Verðlagsstofa skiptaverðs o.fl.

Mánudaginn 26. febrúar 2007, kl. 18:36:26 (5407)


133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

Verðlagsstofa skiptaverðs o.fl.

644. mál
[18:36]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Við ræðum breytingu á tvennum lögum. Við erum með frumvarp til laga annars vegar um breytingu á lögum nr. 13/1998, um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna, og hins vegar frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

Það er rétt sem fram hefur komið hjá hæstv. sjávarútvegsráðherra að allir þeir sem fylgst hafa með því hvernig leigumarkaður hefur þróast og hvernig þau viðskipti hafa gengið fyrir sig telja mjög mikilvægt að eftir þeim reglum sem um þann markað gilda verði farið þannig að algerlega verði komið í veg fyrir að sjómenn séu látnir taka þátt í kvótakaupum með öllum tiltækum ráðum. Það getur vel verið að það þurfi að styrkja heimildir Verðlagsstofu skiptaverðs frá því sem núverandi lög kveða á um. Þó, eins og áður hefur komið fram, eru heimildirnar ansi víðtækar í lögunum sem nú gilda og maður veltir því fyrir sér hvort þetta hafi kannski ekki að einhverju leyti frekar verið spurning um framkvæmd þeirra laga sem gilda en að þörf sé á lagabreytingu eins og hér er verið að leggja fram. Ég er þó fullkomlega tilbúinn til þess að taka þátt í því að styrkja orðalag greina. Ef einhver hefur verið að velkjast í vafa um hver tilgangur greinanna væri eða orðanna sem þar stæðu og telur að styrkja þurfi greinarnar er ég svo sem alveg tilbúinn til að taka þátt í því, því það misbýður réttlætiskennd held ég flestra sem fylgjast með ef talsvert er um það að sjómenn séu látnir taka þátt í kvótakaupum á þeim bátum þar sem verið er að leigja aflaheimildir til að geta farið á sjó og fiskað.

Ég ætla að reyna að halda mig að mestu leyti við frumvarpið eins og það liggur fyrir þó auðvelt væri að fara út um víðan völl og ræða sjávarútvegsmálin vítt og breitt. Ég held að efni greinanna sem hér eru og þess frumvarps sem hér liggur fyrir sé í raun alveg nægjanlegt þó að maður haldi sig við það til að halda þá ræðu í þann tíma sem heimilt er samkvæmt þingsköpum.

Það er nú einu sinni þannig með kvótaleiguna að sjómenn hagnast ekki á því á nokkurn hátt ef verið er að fara í kringum lögin sem um hana gilda. Það eru heldur ekki útgerðarmenn þeirra báta sem eru að leigja til sín sem hagnast á því að fara í kringum lögin, ef það er gert, heldur mun þetta alltaf enda í kvótaleiguverðinu. Sá sem er að leigja frá sér nýtur þess því í raun í krónum og aurum ef á einhvern hátt á síðari stigum er farið í kringum lögin því leigumarkaður á aflaheimildum er seljendamarkaður og kaupendur ráða þar ansi litlu og verðið sem hægt er að borga fyrir heimildirnar er alltaf í þeim hæsta mögulega toppi sem um ræðir hverju sinni miðað við fiskverð. Ef verið er að svindla á einhvern hátt á því hvernig þetta er framkvæmt mun það einfaldlega skila sér í hærra leiguverði til þeirra sem leigja frá sér heimildir. Í raun má því segja að ef einhverjir svindla á þessu eru þeir eingöngu að gera það fyrir þá sem leigja frá sér kvóta. Þeir njóta ekki ávaxtanna af því svindli heldur eru eingöngu að taka þátt í því til að vera samkeppnisfærir í að borga þetta háa leiguverð sem nú gildir á markaðnum.

Í lögunum eins og þau standa í dag eru heimildir til þess að Verðlagsstofa skiptaverðs geti krafist upplýsinga frá útgerðum og öðrum en í lögin er verið að bæta núna að ekki eingöngu sé hægt að krefjast upplýsinga heldur líka gagna. Ég átta mig ekki alveg á muninum á þessu tvennu, hvort, eins og lögin hafa staðið hingað til, þeir sem eiga að leggja fram upplýsingar samkvæmt lögunum hafa á einhvern hátt getað þverskallast við því vegna þess að í lögunum hefði ekki staðið orðið gögn heldur eingöngu upplýsingar. Ef hæstv. ráðherra hefur einhver dæmi um það og ástæðuna fyrir því að verið er að bæta orðinu „gögn“ í lagatextann til viðbótar við upplýsingar væri gott að fá að heyra um það því maður áttar sig ekki alveg á því hvers vegna breytingin þarf að koma til.

