Verðlagsstofa skiptaverðs o.fl.

Mánudaginn 26. febrúar 2007, kl. 18:56:32 (5408)


133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

Verðlagsstofa skiptaverðs o.fl.

644. mál
[18:56]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Við ræðum nú lítið frumvarp frá hæstv. sjávarútvegsráðherra en hann leggur fram frumvörp um litlar bætur á handónýtt kerfi, algerlega handónýtt kerfi. Það er hlutskipti hæstv. ráðherra, manns sem hefur verið að gagnrýna kerfið síðan hann byrjaði að taka þátt í stjórnmálum. Svo þegar hann fær völd og er orðinn hæstv. sjávarútvegsráðherra kemur hann með litlar bætur sem eru ekki eitt né neitt. Hv. þm. Jón Gunnarsson rakti þetta í ágætri ræðu. Hann fór í gegnum það að þetta litla frumvarp bætir í engu það réttarástand sem ríkir nú þegar og þess vegna furðar maður sig á svona frumvarpi. Einnig kom fram í andsvörum að þetta nær ekki til þeirra sjómanna sem vinna á minnstu bátunum og taka örugglega mikinn þátt í þessum leiguviðskiptum og þessar gríðarlega háu upphæðir sem renna út úr atvinnugreininni í formi leigu skerða hlut þeirra.

Hæstv. ráðherra tekur ekkert á grundvallaratriðunum. Hann kemur bara með litla bót. Það er hlutskipti hans. Mér finnst það reglulega aumt. — Ég sé að hæstv. ráðherra er farinn úr salnum vegna þess að hann virðist ekki þola þessa umræðu. — Kerfið sem við erum að ræða, sem þessi bót er á, var hannað til að byggja upp fiskstofna, það var hannað til þess, en núna sitjum við uppi með helmingi minni þorskafla en fyrir daga kerfisins. Það var líka hugsað til að tryggja byggð í landinu. Ef hæstv. ráðherra fer um sína heimabyggð og um Vestfirði alla og víðar um landið sér hann að höggvin hafa verið djúp skörð í byggðirnar og í staðinn fyrir að skoða hvort hægt sé að gera eitthvað öðruvísi, eins og við í Frjálslynda flokknum höfum ítrekað bent á, kemur hann með litla bót. Bót sem er ekki eitt né neitt og það hefur komið fram í andsvörum og maður furðar sig á þessu. Hlutskipti hæstv. ráðherra er gríðarlega aumt, hann sem hefur verið einn aðalgagnrýnandi kerfisins og er nú kominn í aðstöðu til að breyta og bæta en gerir þá nánast ekki neitt.

Menn þurfa ekkert að velkjast í vafa um það hvort þessi leiguviðskipti skerði hlut sjómanna. Það hefur komið fram að út úr þessu kerfi renna í kringum 10 milljarðar árlega í formi leigugjalds og síðan við sölu aflaheimilda hafa skuldir útgerðarinnar hækkað gríðarlega. Menn segja að skuldirnar hafi aukist á síðasta áratug um upphæð sem svarar til tveggja Kárahnjúkastíflna. Það er ekki að sjá, frú forseti, að það komi fram í miklum fjárfestingum í atvinnugreininni heldur er atvinnugreinin skuldugri en áður. Svo kemur Sjálfstæðisflokkurinn með frumvarp sem á að leysa málið með því að koma á virkara eftirliti, einhverju eftirliti með samningum. Við í Frjálslynda flokknum viljum leysa þetta á einfaldan hátt og það er að fiskurinn fari á markað. Ef fiskurinn fer á markað tryggir það að greitt sé rétt verð eða það verð sem er á markaði á hverjum degi.

