Verðlagsstofa skiptaverðs o.fl.

Mánudaginn 26. febrúar 2007, kl. 18:23:33 (5399)


133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

Verðlagsstofa skiptaverðs o.fl.

644. mál
[18:23]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Með þessu frumvarpi skilst mér að tryggja eigi að sjómenn eigi ekki að taka þátt í leigu aflaheimilda. Ég held að það sé ekki spurning um hvort slíkt skerði kjör sjómanna. Ef menn líta á þær stærðir sem um er rætt þá eru þetta 10 milljarðar kr. á ári og auðvitað tekið af því sem kemur til skipta.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort þetta snerti að einhverju leyti þá sjómenn sem eru án kjarasamninga, þ.e. sjómenn á bátum sem eru undir 15 tonn. Ég get ekki séð að það skipti nokkru máli fyrir þá hvort þetta frumvarp gangi í gegn eða ekki þar sem þar eru engir kjarasamningar og því engar reglur um skiptaprósentu.