Leynisamningar með varnarsamningnum 1951

Mánudaginn 05. febrúar 2007, kl. 16:23:13 (4259)


133. löggjafarþing — 65. fundur,  5. feb. 2007.

leynisamningar með varnarsamningnum 1951.

[16:23]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Hæstv. utanríkisráðherra á hrós skilið fyrir að hafa flutt hérna heiðarlega og ærlega ræðu. Ég gat ekki betur heyrt á máli hæstv. ráðherra en hún hafi reynt af fremsta megni að svara ærlega þeim spurningum sem fyrir hana voru lagðar.

Það er ákaflega merkilegt að hæstv. ráðherra lýsir því hér yfir að sökum hins leynilega viðauka um skil á varnarsvæðum frá 1951 hafi hendur Íslendinga verið bundnar við samningana núna í haust. Hæstv. ráðherra segir það undanbragðalaust að hún hefði viljað sjá skýrari ákvæði um skuldbindingar Bandaríkjamanna varðandi skil á svæðunum. Að þessu leyti er alveg ljóst að það er himinn og haf milli viðhorfa hæstv. forsætisráðherra og hæstv. utanríkisráðherra í þessum efnum. Hæstv. forsætisráðherra lýsti því yfir síðast fyrir örfáum dögum að hann teldi að skilasamningarnir frá því í haust hefðu verið fullnægjandi. Nú liggur það fyrir að hæstv. utanríkisráðherra er annarrar skoðunar og hún segir það jafnframt alveg klárt og kvitt að hendur Íslendinga hafi verið bundnar með löglausum leynisamningum frá árinu 1951. Það skiptir ákaflega miklu máli í þessari umræðu.

Hæstv. ráðherra á líka hrós skilið fyrir að hafa viljað aflétta pukri og leynd sem hún segir að vísu að hafi aðallega verið karlapukur í reykfylltum bakherbergjum. Ef svo er að hæstv. ráðherra vilji losna við pukrið, spyr ég hana jafnheiðarlega og -ærlega og hún hefur svarað hér: Af hverju er þá ekki stjórnarandstöðunni sem situr undir trúnaði í utanríkismálanefnd leyft að sjá það sem er undirstaðan undir varnarsamkomulaginu frá því í haust, þ.e. varnaráætlunina sem Bandaríkjamenn gerðu? Er það ekki pukur sem er fordæmanlegt? Er kvennapukur eitthvað betra en karlapukrið, jafnvel þótt það sé pukur framsóknarkvenna? Ég held ekki. Mig langar til að hæstv. ráðherra svari mér þessu.

Það sem mér finnst alvarlegast í þessum samningi er ákvæðið í leyniviðaukanum um einhliða rétt varnarliðsins til að taka yfir stjórn flugmála í landinu. Samkvæmt 2. gr. leyniviðbætisins um almenna flugstarfsemi er bandarískum stjórnvöldum heimilt og ég vitna, með leyfi forseta: „að svo miklu leyti sem herþörf krefur að þeirra dómi að taka í sínar hendur fulla stjórn og ábyrgð á almennri flugstarfsemi“.

Þarna var ég að vitna til hins gamla viðauka. Það sem ég tel vera fordæmanlegt er að í hinum nýja leyniviðauka ríkisstjórnarinnar frá því í haust er þessi heimild enn þá inni þó að greininni hafi að sönnu verið lítillega breytt. Þar segir að Bandaríkjamenn geti, ég tel að það segi alveg skýrt þó að það hafi að vísu ekki verið þýtt yfir á íslensku en eins og ég skil það tel ég að í þeim texta segi alveg skýrt að Bandaríkjamenn geti einhliða ákveðið að taka að fullu yfir stjórn og ábyrgð á borgaralegu flugi til og frá Íslandi.

Þetta er satt að segja alveg ótrúlegt. Hæstv. forsætisráðherra hefur ekki með fullnægjandi hætti getað svarað spurningunni um hvort þetta stangist ekki á við lög og stjórnarskrá. Hann hefur að vísu verið uppi með nokkuð almennt þus um að þetta sé náttúrlega samningur tveggja fullvalda ríkja og um þetta verði samið. Hæstv. utanríkisráðherra reyndi að skýra þetta áðan á sömu lund. Samningsskuldbindingin hljóðar ekki upp á það. Samkvæmt henni er valdið Bandaríkjanna og reynsla okkar af samskiptum við Bandaríkin allt frá árinu 2000 segir okkur skýrt að Bandaríkin túlka svona ákvæði eftir orðanna hljóðan.

Þetta samningsákvæði stenst ekki íslensk lög að mínu viti. Hvergi í íslenskum lögum er gert ráð fyrir að erlent ríki geti tekið yfir stjórn borgaralegs flugs í landinu. Ég tel að þetta sé á mjög gráu svæði gagnvart stjórnarskránni og ég get ekki annað en tekið undir með málshefjanda að mér finnst að skoða þurfi mjög rækilega hvort þetta sé ekki beinlínis brot á stjórnarskránni.

Það sama gildir, herra forseti, um það sem varðar framsal á refsilögsögu til Bandaríkjanna líka. Í hinum opinbera lögfesta viðbæti frá árinu 1955 er tekið fram með nokkuð skýrum hætti um rétt íslenskra stjórnvalda til lögsögu yfir mönnum í liði Bandaríkjanna vegna brota sem þeir kunna hugsanlega að fremja hér á landi. Í hinum leynilega tæknilega viðauka nr. 4 afsala íslensk stjórnvöld sér hins vegar réttinum til lögsögu nema um sé að tefla sakir sem hafa sérstaka þýðingu fyrir Ísland og ekki er hægt að skilja þann viðauka öðruvísi en að réttum íslenskum yfirvöldum, eins og bent var á fyrr í umræðunni, séu þá gefin fyrirmæli og leiðbeiningar um að framselja liðsmenn varnarliðsins, sem hafa brotið innan og gegn refsilögsögu íslenska ríkisins, í hendur Bandaríkjamanna.

Nú er það svo, frú forseti, að opinberi viðaukinn hefur lagagildi í landinu en núna er upplýst að stjórnvöld hafi samið í leynisamningum um að aðrar reglur gildi um framsal varnarliðsmanna en lögfestar eru á Íslandi. Það þýðir ekkert annað en að í reynd er búið að framselja refsilögsögu til erlends ríkis. Ef liðsmaður Bandaríkjanna er hér á heræfingu og brýtur af sér, stendur enn þessi löglausa samningsskuldbinding íslenskra stjórnvalda.

Ég spyr báða þá hæstv. ráðherra sem hér eru staddir: Hvernig ætla íslensk stjórnvöld að tryggja efndir þessara skuldbindinga þegar íslensk lög hljóða skýrlega upp á annað? Herra forseti. Ég tel að þetta hljóti að fara mjög nálægt því að brjóta stjórnarskrána.