Vegalög

Þriðjudaginn 30. janúar 2007, kl. 17:05:19 (4028)


133. löggjafarþing — 62. fundur,  30. jan. 2007.

vegalög.

437. mál
[17:05]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég held að frumvarpið sem hér er lagt fram sé þokkalegt að flestu leyti. Ég hef ekki mjög miklar athugasemdir við það á fyrsta stigi þótt kannski kunni að koma í ljós við nánari yfirlestur og yfirlegu í nefnd að eitt og annað megi athuga.

Í 14. gr. er vikið að því að vegamálastjóra sé heimilt að fela sveitarfélagi viðhald héraðsvega innan sveitarfélags óski sveitarfélag eftir því. Þessi heimild er opnuð og ekkert nema gott um það að segja.

Mig langar hins vegar aðallega að gera að umræðuefni, hæstv. forseti, 17. gr. og hugsunina í henni varðandi gjaldtöku og útfærslu á gjaldtökuheimildum. Út af fyrir sig tel ég mjög eðlilegt að opnað verði á notkunargjaldið. Ég tel að það sé áhugaverður kostur til að taka inn tekjur af notkun þjóðvega. Það er talið mjög mismunandi hversu einstök farartæki slíta þjóðvegum eða nota þá mikið. En ég tek eftir því að í 17. gr., í skýringum við hana, er eingöngu hugsað fyrir því að um gjaldtöku verði að ræða, hvernig eigi að útfæra gjaldtöku af notkun þjóðvega eða vegarkafla. Eðlilega er bent á að það sé hægt að gera með GSP-tækni, staðsetningartækni og auðvitað þarf að mæla umferð á vegum og vegarköflum á viðkomandi farartæki, aksturstíma þess.

Ég tel að þessi útfærsla sé mjög áhugaverður kostur fyrir framtíðina. Það væri náttúrlega áhugavert ef þau gjöld sem við höfum núna, t.d. þungaskattur og annað, gætu að hluta til eða öllu leyti verið innheimt eftir þessari aðferð, þ.e. eftir því hver ekur, hvernig og á hvers konar farartæki. En þá verða menn líka að leggjast í fagvinnu við að reyna að meta hvernig eigi að haga gjaldtöku miðað við gerð ökutækis, þunga þess, tíðni ferða o.s.frv. Það hlýtur að vera hugsunin. Ég geri a.m.k. ráð fyrir því að samgönguráðuneytið fylgi þeirri stefnu að þannig verði tekið á þessu í framtíðinni, að miða við þessa tækni.

Ég vil varpa einni hugmynd inn í umræðuna sem alls ekki kemur fram í þessari grein sem þó hefði virkilega verið möguleiki á, hæstv. forseti. Þ.e. að það þarf ekki endilega að útfæra þetta sem gjaldtöku. Það er líka hægt að útfæra þetta sem endurgreiðslu, hæstv. samgönguráðherra. Ég bendi á að þegar menn eru farnir að mæla umferð um vegi eftir ástandi vega, eftir vegarköflum, gerð veganna og þyngd farartækis, þá er þetta líka orðin endurgreiðsla. Hér er eingöngu talað um þáttinn sem snýr að gjaldtökunni en ekki hugað að því að jafna megi flutningskostnað um landið með því að hugsa þetta sem endurgreiðsluaðferð, þ.e. að þau farartæki eða þeir landshlutar sem búa við slæmt vegakerfi, þar sem umferðinni er ekki boðið upp á neitt sambærilegt við betri vegi í nágrenni höfuðborgarsvæðisins eða á bestu þjóðvegum í dag. Ég nefni t.d. ýmsar nýjar leiðir sem hafa verið opnaðar á undanförnum árum, t.d. Vatnaleið, sem er einhver best lagði vegur sem maður hefur séð, af fjallvegum, þótt honum væri mótmælt á sínum tíma. Þar er um að ræða afar góðar og öruggar akstursleiðir.