Í 1. gr. er talað um að upplýsingar og gögn megi einungis nýta vegna úrskurðar í einstökum málum eða til að undirbúa ákvarðanir sem Verðlagsstofa skiptaverðs tekur samkvæmt ákvæðum 3. mgr. 15. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, þ.e. heimildirnar sem verið er að tala um núna, að hún eigi að fylgjast með því að gert sé upp samkvæmt samningum. Ég hefði haldið þegar maður les í gegnum lögin um Verðlagsstofu skiptaverðs að heimildirnar hefðu allar í raun legið fyrir vegna þess að í 6. gr. segir að Verðlagsstofa skiptaverðs skuli m.a. með úrtakskönnunum fylgjast með því að við uppgjör á aflahlut áhafna sé lagt til grundvallar raunverulegt söluverðmæti. Í orðunum hlýtur m.a. að felast að það megi gera eitthvað annað líka þannig að ekki eingöngu hafi verið heimild til úrtakskannana heldur sé líka heimilt að skoða einstök dæmi.

Í 6. gr. segir að telji Verðlagsstofa misræmi milli gagna og söluverðmætis afla og þess verðs sem uppgjör við áhöfn hefur miðast við og fram komnar skýringar ekki fullnægjandi skuli hún tilkynna það og fara með það fyrir úrskurðarnefnd. Í raun hefur því Verðlagsstofa skiptaverðs átt að fylgjast með því að ekki eingöngu væru lagðir fram samningar heldur líka að greitt væri samkvæmt þeim. Ég get ekki lesið 6. gr. öðruvísi.

Síðan komum við að 3. gr. í II. kafla. Þar er breyting á öðrum lögum, um stjórn fiskveiða. Ég var í stuttu andsvari áðan að reyna að óska eftir upplýsingum frá hæstv. ráðherra um það hvað þarna væri á ferðinni og fannst ég ekki fá nægilega skýr svör við því. Í lögunum í dag, í 15. gr. laga nr. 116/2006, stendur skýrum stöfum að áður en Fiskistofa staðfestir flutning aflamarks til fiskiskips skal stofnunin fá staðfestingu Verðlagsstofu skiptaverðs um að fyrir liggi samningur útgerðar og áhafnar um fiskverð til viðmiðunar hlutaskiptum. Hann skal uppfylla kröfur Verðlagsstofu skiptaverðs sem gerðar eru samkvæmt ákvæðum laga nr. 13/1998, um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna.

Í 3. gr. eins og verið er að taka hana upp núna stendur þetta nákvæmlega eins. Það er engin breyting á þessum texta. Fiskistofa hefur því ekki getað staðfest flutning aflamarks til fiskiskips samkvæmt þeim lögum sem nú gilda fyrr en staðfesting Verðlagsstofu skiptaverðs hefur legið fyrir. Því átta ég mig ekki enn á því af hverju í athugasemdum með frumvarpinu er sagt að verið sé að breyta lögunum til samræmis við einhverja framkvæmd sem verið hefði en hefði þó ekki haft lagastoð. Það er því spurning hvort þarna sé einhver hringur kominn upp sem einhver textahöfundur hefur flækt sér í eða hvort ég er að misskilja þetta á einhvern hátt, en þetta er nákvæmlega sami texti og er í lögunum.

Síðan er, eins og hæstv. ráðherra sagði, verið að bæta við heimildinni um það að leiði athugun Verðlagsstofu skiptaverðs í ljós að útgerð skips hafi ekki gert upp við skipverja í samræmi við samning um fiskverð skal stofan þó ekki veita staðfestingu sína nema úr því hafi verið bætt eða hlutaðeigandi útgerð hafi sett fullnægjandi tryggingu fyrir réttu uppgjöri.

