valkvæðar leiðir séu fyrir hendi, ég tel að það séu alveg jafngild rök eins og mörg önnur til að réttlæta það að fara ekki samkvæmt hefðbundnu fyrirkomulagi, eins og við höfum stundað nýframkvæmdir og vegagerð fram til þessa, þetta sé ekki þannig að menn verði að keyra þær leiðir sem gjald er tekin fyrir.

Ég tel að við eigum að stíga varlega í þessa átt. Einkaframkvæmdin er dýrari, það eru arðsemiskröfur af slíkum framkvæmdum sem eru ekki hjá Vegagerðinni. Slíkar framkvæmdir eru einnig dýrari vegna þess að það eru óhagstæðari lán og lánskjör, nema þá ef ríkissjóður ætlar sér að vera með einhverja baktryggingu. Ef slík vinnubrögð yrðu tekin upp er mjög líklegt að auðveldara verði að ganga á svig við gildandi vegáætlun eins og kom fram rétt fyrir jólin þegar mönnum hljóp kapp í kinn við að lofa betri vegtengingu á milli höfuðborgarinnar og austur að Selfossi eftir Suðurlandsvegi. Það virtist vera hægt að lofa tvöföldun vegarins þar sem þessi framkvæmd yrði einkaframkvæmd og þar af leiðandi kæmi hún varla hingað inn á okkar borð eða mundi ekki íþyngja ríkissjóði. Ég held að slík hugsun, að fara í einkaframkvæmd og hafa það algengari framkvæmdir en verið hefur fram til þessa, muni leiða eitt og annað í ljós sem væri betra að við skoðuðum og héldum okkur við vegáætlun og hagkvæmari leiðir en einkaframkvæmdarleiðina.

Hvað varðar 8. gr., um ferjur, finnst mér mjög jákvætt að slíkt ákvæði sé komið þarna inn. Ég man eftir þeim ferðum sem ég fór um skerjagarðinn út frá Gautaborg og eins í Stokkhólmi, að hægt var að fara í ferju þar og borga eins og í strætó. Við búum ekki við slíkar aðstæður en þó eru staðir þar sem eyjar eru í byggð og þurfa íbúar ýmist að nota flug eða ferjur og mikilvægt að hafa þetta ákvæði inni. Í mörgum tilfellum er þetta hluti af almenningssamgöngum og hugsanlega gætum við komið þeim betur á en er í dag.

Hvað varðar 28. gr. finnst mér að mörgu leyti að þau lög sem lúta að mati á umhverfisáhrifum séu þannig að þegar kemur að vegagerð er miðað við ákveðna vegalengd sem boðin er út til framkvæmda eða farið er í. Ég tel að nokkurrar tregðu gæti við að setja framkvæmdir í mat á umhverfisáhrifum. Til lengri tíma litið tel ég að við græðum öll á því þegar menn eru farnir að slípast í að vinna samkvæmt þessu, að finna bestu og heppilegustu leiðina til vegagerðar með mati á umhverfisáhrifum. Ég tel að stuðla eigi frekar að því að framkvæmdir séu settar í mat á umhverfisáhrifum. Það muni jafnframt á margan hátt spara okkur bæði fjármuni og eins átök ef gerð er langtímaáætlun, t.d. hvað varðar svæðisskipulög. Þegar svæðisskipulögin eru unnin séu meginlínurnar dregnar þannig að íbúar svæðanna geti komið þar að og á því stigi raunar verði tekist á um hvar meginlínurnar eigi að vera, hvar stofnbrautirnar eigi að liggja, samanber átökin á Vestfjörðum núna. Að mínu mati hefði átt að vera búið að afgreiða vegarstæðið fyrir vestan með gerð svæðisskipulags en ekki þegar kemur að því að leggja veginn svo fólk fái betri heildarsýn og sjái þá hvað fram undan er.

Hæstv. forseti. Ég ætlaði aðeins að nefna nokkur atriði og ætlaði ekki að vera með langa ræðu en teygst hefur úr tímanum. Ég vona að samgöngunefnd hafi tíma til að fara vel yfir frumvarpið en mér finnst miður að samgönguáætlun skuli ekki vera komin fram. Ég hafði vonast eftir samgönguáætlun í upphafi þings svo nægur tími væri til að fara yfir áætlunina. Hún er enn ókomin en ég er sannfærð um að um þá áætlun eigi eftir að verða miklar umræður, bæði í nefndinni og eins í salnum. Mér finnst miður að hún skuli ekki liggja frammi nú þegar.