Siglingavernd

Mánudaginn 05. febrúar 2007, kl. 18:39:03 (4287)


133. löggjafarþing — 65. fundur,  5. feb. 2007.

siglingavernd.

238. mál
[18:39]
Hlusta

Frsm. samgn. (Guðmundur Hallvarðsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Hér er að vísu verið að tala um tvennt af hálfu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar. Annars vegar þá siglingavernd sem felst í að gæta skipa og öryggis í höfnum, hins vegar siglingavernd varðandi siglingu kaupskipa með ströndum fram.

Þannig vill til, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, að árið 1996 flutti sá er hér stendur þingsályktunartillögu um afmarkaðar siglingaleiðir skipa. Hvað sagði sú þingsályktunartillaga? Að farið yrði í að marka ákveðnar siglingaleiðir kaupskipanna og jafnframt að kaupskipum sem kæmu hingað erlendis frá væri bannað að dæla úr ballesttönkum, hvort sem það væru botntankar eða ballesttankar. Því við höfum dæmi um að skip voru jafnvel að koma eftir 22–23 sólarhringa siglingu frá Ástralíu með sjó í ballesttönkum þaðan og dældu svo úr tönkum í höfn hér í Straumsvík.

Menn muna það líklega að þegar kær vinkona hv. þingmanns, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, opnaði Elliðaárnar árið 1994, geisaði mikil kýlapest í Elliðaánum. Hvers vegna skyldi það hafa verið? Gæti ekki verið að í Sundahöfninni hefðu skip legið sem voru að dæla úr ballesttönkum?

Sá er hér stendur fór sem stýrimaður til Bandaríkjanna fyrir nokkrum árum á kaupskipi. Þar var tilkynnt af strandgæslunni að í ákveðinni fjarlægð frá landi væri bannað að dæla úr ballest. Hvers vegna? Jú, vegna þess að mengaður getur sjórinn orðið skaðlegur.

Það var einmitt það sem ég hugsaði um þegar ég flutti þá þingsályktunartillögu, sem var samþykkt, um afmarkaðar siglingaleiðir. Þegar skip komu frá Evrópu byrjuðu þau á því að sigla beinustu leið að suðurströndinni og svo meðfram henni allri (Forseti hringir.) á milli lands og Eyja, yfir Selvogsbanka, sem er uppeldisstöð þorsksins og fleiri stofna. Því miður hefur sú nefnd (Forseti hringir.) sem sett var á laggirnar ekki skilað áliti enn þá.