Nú er ég eiginlega hættur að skilja aftur. Skipið má ekki fara á sjó og veiða fyrr en aflamark hefur verið flutt á það og ekki má flytja aflamark á það fyrr en Fiskistofa hefur fengið staðfestingu Verðlagsstofu skiptaverðs um það að samningur liggi fyrir. Ef samningur liggur fyrir þá veitir Verðlagsstofa skiptaverðs staðfestinguna ef samningurinn uppfyllir þau skilyrði sem lögin gera ráð fyrir og skipið fer á sjó og byrjar að veiða. Eftir á getur Verðlagsstofa skiptaverðs ekki komið og svipt skipið þeirri heimild sem Fiskistofa var búin að veita því á grundvelli samningsins. Það eina sem nýja ákvæðið gerir er að í framhaldinu ef flutt er aftur eða á nýjan hátt aflamark á sama skip og það er sama áhöfn og allt slíkt, þá gæti Verðlagsstofa neitað að staðfesta flutninginn á aflamarkinu yfir á skipið. En ég get ekki séð hvernig hún ætlaði að gera það eftir á varðandi þann samning sem gerður var og staðfestur var og þætti vænt um það ef hæstv. ráðherra gæti útskýrt það fyrir mér.

Einnig leikur mér forvitni á að vita eftir að hafa lesið í gegnum lögin um Verðlagsstofu skiptaverðs eins og þau eru núna og eins eftir að hafa lesið í gegnum 15. gr. í lögunum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, hvernig heimildirnar eru meiri núna en þær voru í lögunum sem ég var að vitna til því textinn í þeim lögum, bæði lögunum nr. 13/1998, um Verðlagsstofuna og síðan 15. gr. í lögum um stjórn fiskveiða, eru heimildir Verðlagsstofu eftir orðanna hljóðan ansi ótvíræðar til þess í fyrsta lagi að tryggja það að fyrir liggi samningur og í öðru lagi að samningurinn uppfylli þau skilyrði sem Verðlagsstofa setur og hefur líka heimildir, eins og í 7. gr., að kanna hvort fiskverð við uppgjör og aflahlut áhafnar sé í verulegum atriðum frábrugðið því sem algengast er við sambærilega ráðstöfun afla, eins og segir í lögunum, á viðkomandi landsvæði að teknu tilliti til stærðar og gæða. Skal Verðlagsstofa skiptaverðs taka málið til sérstakrar athugunar, segir í 7. gr., ef hún kemst að því að uppgjör hafi vikið í verulegum atriðum frá því sem algengast er og væntanlega frá þeim samningi sem lagður hefur verið fram því að hún hefði ekki staðfest samninginn í upphafi nema vegna þess að hann væri í dúr og moll við það sem hefur verið að gerast á því svæði sem samningurinn tekur til um þann afla sem um ræðir, stærð, gæði o.s.frv.

Ég átta mig því ekki alveg á þörfinni fyrir því að breyta lögunum eins og hér er verið að gera þó svo, eins og ég sagði í upphafi máls míns, ég sé að sjálfsögðu tilbúinn til þess bæði hér og eins í hv. sjávarútvegsnefnd að styrkja grunninn undir það að Verðlagsstofa skiptaverðs hafi þær heimildir sem hún þarf ef það er raunin. En ég er ekki sannfærður um að það frumvarp sem hér liggur fyrir og þær breytingar sem verið er að leggja til bæti í raun miklu við þær heimildir sem liggja nú þegar fyrir í lögunum.

Síðan komum við alltaf að því hvað er eðlilegt fiskverð og hvað er samningur sem uppfyllir skilyrði sem Verðlagsstofa skiptaverðs setur. Jafnvel þó maður lesi í gegnum lögin eins og þau eru í dag og þær breytingar sem verið er að leggja til er ekki mjög auðvelt að átta sig á því nákvæmlega eftir hverju Verðlagsstofa á að fara þegar hún segir: Jú, fiskverðið sem fyrir liggur í samningnum er nægjanlega gott eða nægjanlega hátt til þess að við getum staðfest samninginn. Hann uppfyllir þau skilyrði sem við setjum. Væri ekki nær að horfa í meira mæli til fiskmarkaðanna þar sem verð myndast á frjálsum forsendum þar sem kaupendur koma og leggja upp sinn afla? Seljendur mæta þar einnig og vega og meta aflann eins og hann liggur fyrir og ákveða að hægt sé að greiða þetta verð fyrir þennan afla á þessum tiltekna degi. Auðvitað veit ég að eins og ástandið hefur verið á fiskmörkuðum að þá eru fiskmarkaðirnir líka ákveðinn seljendamarkaður eins og leiguheimildirnar eru óumdeilanlega sem þýðir að það getur einhver bjögun verið á verðinu sem myndast á fiskmarkaðnum á hverjum tíma í þá átt að þar sem skortur er á fiski greiði menn hærra verð en í raun sé hægt að segja að sé eðlilegt og sanngjarnt fyrir þann fisk sem verið er að bjóða og það verð sem fæst síðan fyrir afurðirnar. Þetta er þó eini punkturinn þar sem sjómenn og útgerðarmenn koma annars vegar frá og fiskverkendur og kaupendur hinum megin frá og ákvarða með frjálsum hætti að þetta sé það verð sem þeir eru tilbúnir að borga fyrir þennan tiltekna fisk á þessum tiltekna degi miðað við þær aðstæður sem ríkja í greininni.

