Verðlagsstofa skiptaverðs o.fl.

Mánudaginn 26. febrúar 2007, kl. 18:32:29 (5405)


133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

Verðlagsstofa skiptaverðs o.fl.

644. mál
[18:32]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það sem ég velti fyrir mér er hvort þessar heimildir í sjálfu sér hafi verið það sem skorti. Mér sýnist það bara vera framkvæmd laganna. Ég held að hæstv. ráðherra verði að upplýsa okkur um það hversu mikið af lögbrotum hefur verið hvað þetta varðar með vísan til setningarinnar sem ég vitnaði til áðan, með leyfi forseta:

„Nokkur brögð munu þó hafa verið að því að útgerðir hafi ekki gert upp við áhafnir í samræmi við gerða samninga um fiskverð …“

Verið er að staðhæfa í raun að þarna hafi verið framkvæmd lögbrot. En útgerðum er nú farið að fækka hér á landi þannig að ekki er um margar útgerðir að ræða sem hafa verið að iðka lögbrot. Ég tek alveg undir með hæstv. ráðherra að styrkja þarf lagagrunninn til þess að menn brjóti ekki lög. En það hefur nú bara svo oft verið í framkvæmd þessara fiskveiðilaga að menn virðast (Forseti hringir.) hafa komist upp með ýmislegt sem hefur verið á kant við lög og svo virðist einnig hafa verið hér ef marka má texta (Forseti hringir.) frumvarpsins.