Vegalög

Þriðjudaginn 30. janúar 2007, kl. 17:38:39 (4034)


133. löggjafarþing — 62. fundur,  30. jan. 2007.

vegalög.

437. mál
[17:38]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ekki ætla ég að halda því fram í þessum ræðustól að ég þekki alla króka og kima í reglugerðum Evrópusambandsins að því er varðar útfærslu á gjaldtöku eða ekki gjaldtöku, endurgreiðslu eða ekki endurgreiðslu. Hitt hlýtur mér að þykja nokkuð ljóst, hæstv. forseti, að út frá almennum sanngirnissjónarmiðum hljóti að mega setja sams konar gjald á sams konar vegum á sams konar ökutæki og þar af leiðandi hljóti að mega endurgreiða sams konar gjald eða kostnað á sams konar vegum og sams konar ökutæki. Þetta vildi ég bara sagt hafa út af því sem hæstv. ráðherra sagði áðan en ég þakka fyrir undirtektir hans við því að alveg megi hugsa til þess að útfæra þetta með þeim hætti sem ég benti á. Ég held að það væri áhugavert ef þessi tækni yrði innleidd við gjaldtöku hér á landi.