Siglingavernd

Mánudaginn 05. febrúar 2007, kl. 18:52:33 (4292)


133. löggjafarþing — 65. fundur,  5. feb. 2007.

siglingavernd.

238. mál
[18:52]
Hlusta

Frsm. samgn. (Guðmundur Hallvarðsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er hárrétt sem hv. þm. Kristján L. Möller kom inn á og einmitt síðustu orð hans þar sem hann vitnar til Fréttablaðsins. Þar kom fram í morgun fullyrðing frá Landhelgisgæslunni um glæfrasiglingu tveggja stórra fraktskipa sem hafi siglt hér með ströndum fram.

Það sem kannski er merkilegast í fréttinni og alvarlegast er að Landhelgisgæslan ætlar ekkert að aðhafast vegna þess að hún segir að málin séu í höndum Siglingastofnunar. Þetta er kannski eitt málið af mörgum sem tengjast of mörgum aðilum vegna eftirlitsþáttarins, þ.e. samgönguráðuneyti, dómsmálaráðuneyti og umhverfisráðuneyti. Þetta eru mál sem þarf virkilega að taka á. Enda sagði ég í þingsályktunartillögunni minni að taka ætti af skarið um hver hefði vald til þess að stöðva skip ef sama kæmi upp á eins og með Víkartind, þar sem skipstjórinn sjálfur ákvað það hvort þeir tækju dráttartaug frá björgunarskipi eða ekki. Það fór sem fór. Ég tel því tvímælalaust að við eigum að hafa vald yfir þeim skipum sem eru innan efnahagslögsögunnar.

Í annan stað tel ég líka að Landhelgisgæslan hefði ekki átt að bíða eftir einhverju frumkvæði Siglingastofnunar í þessu heldur taka frumkvæðið sjálf þegar ljóst var að allt upp í 40.000 tonna skip sigldi með ströndum fram uppi í harða grjóti og með mengandi farm.

Ég ræði þetta mál í fullri alvöru í nauðsyn þess að á þessu verði tekið. Það þýðir ekkert að vera að horfa á einhverjar pólitískar línur í þessu. Þetta er grafalvarlegt mál.

Siglingalög, (Forseti hringir.) og við endurskoðun þeirra síðast 1985 sá enginn þau ósköp fyrir sem hér eru að gerast með auknum siglingum innan efnahagslögsögu okkar.