Leynisamningar með varnarsamningnum 1951

Mánudaginn 05. febrúar 2007, kl. 16:59:26 (4266)


133. löggjafarþing — 65. fundur,  5. feb. 2007.

leynisamningar með varnarsamningnum 1951.

[16:59]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það er vissulega lofsvert að hæstv. utanríkisráðherra eða hæstv. forsætisráðherra skuli hafa tekið þá ákvörðun að aflétta leynd af þeim viðaukum sem voru gerðir þegar varnarsamningur Íslendinga við Bandaríkjamenn var undirritaður árið 1951. Það er náttúrlega alveg rétt sem komið hefur fram í málflutningi til að mynda hæstv. forsætisráðherra en líka hv. þm. Halldórs Blöndals að það voru viðsjárverðir tímar í heiminum þegar þetta var gert og ég held að við verðum að skoða þessa þætti með söguna í huga og þær aðstæður sem ríktu í heiminum þegar þessir atburðir áttu sér stað. Þar fyrir utan nenni ég í sjálfu sér ekki að dvelja svo mikið við hinar sögulegu forsendur þessara hluta eða fortíðina, þetta liggur langt inni í fortíðinni, við erum að tala um rúmlega hálfa öld. Ég hygg að það hafi aldrei verið vænlegt til velgengni í pólitík að fara inn í framtíðina starandi í baksýnisspegilinn þó að sagan sé að vissu leyti góð sem viðmiðunarpunktur varðandi þær ákvarðanir sem við tökum í nútímanum þegar við erum að marka okkur stefnu inn í framtíðina.

Hitt vildi ég segja, virðulegi forseti, að sá samningur sem nú liggur fyrir hlýtur að vekja upp margar áleitnar spurningar. Hv. þm. Valdimar Leó Friðriksson fór yfir það í ræðu sinni áðan þar sem hann bendir á ýmsar greinar þess samnings sem hæstv. utanríkisráðherra undirritaði nýlega við Bandaríkjamenn. (Gripið fram í.) Já, hv. þm. Össur Skarphéðinsson gerði það líka með réttu og benti einmitt á ákvæði stjórnarskrárinnar. Mér finnst, virðulegi forseti, að þetta veki kannski upp þær spurningar sem við ættum að vera að ræða hér í dag, þ.e. hvaða samkomulag er í raun og veru í gildi við Bandaríkjamenn núna. Hvað felst í þeim orðum sem koma fram í samningnum eins og hann lítur út í dag? Það ætti að sjálfsögðu að vera eðlileg og sanngjörn krafa að þetta mál yrði tekið fyrir á fundum hjá hv. utanríkismálanefnd þar sem alþingismönnum þjóðarinnar yrði gefinn kostur á því að spyrja t.d. embættismenn og aðra hvað felst í enskum hugtökum eins og „host nation responsibility“, „user nation responsibility“, „responsibility relating to use, operation, preservation and maintenance“. Hvað felst í þessum hugtökum í þessum samningi? Hvaða túlkun eða skilningur hefur verið lagður í þennan samning af hálfu þeirra sem sáu um þessa samningsgerð fyrir Íslands hönd? Hvaða túlkun hefur til að mynda verið lögð í þetta af hálfu Bandaríkjamanna? Hvað þýða þessi ákvæði ef í harðbakkann slær?

Ég held að þetta séu spurningar sem Alþingi hlýtur að eiga kröfu á að fá svör við. Við þurfum að gera okkur grein fyrir því hvað felst í núgildandi samningi við Bandaríkjamenn þannig að við vitum hvernig þessi samningur verður túlkaður ef í harðbakkann slær, ef Bandaríkjamenn kjósa t.d. að snúa hingað aftur með herlið. Það er náttúrlega ekkert annað en barnaskapur að ætla að Bandaríkjamenn fari hér um af fyllstu kurteisi, ef svo má að orði komast, að þeir muni ekki túlka þennan samning út í ystu æsar til hagsbóta fyrir þann stríðsrekstur sem hugsanlega yrði í gangi við þær aðstæður sem ríktu þegar Bandaríkjamenn kysu að snúa hingað aftur á nýjan leik. Það er barnaskapur að ætla sér annað en að þeir geri það.

Ég held líka að það sé barnaskapur að ætla að enda þótt friðvænlegt ástand sé núna í Norðurhöfum, í okkar heimshluta, geti ekki dregið til ófriðar á nýjan leik. Að sjálfsögðu er hætta á því að slíkt gerist og það getur gerst á tiltölulega skömmum tíma, sagan, saga undanfarinna ára í heiminum, ætti að segja okkur meira en mörg orð um það, virðulegi forseti.