Ef aðskilnaður verður á milli veiða og vinnslu eru hagsmunir útgerðarmanna og sjómanna samtvinnaðir og ekki þarf að vera með eftirlitskerfi. Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að leysa þessi mál í sjávarútveginum með eftirliti, eftirliti með kjarasamningum, eftirliti með því að ekki sé brottkast, í stað þess að breyta reglunum. Það er miklu eðlilegra að breyta reglunum. Við teljum að það eigi að auka frelsið í þessari atvinnugrein. Það kerfi sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur komið upp, kvótakerfið, byggir á einhverjum hugmyndafræðilegum kenningum um að eignarrétturinn tryggi að einhverju leyti hagkvæma nýtingu auðlinda, ef þær verði einkaeign verði nýtingin hagkvæmari. Þeir gleyma því að þetta verður að öllum líkindum og alltaf sameign. Hér er um að ræða sameign einkaaðila á auðlind sem er alls ekki þannig að hún sé eins og fiskabúr heldur er þar um flókið lífríki að ræða með mörgum fiskimiðum. Það er ekki það sama. Þegar menn eru dottnir inn í þann hugsanagang sem er í íslenska kvótakerfinu getur það kannski gengið upp út frá lagatæknilegu sjónarmiði og mögulega út frá stjórnsýslulegu sjónarmiði en að ætla að stjórna fiskveiðum á mörgum mismunandi fiskimiðum hringinn í kringum landið með einum heildarkvóta er tóm della. Menn ættu að vera farnir að sjá það og auðvitað vita menn það en forðast að ræða það.

Ég furða mig á því að við séum að koma með enn eina bótina á vont kerfi. Þetta er glórulaus vitleysa. Ég þakka hv. þm. Jóni Gunnarssyni fyrir að koma auga á það að þetta er engin breyting. Hæstv. sjávarútvegsráðherra fór undan í flæmingi við að útskýra að einhver breyting yrði við þetta. Það verður engin breyting. Eins verður engin breyting hvað það varðar að þetta nær ekki til smábátanna. Hæstv. sjávarútvegsráðherra svaraði því þannig að það mátti skilja að hann væri ekki þannig maður að hann setti lög um kjör manna, þegar ég ræddi þá staðreynd að sjómenn á minnstu bátunum væru án kjarasamnings, menn ættu að semja um þau á frjálsum markaði og það væri ekki hlutverk okkar að þvinga það fram að fólk í landinu byggi við kjarasamninga, það væri ekki hlutverk alþingismanna. Hér ætti að vera frelsi á atvinnumarkaði. Auðvitað ætti það að vera þannig en ég minni hæstv. sjávarútvegsráðherra á það að ég man ekki betur en að hann hafi einmitt tekið þátt í lagasetningu á sjómenn í kjaradeilum. Þá var hann ekki of góður til að setja lög á kjaradeilu sem menn áttu auðvitað að sjá að rétt væri að leysa með frjálsum samningum. Ég tel það ástand sem nú ríkir algerlega óviðunandi. Ég minni á að það þótti ekki hæfa að blaðburðarbörn væru án nokkurra samninga en hæstv. sjávarútvegsráðherra finnst ekkert eðlilegra en að þetta ástand haldi áfram. Ég er ósammála því. Ég tel að stjórnvöld eigi að grípa inn í og verði að þrýsta á um að þarna verði breyting á.

Sjálfstæðismenn virðast á einhvern hátt sjá ofsjónum yfir kjörum sjómanna. Ég minni á að í upphafi þessa kjörtímabils lagði núverandi hæstv. forsætisráðherra fram frumvarp um að skerða sjómannaafsláttinn en var síðan gerður afturreka með það frumvarp. Hann tók það sérstaklega fram að ef hann fengi að ráða, og hann hefur nú ekki skipt um skoðun hvað þetta varðar, mundi hann skerða kjör sjómanna og taka þennan skattafslátt af. Í þessu máli kristallast í raun afstaða Sjálfstæðisflokksins.

Við leysum ekki þessi mál eins og Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að leysa þau, það óréttlæti sem ríkir hjá þeim sem stunda sjósókn, með einhverju eftirlitskerfi heldur með því að breyta leikreglunum. Þó svo að þetta frumvarp nái til þeirra sem leigja til sín aflaheimildir er rétt að minna á að það ríkja einnig ákveðin vandamál með skiptakjör þeirra sjómanna sem eru á föstum samningum sem þetta frumvarp nær ekki til og það er varðandi það hvort mat kaupanda sem er sami aðili og útgerðarmaðurinn endurspegli raunverulegan afla. Ég er ekki viss um að við leysum það mál með því að auka eftirlit eins og Sjálfstæðisflokkurinn vill gera, með því að koma á miklu eftirlitskerfi í frystihúsum og kanna hvort þeir aðilar sem eru að kaupa af sjálfum sér vigti rétt eða flokki aflann rétt. Maður heyrir það hjá sjómönnum að það sé misbrestur á því, að afli sem er að meðaltali 6 kíló verði þegar kaupandinn, sem er að kaupa af sjálfum sér, er búinn að vigta hann kannski 3,5 kíló. Við leysum þetta ekki með því að auka eftirlit, alls ekki, heldur með því að breyta reglunum þannig að aðskilja veiðar og vinnslu og koma fiski á markað.

