Leynisamningar með varnarsamningnum 1951

Mánudaginn 05. febrúar 2007, kl. 16:54:53 (4265)


133. löggjafarþing — 65. fundur,  5. feb. 2007.

leynisamningar með varnarsamningnum 1951.

[16:54]
Hlusta

Halldór Blöndal (S):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir að hafa haft frumkvæði að því að þessir samningar yrðu birtir og utanríkisráðherra fyrir að hafa séð um þá framkvæmd (Gripið fram í.) — er það nú enn einu sinni ritstjóri Þjóðviljans sem hlær? — að þessi viðaukar skuli birtir og eins og fram kemur eru þeir eðlilegir og ekkert í þeim kemur á óvart. Varnarsamningurinn var gerður við þau skilyrði að Berlín var ógnað með samgöngubanni, þjóðir Norðurlanda óttuðust, og það með réttu, innrás Sovétríkjanna og við sem höfum hitt m.a. forustumenn t.d. í Eystrasaltslöndunum vitum hvað það hefði þýtt og það er ekkert til að hlæja að. Það voru miklar viðsjár í veröldinni, utanríkismálanefnd var ekki kölluð saman á þessum tíma og enginn trúnaður þar inni eins og við vitum.

Það er verið að tala um mikla leynd. Sjálfstæðisflokkurinn hafði utanríkisráðherra 1951–1953 og síðan aftur 1983–1987, þannig að ef menn telja að utanríkisráðherrar hafi brugðist þá munu þeir vera í öðrum flokkum.

Ég vil vekja athygli á því, herra forseti, að hinn 25. júlí 1989 þegar hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sat í ríkisstjórn og einn helsti stuðningsmaður ríkisstjórnarinnar var hv. þm. Ögmundur Jónasson, voru gerðir þrír samningar við varnarliðið. Fyrsti samningurinn varðaði vatnsveitu á Miðnesheiði vegna þess að vatnsveitan þar var menguð og þess vegna var nauðsynlegt fyrir sveitarfélögin þar og varnarliðið að fá hreint vatn og gerður var sérstakur samningur um að varnarliðið skyldi leggja fram fé til þessa samnings og hafa aðgang að honum.

Í öðru lagi var gerður samningur um umhverfismál sem dró heldur úr þeim skuldbindingum sem Bandaríkjamenn höfðu áður gert og í þriðja lagi, herra forseti, var gerður samningur milli ríkisstjórnarinnar og varnarliðsins um ljósleiðaravæðingu hér á landi. Yfirmaður ljósleiðaravæðingar á þeim tíma var Steingrímur J. Sigfússon. Bandaríkin skyldu leggja fram að hámarki 22,5 millj. dollara til þessarar ljósleiðaravæðingar.

Nú skyldi maður spyrja eins og þessir hv. þingmenn tala: Hvenær koma allir þessir þrír samningar fyrir utanríkismálanefnd? Voru þetta leynisamningar? Getur það verið, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon? Svo stendur á að rétt áður en þessir samningar voru gerðir var fundur í utanríkismálanefnd, eða hinn 10. júlí, og þar var sérstaklega farið fram á það að utanríkisráðherra, sem á þeim tíma var Jón Baldvin Hannibalsson, skyldi fara yfir starfsemi varnarliðsins í utanríkismálanefnd. Þetta var 10. júlí 1989.

Næsti fundur í utanríkismálanefnd var haldinn 20. júlí, ekki er minnst á varnarliðið þar. Síðan var haldinn fundur 30. ágúst, rúmlega mánuði eftir að þeir þrír samningar eru gerðir sem varða varnarliðið á Keflavíkurflugvelli. Ekki orð um það í utanríkismálanefnd. Þessir samningar voru aldrei lagðir fram í utanríkismálanefnd. Svo er maður sem sat í ríkisstjórn á þessum tíma, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, maður sem bar stjórnskipulega ábyrgð á ljósleiðaravæðingu landsins sem samgönguráðherra, að standa hér upp og væna aðra menn um einhverja leynisamninga. Ja, honum ferst, segi ég, hæstv. forseti. Staðreyndin er sú að það var eðlilega staðið að varnarmálum á sínum tíma og nauðsynlegt fyrir Íslendinga að hafa varnir og sjálfsagt að utanríkismálanefnd fái að fylgjast með í utanríkismálum.