Verðlagsstofa skiptaverðs o.fl.

Mánudaginn 26. febrúar 2007, kl. 18:18:54 (5396)


133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

Verðlagsstofa skiptaverðs o.fl.

644. mál
[18:18]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Jón Gunnarsson spurði hvort ég teldi mikil brögð að því að ekki væri farið eftir lögum um uppgjör, varðandi uppgjör sjómanna og útvegsmanna. Ég get í sjálfu sér ekkert fullyrt um hvort mikil brögð séu að þessu eða hvort um er að ræða fáein undantekningartilvik. Ég hefði viljað að það væru frekar fáein undantekningartilvik. Ég hef a.m.k. viljað trúa því að í flestum tilvikum sé reynt að fara eftir þessum lögum.

Það hefur hins vegar borið á því og verið kvartað undan því, og þeim umkvörtunum m.a. komið til okkar í sjávarútvegsráðuneytinu, að það sé ekki að öllu leyti farið eftir þessum lögum. Ég vek líka athygli á því að í þinginu hafa þessi mál allnokkrum sinnum komið til umræðu. Menn hafa m.a. vakið athygli á því að ein ástæðan fyrir þeirri hækkun sem orðið hefur á leigukvótum kunni að vera að tilteknir aðilar hafi stuðlað að því að sjómenn tækju þátt í kvótakaupum, sem hafi síðan gert það að verkum að þeir hafi getað spennt upp kvótaverðið. Ég taldi ástæðu til að fara ofan í þessi mál sérstaklega, m.a. með þátttöku samningsaðila sjómanna og útgerðarmanna og útvegsmanna. Niðurstaðan var sú að nauðsynlegt væri að herða á reglunum til að tryggja það eftir föngum að komið yrði í veg fyrir að menn kæmu sér fram hjá samningum og fram hjá lögum.

Stóra breytingin þarna felst í að hnykkt er á aukinni eftirlitsskyldu Verðlagsstofu skiptaverðs. Ég er sammála hv. þingmanni um að Verðlagsstofan hafði heilmikil tæki en þarna er verið að árétta það og undirstrika að stofunni sé ætlað þetta hlutverk, að fara ofan í þessi mál. Það er stóra breytingin. Ef sú athugun leiðir í ljós að ekki sé allt með felldu þá hefur hún möguleika á að koma í veg fyrir þennan tilflutning aflaheimildanna til þess sem leigir til sín. Þar með held ég að hægt verði að setja þrýsting á að menn fari að öllum lögum og samningum.