leynisamningar með varnarsamningnum 1951.
Virðulegi forseti. Fyrir tveimur áratugum tók ég sæti í þingmannasamtökum Norður-Atlantshafsríkjanna. Fundir þar fóru yfirleitt þannig fram á þeim árum að áhrifamenn á hernaðar- og stjórnmálasviði fluttu erindi og messuðu yfir fulltrúum þeirra 19 þjóða sem áttu aðild að NATO á þeim tíma um hættuna sem stafaði af Sovétríkjunum. Síðan fóru menn heim af þessum fundum og talað var um það þegar ég var búinn að vera þarna í u.þ.b. tvö ár að það væri kannski hugsanlegt að senda þingmannasendinefndir til Búlgaríu til skrafs og ráðagerða.
Það varð hlé á setu minni í þessum samtökum á árunum 1987–1991 en þá kom ég aftur þar inn. Þá var allt breytt. Rússarnir voru komnir inn í samtökin með málfrelsi og tillögurétt, sestir við borðið ásamt fulltrúum allra þeirra þjóða sem voru á þeim tíma að losa sig úr tengslum við Sovétríkin.
Ég segi þetta hér til að vekja athygli á því andrúmslofti sem varð í kjölfar þeirra miklu átaka sem dundu yfir Evrópu á öldinni sem leið og leiddu til kalda stríðsins sem var ógnarjafnvægi á spjótsoddum og varðstaða um skiptingu Evrópu innan áhrifasvæðis stórveldanna. Þessi tími er liðinn en timburmenn hans, ef svo má að orði komast, eru að koma í ljós. Umræðan hefur einkennst af slíku undanfarið. Hún hefur snúist um símahleranir og í dag snýst hún um þá viðaukasamninga sem gerðir voru við Bandaríkjamenn árið 1951 og voru ekki birtir þá. Utanríkisráðherra hefur nú tekið þá réttu og skynsamlegu ákvörðun að birta þessa samninga og það er í samræmi við opna stjórnsýslu nútímans.
Ákvörðunin um að birta ekki þessa samninga á sínum tíma helgaðist af ógnarandrúmslofti, tortryggni og vantrausti sem ríkti á þessum árum. Menn héldu að sér ákvörðunum í varnarmálum og vildu einfaldlega ekki að upplýsingar í smáatriðum um fyrirkomulag þessara mála lægju á borði andstæðinganna. Það má endalaust deila um það hvort ástæða hefði verið til á sínum tíma að birta meira úr þessum samningum eða birta þá en það er mjög auðvelt að setjast í dómarasæti eftir á í þessum efnum. Andrúmsloftið sem ríkti á árum síðari heimsstyrjaldarinnar og eftirstríðsárunum var þannig að erfitt er fyrir okkur nútímafólk að ímynda okkur það ástand. Bakgrunnurinn fyrir þessu andrúmslofti voru skelfileg átök, stríðsaðgerðir, kúgun og blóðsúthellingar og þetta var gjörningaveður.
Það sem máli skiptir nú er að málið hefur verið opnað og herinn er farinn vegna þess að það er friður í þessum heimshluta. Það er hinn stóri árangur (Gripið fram í: Framsóknarflokksins?) af þeim samningum sem gerðir voru á sínum tíma. Ég hef mikla sannfæringu fyrir því. Það sem skiptir máli er að halda á þessum málum með eðlilegum hætti í samræmi við nútímastjórnsýslu og það er það sem hæstv. utanríkisráðherra hefur forustu um að gera um þessar mundir.