Verðlagsstofa skiptaverðs o.fl.

Mánudaginn 26. febrúar 2007, kl. 18:22:11 (5398)


133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

Verðlagsstofa skiptaverðs o.fl.

644. mál
[18:22]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þingmaður þyrfti að lesa það sem segir í framhaldinu. Þar segir í athugasemdunum:

„Þá er lagt til að við málsgreinina verði bætt ákvæðum þess efnis að leiði athugun Verðlagsstofu skiptaverðs í ljós að útgerð skips hafi ekki gert upp við skipverja samkvæmt samningum um fiskverð skuli stofan ekki staðfesta fiskverðssamning gagnvart Fiskistofu …“ — o.s.frv.

Þarna er verið að árétta að Verðlagsstofu verði fært þetta vald og það sett í lög að Verðlagsstofa skuli gera sérstakar athuganir á því hvort farið sé eftir þeim fiskverðssamningum sem hafa verið kynntar Verðlagsstofunni. Þar liggur hundurinn grafinn. Menn hafa bent á að þar kunni að hafa verið einhverjir annmarkar á, að menn hafi ekki kannað nægilega hvort þeir fiskverðssamningar sem var framvísað og lagðir voru til grundvallar hafi verið virtir. Það er verið að styrkja þetta ákvæði varðandi Verðlagsstofuna. Það hefur verið álitamál hversu langt Verðlagsstofan mætti ganga í þessu eftirliti. Þarna eru tekin af öll tvímæli um það og við færum henni aukið vald í samræmi við óskir sjómanna og útvegsmanna.