Verðlagsstofa skiptaverðs o.fl.

Mánudaginn 26. febrúar 2007, kl. 18:27:02 (5402)


133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

Verðlagsstofa skiptaverðs o.fl.

644. mál
[18:27]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef það ekki á hraðbergi hve hátt hlutfall leiguviðskipta hefur gengið í gegnum þá krókaaflamarksbáta sem hv. þingmaður vísar til. Ég hef þær tölur ekki handbærar en menn geta aflað sér upplýsinga um það.

Það er alveg rétt að það hlutfall hefur verið að aukast, einfaldlega vegna þess að við tókum um það pólitíska ákvörðun að færa fiskveiðiréttinn í auknum mæli til smábáta. (SigurjÞ: Nei.) Við vildum koma til móts við þarfir byggðanna.

Ég tel hins vegar, virðulegi forseti, ekki að þetta sé eitthvert aukaatriði. Það hef ég aldrei sagt. Það sem ég hef einfaldlega sagt er, sem ég hélt að væri almenn skoðun í þessu þjóðfélagi en hv. þingmaður hefur nú staðfest að hann hefur aðra skoðun, að hér ætti að vera ríkjandi frjáls samningsréttur og það væri hlutverk útvegsmannanna og sjómannanna, í þessu tilviki á smábátunum, að reyna að ná samningum. Ég hef ekki talið tilefni til að Alþingi mundi ákveða það með lögum en það getur vel verið að aðrir hafi aðra skoðun. Hv. þingmaður telur t.d. að það eigi að skipa þessum samningamálum með lögum og Alþingi eigi að hafa beinan atbeina að því. Hann segir það núna og hann hefur sagt það áður. Ég er einfaldlega ósammála honum. Ég geri ráð fyrir að það séu flestir hér inni.