Samningarnir sem Verðlagsstofa er að staðfesta eru væntanlega oft og tíðum talsvert lægri en markaðsverðið. Ef menn telja að það sé einhver bjögun á markaðnum vegna þess að það sé seljendamarkaður en ekki kaupendamarkaður, hvern telja menn þá vera eðlilegan mun á því verði sem þar myndast og því verði sem Verðlagsstofa skiptaverðs samþykkir fyrir sitt leyti þegar samningar eru lagðir fram? Ég held að þarna sé ákveðið einstigi sem erfitt sé að feta og erfitt fyrir úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna að komast að niðurstöðu oft og tíðum um hvað geti verið eðlilegt og sjálfsagt verð. Mér er ekki kunnugt um það og hafði ekki tíma til þess í dag að afla mér gagna en hæstv. ráðherra veit kannski hve mikið var um það að samningum væri skotið til úrskurðarnefndar af hálfu Verðlagsstofu skiptaverðs á síðasta fiskveiðiári vegna þess að hún var ekki sátt við samningana eins og þeir lágu fyrir og hversu margir úrskurðir voru kveðnir upp á grundvelli laganna sem við tölum um að breyta og hvort þeir úrskurðir hafi fallið á einhvers konar oddaatkvæðum í öllum tilvikum eða hvort menn hafi komist að samkomulagi um að ákveðið fiskverð væri hið rétta á ákveðnu svæði miðað við verð, gæði og slíkt.

Ég held að það sé afar mikilvægt þegar við horfum á leigumarkaðinn sem hér er verið að fjalla um þar sem útgerðir sem annaðhvort eiga kvóta og leigja til sín viðbót eða útgerðir sem ekki eru með kvóta á sínum skipum og leigja allt til sín eru á markaði sem engin leið er í raun að tala um öðruvísi en fákeppnismarkað og markað sem ég held að í flestum tilvikum yrði litið á í öllum öðrum viðskiptum sem samráðsmarkað og markað sem samkeppnishömlur væru ríkjandi á því verðmyndunin á markaðnum lýtur ekki miklum markaðslögmálunum eða breytist til eða frá. Það er sama verð hjá öllum og það er sama verðþróun hjá öllum. Það virðist vera eins og leigan sem menn krefjast hverju sinni sé alltaf eins. Ég er hræddur um að það væru komnar upp háværar raddir í öðrum atvinnugreinum um samráð og brot á samkeppnislögum ef þetta væri raunin annars staðar, að einhver hópur atvinnurekenda sem væri með ákveðna vöru til leigu eða sölu væri að fara í gegnum tiltölulega fáa aðila sem samræmdu verðið fyrir alla sem vildu kaupa. Það er spurning hvort þetta geti á nokkurn hátt samræmst því sem við köllum eðlilega viðskiptahætti á Íslandi í dag.

Ég held að ef menn í alvöru taka orðið fiskur út úr jöfnunni og taka orðið fiskur út úr atvinnugreininni sem á sér stað með kvótaleiguna og setja eitthvað annað í staðinn, hvort sem það er bílaleiga, leiga á húsum eða sala á einhverri vöru mundu allir sjá hversu undarlegur þessi markaður er. Mér þætti vænt um að hæstv. ráðherra gæti tjáð sig eitthvað um það í umræðunni því við erum í raun að tala um hvernig við eigum að koma böndum á leigumarkaðinn, hvort hann telji aðstæður á markaðnum lúta eðlilegum viðskiptalögmálum og hvort hann telji verðmyndun á markaðnum uppfylla ákvæði samkeppnislaga og uppfylla þær kröfur sem við gerum um gegnsæi og kröfur sem við gerum um að ekki séu samráð á markaði sama hvaða nafni hann nefnist.