Verðlagsstofa skiptaverðs o.fl.

Mánudaginn 26. febrúar 2007, kl. 18:30:11 (5404)


133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

Verðlagsstofa skiptaverðs o.fl.

644. mál
[18:30]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil ekki taka svo djúpt í árinni sem hv. þingmaður, að aðilar hafi verið meira og minna lögbrjótar í þessu sambandi. Ég held að það sé ekki svo. Eins og ég sagði í fyrra andsvari held ég að almennt séð fari menn að lögum og reglum. Þessar ábendingar hafa hins vegar komið fram, m.a. héðan úr þingsal, úr þessum ræðustóli þar sem hvatt hefur verið til þess að reynt yrði að taka á þessu máli. Það sem verið er að gera hér er að reynt er að styrkja eftirlitshlutverk Verðlagsstofu skiptaverðs.

Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að heilmiklar heimildir hafa verið fyrir Verðlagsstofu skiptaverðs til að koma að þessum málum. En þegar menn fóru að fara yfir þetta, m.a. þeir sem búa við þetta, þ.e. sjómenn og útvegsmenn, þá komust þeir að þeirri niðurstöðu, og það var niðurstaða okkar í ráðuneytinu, að ekki væru til staðar nægilega öflug ákvæði í lögunum sem tryggðu það að Verðlagsstofa skiptaverðs gæti haft það eftirlitshlutverk sem henni er ætlað, þ.e. að fylgjast með því að fiskverðssamningum sem hefði verið framvísað væri síðan fylgt. Það er þetta sem verið er að setja hér inn.

Ég er ekki að draga úr því að verðlagsstofulögin hafa á margan hátt virkað vel. Þau hafa gert það. Það hefur t.d. komið fram hjá forustumönnum sjómanna að þeir telja að brögðin að því að menn séu að taka ólöglega þátt í kvótakaupum hafi minnkað, slíkum tilvikum hafi fækkað. Það er vonandi svo og ég hef enga ástæðu til að draga það í efa.

En ef það er skoðun þeirra sem vinna í þessu frá degi til dags að þau tilvik kunni að vera sem ég er að vísa til, þá er það skylda okkar sem viljum að farið sé eftir lögunum að reyna að styrkja þær eftirlitsstofnanir sem hafa það hlutverk að fylgjast með þessu. Það er það sem verið er að gera. Það er ekki verið að setja þetta fram út í loftið. Það er verið að gera þetta að gefnu tilefni vegna þess að við teljum að það sé nauðsynlegt og það sé skylda Alþingis í þessu sambandi að búa til þau tæki svo að sú eftirlitsstofnun sem menn komu sér saman um á sínum tíma að ætti að fylgjast með þessu, hefði þau tæki og (Forseti hringir.) þau tól sem þyrftu og dygðu til að taka á máli þar sem verið er að beita hugsanlega rangindum.