Leynisamningar með varnarsamningnum 1951

Mánudaginn 05. febrúar 2007, kl. 16:41:56 (4262)


133. löggjafarþing — 65. fundur,  5. feb. 2007.

leynisamningar með varnarsamningnum 1951.

[16:41]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Það vekur athygli að talsmenn bæði Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks reyna að réttlæta leynisamningana frá því um miðja síðustu öld með ljósi tíðarandans.

Hæstv. utanríkisráðherra Valgerður Sverrisdóttir segir ekki þjóna miklum tilgangi að horfa inn í fortíðina í þessum efnum. Við verðum að hafa í huga að uppþot hafi orðið og að ef til vill varpi þessi leynisamningur ekki sanngjörnu ljósi á fortíðina.

Það gerði ræða hæstv. utanríkisráðherra ekki heldur. Það var ekki einvörðungu svo að efnt hefði verið til mótmæla á Austurvelli þegar Ísland var dregið inn í NATO, heldur höfðu einstaklingar úr verkalýðshreyfingu og stjórnmálum verið teknir fyrir. Símar þeirra höfðu verið hleraðir ólöglega. Það hefur nú verið upplýst. Þeir voru dregnir fyrir dóm. Þeir voru sviptir æru sinni. Þeir voru sviptir kosningarrétti. Þeir voru sviptir mannréttindum. Þessa saknaði ég í ræðu hæstv. utanríkisráðherra.

Síðan er annað með fortíðina. Auðvitað eigum við að fá fram það sem er satt og rétt í þeim efnum en einnig vegna þess að fortíðin lifir enn. Hún lifir í persónum, pólitík og vinnubrögðum.

Þar horfi ég ekki einvörðungu á leynimakkið í kringum Íraksstríðið. Nei, ég er að horfa til þeirrar staðreyndar að síðasta haust eru leynisamningurinn og leyniviðaukarnir enn samþykktir af hálfu þess utanríkisráðherra sem nú situr á valdastóli íslenskum.

Þá vil ég geta þess þegar sagt er og staðhæft, sennilega réttilega af hálfu hæstv. utanríkisráðherra, að um sé að ræða einn umdeildasta samning í sögu Íslendinga, einn umdeildasta samning fyrr og síðar, að þeim mun meiri rök séu fyrir því að upplýsa þjóðina um hvað þarna var raunverulega um að ræða. (Utanrrh.: Er ég ekki að því?) Við erum að tala um leynisamninga. Við erum að tala um baksamninga. Á bak við hvern átti að fara? Og á bak við hvern var farið? Það var farið á bak við íslenska þjóð. Frá henni var upplýsingunum haldið.

Nú veit ég ekki hvort framsóknarmenn eru meira gefnir fyrir reyktóbak en annað fólk. Þegar hæstv. ráðherra talar um að um þetta hafi verið makkað í reykmettuðum bakherbergjum er það staðreynd að það eru ráðherrar Framsóknarflokksins sem flestum öðrum fremur hafa setið á stóli utanríkisráðherra Íslands. Í að minnsta kosti tvo áratugi höfðu þeir tækifæri til að upplýsa um þessa samninga. Sannast sagna, hæstv. forseti, finnst mér skjóta skökku við þegar við heyrum núverandi hæstv. utanríkisráðherra tala um að hún sé á móti leynimakki eftir allt leynimakkið með erlendum fjölþjóðlegum árhringjum á undanförnum árum.

Hæstv. forseti. Það sem við þurfum nú að fá upplýst er á hvern hátt samningurinn stríddi, og hefur allt fram á þennan dag strítt, gegn íslenskum lögum og gegn stjórnarskrá íslenska lýðveldisins.