Verðlagsstofa skiptaverðs o.fl.

Mánudaginn 26. febrúar 2007, kl. 18:16:31 (5395)


133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

Verðlagsstofa skiptaverðs o.fl.

644. mál
[18:16]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hér er hert á heimildum sem Verðlagsstofa skiptaverðs hefur til að ganga úr skugga um að gert sé upp við sjómenn samkvæmt samningum um fiskverð sem áður hafa verið kynntir Verðlagsstofunni og er það hið besta mál. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji mikil brögð að því að svindlað sé með þeim hætti að lagðir séu fram samningar um fiskverð sem ekki er gert upp eftir. Fyrst brugðist er við og lögum breytt, eins og hér er verið að gera, verður maður að álykta sem svo að það hljóti að vera einhver brögð að þessu eða a.m.k. að telja að þessu talsverð brögð.

Annað sem mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um varðar 3. gr. Í 3. gr. er gert ráð fyrir að breyta lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða. Í athugasemdum um 3. gr. segir að kveðið sé á um að áður en Fiskistofa staðfesti flutning aflamarks skuli fást staðfesting frá Verðlagsstofu skiptaverðs um að fyrir liggi samningur útgerðar og áhafnar um fiskverð til viðmiðunar hlutaskiptum.

„Í samræmi við tilgang þessa ákvæðis, sem er að koma í veg fyrir að sjómenn séu látnir taka þátt í kostnaði af kaupum á veiðiheimildum, hefur ákvæðinu verið framfylgt þannig að Fiskistofa hefur ekki staðfest flutning aflamarks til fiskiskips nema að fenginni umræddri staðfestingu Verðlagsstofu. Hér er lagt til að orðalagi ákvæðisins verði breytt til samræmis við þá framkvæmd.“

Ég sé ekki betur, þegar ég les í gegnum lögin eins og þau eru og breytingar á þessari grein, en að í sjálfu sér sé ekki verið að breyta neinu. Í lögunum segir að það megi ekki staðfesta neitt nema fyrir liggi staðfesting frá Verðlagsstofu. Því langar mig að spyrja hæstv. ráðherra: Hverju er verið að breyta og hvernig er orðalag ákvæðisins fært til samræmis við einhverja framkvæmd sem er í gangi? Þetta er eins, bæði í breytingunni og lögunum eins og þau eru.