leynisamningar með varnarsamningnum 1951.
Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir að efna til þessarar umræðu sem ég tel að sé eðlileg og þörf, en sem kunnugt er var leynd aflétt af öllum viðaukum varnarsamningsins þann 18. janúar sl. og þeir gerðir opinberir. Áður hafði einungis viðbætir um réttarstöðu liðs Bandaríkjanna á Íslandi og eignir þeirra verið gerður opinbert skjal með varnarsamningnum en öll önnur fylgiskjöl voru flokkuð sem trúnaðarmál. Alls eru þetta átta skjöl sem fjalla m.a. um afnotarétt Bandaríkjanna af landsvæðum, kostnaðarábyrgð þeirra, eignarhald á mannvirkjum og skil á varnarsvæðum. Einnig eru ákvæði um undanþágu frá sköttum, almenna flugstarfsemi og mælingar vegna kortagerðar, almenna starfsemi, fjölda í herliði Bandaríkjanna og lögsögu yfir varnarliðsmönnum.
Í viðræðunum við Bandaríkin á síðasta ári voru þessi fylgiskjöl til umræðu og gerðar voru á þeim þær breytingar sem nauðsynlegar voru miðað við breyttar aðstæður. Af Íslands hálfu var ekkert því til fyrirstöðu að þessari leynd væri aflétt þegar að lokinni undirritun 29. september sl. en skrifræði í Bandaríkjunum varð þessi valdandi að endanleg afgreiðsla fékkst ekki í Washington fyrr en 11. janúar sl.
Ég tel í sjálfu sér ekki þjóna miklum tilgangi að ræða það í dag hvers vegna þessi skjöl voru upphaflega flokkuð sem trúnaðarmál eða hvers vegna þessari leynd var ekki aflétt fyrr. Hins vegar er augljóst að aðstæður á Íslandi við gerð varnarsamningsins voru allt aðrar en þær eru nú. Varnarsamningurinn var líklega umdeildasti tvíhliða samningur sem Ísland hefur gert en tveimur árum áður höfðu átt sér stað uppþot á Austurvelli þegar Alþingi samþykkti aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu. Þannig varpar spegilmynd samtímans ekki endilega sanngjörnu ljósi á fortíðina.
Hvað varðar þau ákvæði í viðaukunum sem hafa verið hvað mest í umræðunni — og þá er ég að tala um 8. gr. almenna viðbætisins um skil svæða og 2. gr. viðbætis um almenna flugstarfsemi — er ljóst að íslenska viðræðunefndin var nokkuð bundin af áður gerðum samningum, m.a. hvað hreinsun svæða snerti.
Ýmislegt náðist hins vegar fram í skilasamningnum við Bandaríkin, til að mynda fékk íslenska ríkið öll bandarísk mannvirki á varnarsvæðinu án endurgjalds. Hér er um að ræða verðmæti sem nema milljörðum. Þá er ákvæði í skilasamningnum þess efnis að komi í ljós ófyrirséð alvarleg mengun á næstu fjórum árum muni Ísland og Bandaríkin hafa samráð og samstarf um viðbrögð. Líkurnar á að slíkt komi upp eru hins vegar taldar afar litlar enda umfang og eðli mengunar á svæðinu þekkt.
Hvað varðar aðgengi að landinu á ófriðartímum verðum við að hafa í huga þá skuldbindingu sem Bandaríkjamenn hafa undirgengist, þ.e. að verja Ísland gegn utanaðkomandi vá. Þetta er ekki lítil skuldbinding og ekki óeðlilegt að henni verði að fylgja ákveðið svigrúm til athafna. Hins vegar yrði reyndin ávallt sú að íslensk og bandarísk stjórnvöld mundu hafa samráð um slíkt aðgengi og yfirtöku, t.d. á stjórnun flugumferðar. Slíkt er eðli samninga á milli fullvalda þjóða og bandamanna.
Í sérstöku fylgiskjali, nr. 4, er fjallað um framkvæmd þeirra tilvika þegar Ísland og Bandaríkjamenn eiga bæði lögsögu í máli þar sem varnarliðsmaður hefur brotið af sér. Skjalið inniheldur yfirlýsingu af Íslands hálfu þar sem því er lýst að ríkisstjórn Íslands óski ekki eftir því að fara með lögsögu í slíkum málum nema þegar um sé að ræða mál sem hafi sérstaka þýðingu fyrir Ísland. Í ljósi þess að þetta skjal hefur nú verið gert opinbert, sýnist mér nærtækast að íslensk stjórnvöld móti og setji reglur um það hvaða mál teljist hafa sérstaka þýðingu fyrir Ísland og að efni slíkra reglna verði komið á framfæri við bandarísk yfirvöld.
Það er eðlilegt að spurt sé hvort reynt hafi verið til þrautar að fá leyniviðaukunum breytt í samningaviðræðunum við Bandaríkjamenn á síðasta ári og svarið er eftirfarandi:
Gerðar voru þær breytingar á viðaukunum sem eðlilegar voru í ljósi þess að fastri viðveru bandarísks herliðs væri að ljúka. Hvað skil á svæðum varðar má ljóst vera að áherslur á umhverfismál árið 1951 voru allt aðrar og minni en í dag. Ákvæði í viðaukunum ber þess merki og sem fyrr greinir munu Íslendingar og Bandaríkjamenn taka sameiginlega á alvarlegri mengun ef upp kemur. Ég hef hins vegar sagt að ég hefði gjarnan viljað sjá meiri skuldbindingu af hálfu Bandaríkjanna hvað hreinsun svæða varðar, en svona eru samningar. Ýtrustu kröfur Bandaríkjamanna náðu heldur ekki fram að ganga í þessum samningi.