Svo virðist sem sjálfstæðismenn megi ekki heyra á það minnst að eðlileg markaðslögmál gildi í þessum viðskiptum. Það er af og frá. Í umræðum fyrr í vetur var ég með fyrirspurn til hæstv. ráðherra um það hvort hann hefði gert eitthvað með úrskurð samkeppnisráðs, nr. 2 frá árinu 2000, er varðar aðstöðumun fiskvinnslu sem væri ekki tengd við útgerð og þeirra sem eru í tengslum við útgerð. Hann hafði ekkert gert, frú forseti, hann hafði nákvæmlega ekkert gert. Þó voru liðin sjö ár. Hann vitnaði til þess að einhverju leyti að hann hefði verið stutt í embætti og því væri fróðlegt að vita hvort hann hefði gert eitthvað á þeim mánuðum sem liðnir eru frá því að ég bar upp þessa fyrirspurn. Ég efast um það vegna þess að hlutverk hæstv. sjávarútvegsráðherra er einfaldlega, eins og maður segir, að vinna í þessu kerfi og frekar að breiða yfir misfellurnar og ef spurt er um rök fyrir einhverju er jafnvel vitnað í reglur í staðinn fyrir að finna gild rök fyrir vitleysunni.

Við í Frjálslynda flokknum viljum fara út úr þessu kerfi, út úr kerfi þar sem afli sem veiðist t.d. í Faxaflóa er dreginn frá því sem má veiða á Austfjörðum. Þetta er arfavitlaust, þetta er alger þvæla, frú forseti. Að við skulum sitja uppi með svona kerfi árið 2007 er sárgrætilegt. Við viljum einfaldlega auka frelsið neðar í kerfinu og leyfa handfæraveiðar eins og þær hafa verið leyfðar um aldir, að vera ekki með þessi boð og bönn en athuga heldur hvort ekki sé hægt að breyta reglunum þannig að ekki skapist þörf fyrir þetta gríðarlega eftirlit. Eins viljum við losa um þetta kerfi með því að tryggja að eðlileg markaðslögmál fái að gilda í þessum viðskiptum.

Hugsið ykkur, að það skuli þurfa að draga hæstv. ráðherra Sjálfstæðisflokksins í þá vinnu að láta eðlileg markaðslögmál gilda í viðskiptum. Mér finnst það ótrúlegt. Við höfum samt séð það fyrr að flokkurinn er viðkvæmur ef talið berst að samkeppnismálum en það er kannski ekki rétt að fara mikið út á þær brautir í þessari umræðu. Mér finnst samt sem áður þetta hlutskipti hæstv. sjávarútvegsráðherra aumt, að halda svona fast í kerfi sem gengur ekki upp, hefur ekki gengið upp og mun ekki ganga upp, í stað þess að reyna að koma á eðlilegum leikreglum þar sem markaðslögmál gilda. Það er einfaldlega miklu skynsamlegra en að koma á einhverju eftirlitskerfi ríkisstofnana. Við erum með Fiskistofu sem hefur yfir að ráða hátt í milljarð og síðan eftirlit í höfnum landsins. Það er nóg komið. Það er miklu nær að líta á það hvernig einfalda megi kerfið og gera það sanngjarnara til að ná árangri. Þetta er ekki leiðin til þess.

Ég spái því að þetta frumvarp verði ekki til þess að snúa þeirri óheillaþróun við sem hefur verið í sjávarútveginum og að opna fyrir nýliðun og tryggja betur kjör sjómanna en verið hefur. Til þess þarf einfaldlega að skipta um ríkisstjórn. Það hefur sýnt sig að þeir sem hafa verið gagnrýna kerfið — og ég trúi í raun að hæstv. ráðherra sjái að það er ekki allt gott við þetta kerfi — eru einfaldlega kveðnir í kútinn innan Sjálfstæðisflokksins. Þeir fá ekki að koma með tillögur, það kemur bara svona málamyndatillaga sem er hvorki eitt né neitt.