Verðlagsstofa skiptaverðs o.fl.

Mánudaginn 26. febrúar 2007, kl. 18:24:37 (5400)


133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

Verðlagsstofa skiptaverðs o.fl.

644. mál
[18:24]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að þetta frumvarp snertir ekki þau mál sem snúa að minni bátum. Það er rétt. Þeir eru án kjarasamninga. Á Alþingi hafa menn hvatt til þess, bæði ég, hv. þingmaður og aðrir, að eðlilegt væri að hafa þarna kjarasamninga í gildi. Það er á vissan hátt forsenda fyrir því að hægt sé að taka á þessum málum að kjarasamningar séu í gildi.

Á sínum tíma þegar lögin um Verðlagsstofu skiptaverðs voru sett voru þau sett miðað við kjarasamninga útvegsmanna og sjómannasamtakanna. Þau tóku til þeirra báta þar sem kjarasamningar eru í gildi. Reyndar háttar öðruvísi til um þessa báta en ég tel hins vegar ekki eðlilegt af hálfu Alþingis að hlutast til um þá kjarasamninga að öðru leyti en því að við getum haft á því skoðun að gera eigi slíka samninga. En ég tel ekki að við eigum að ákveða það með lögum.