Snúa mætti þessari hugsun við. Í 17. gr. á bls. 25 er talað um notkunargjaldið. Þar segir, með leyfi forseta:

„Þykir rétt að gera ráð fyrir þessari gjaldtöku í vegalögum en ekki liggur fyrir hvort né heldur hvenær búast má við beitingu hennar.“

Síðan hefði ég viljað bæta inn þeirri hugsun, mér finnst að það hefði átt að standa í greinargerðinni, hæstv. forseti: „Þykir rétt að gera ráð fyrir þessari gjaldtöku eða endurgreiðslu …“, hæstv. forseti, í vegalögum með það að markmiði að endurgreiða til þeirra sem aka lengstu flutningsleiðirnar með tilliti til þess vegakerfis sem mönnum er boðið upp á. Þessari hugsun held ég að menn eigi að koma inn í lagagreinina vegna þess að útfærslan og tæknin býður upp á að mæla vegalengdir, mæla ferð farartækjanna miðað við gerð þeirra og þunga væntanlega. Við getum skilgreint hvort um er að ræða flutningabíla með aftanívagni o.s.frv. eða hvort við erum að tala um annars konar flutningabíla á þjóðvegum landsins. Þá opnast möguleiki til þess, þar sem menn búa við versta vegakerfið, að í staðinn fyrir gjaldtöku umfram bensíngjöld og olíugjöld þá væri hægt að meta það til endurgreiðslu ef þeir þyrftu enn að keyra um vegi sem engan veginn eru sambærilegir við það sem aðrir eiga að venjast.

Þetta vildi ég benda á, hæstv. forseti. Ég tel að hugsunin megi ekki bara vera í þá átt að gjaldtakan verði í forgangi heldur eigi þetta líka að geta orðið til að jafna aðstöðu þeirra sem eru að keyra á þjóðvegum, eftir því hversu góða þjónustu þeim hefur verið veitt með nýbyggingu vega. Einnig vil ég beina þeirri hugsun inn í umræðuna hvort það mætti ekki einnig hugsa fyrir því að þau farartæki sem sleppa því að aka þjóðvegi landsins á stórum köflum með því að fara í ferju eigi ekki alveg eins rétt á endurgjaldi fyrir það. Ég held að menn verði að hugsa þetta í báðar áttir. Það er vissulega hægt að nota þetta sem gjaldtöku en einnig til endurgreiðslu og jafna þannig aðstöðu þeirra manna og landshluta sem búa við verst vegakerfi á landinu þótt framtíðin muni væntanlega gefa flestum landsmönnum kost á að búa við þjóðvegi með bundnu slitlagi, lagða eftir nútímastöðlum með lágmarkshalla og eðlilegri breidd.

Þessu vildi ég koma að í umræðunni. Þar sem ég á sæti í samgöngunefnd geti ég tekið þetta upp í nefndinni og reifað skoðanir mínar. Ég held að hugsa megi þetta á þennan veg eins og það að hér sé eingöngu lagt upp í gjaldtökuþáttinn þótt ég telji að notkunargjöld geti verið fyllilega eðlileg og mun eðlilegri heldur en sum þau gjöld sem við tökum af umferðinni í dag, t.d. þungaskatt sem kemur mjög óréttlátlega niður eftir vegalengdum á landinu, eftir ástandi þjóðvega o.s.frv. Ég beini þessu inn í umræðuna og vænti þess að hæstv. samgönguráðherra hafi meðtekið þessa hugmynd mína og tjái sig e.t.v. eitthvað um hana á eftir. Þetta gæti verið sanngirnismál a.m.k. meðan þjóðvegir landsins eru eins og þeir eru á sumum landsvæðum. Því er ekki saman að jafna hvort við erum að tala um þjóðvegi á Suður- og Vesturlandi eða þjóðvegi á Vestfjörðum og á norðausturhorni landsins.