Verðlagsstofa skiptaverðs o.fl.

Mánudaginn 26. febrúar 2007, kl. 19:12:11 (5409)


133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

Verðlagsstofa skiptaverðs o.fl.

644. mál
[19:12]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Við erum að ræða um talsvert mikið grundvallaratriði í framkvæmd sjávarútvegsstefnunnar í heild sinni. Við erum annars vegar að ræða um tilfærslur á aflaheimildum og aflamark og hins vegar verðmyndunarþáttinn, undirstöðu undir uppgjör sjómanna, þ.e. hvaða heildarverð fæst fyrir aflann og þar af leiðandi um kjör fiskimanna og skiptin milli annars vegar útgerðar og áhafnar og hins vegar þeirra skipta sem viðgangast í kvótakerfinu. Sá sem á veiðiréttinn fær alltaf stóran hluta af laununum þegar hann leigir frá sér aflamark til annarrar útgerðar sem þarf á því að halda.

Því miður er hér innan lands verð afar hátt, reyndar óeðlilega hátt að mörgu leyti tel ég, og hefur ýmis áhrif innan kerfisins. Ég hef stundum orðað það svo, hæstv. forseti, að arðsamasta einingin fyrir kvótaeigandann væri leiguliðinn, sá sem greiðir leiguverðið fyrir óveiddan fisk áður en útgerðin og sjómaðurinn geta farið að veiða. Kvótaréttarhafinn tekur til sín gríðarlegan part af fiskverðinu og fiskverðsmynduninni út á þann eina rétt að hafa fengið úthlutað aflahlutdeild af hálfu ríkisins.

Þar erum við ekki að tala um neina smápeninga. Við erum að tala um að leiguverð á t.d. þorski í dag leggur sig á 170 og allt upp í 183 kr. á kílóið, óveitt og óséð áður en haldið er til veiða með tilheyrandi kostnaði og því að eiga skip sem nauðsynlegt er til að veiða fiskinn og veiðarfæri, og ráða mannskap á viðkomandi skip.

Við erum ekki að tala um neitt smámál þótt þetta sé lítið frumvarp í sjálfu sér og, eins og hv. þm. Sigurjón Þórðarson orðaði það, hér erum við að setja enn eina bótina á þetta kerfi. Við erum auðvitað að fjalla um þetta mál út frá því að við erum með lögin um stjórn fiskveiða í gildi eins og þau eru, þ.e. kvótakerfislögin, þar sem mönnum er úthlutað aflahlutdeildum í mjög mörgum fisktegundum, allt of mörgum að því er ég tel. Ef menn á annað borð ætluðu að nota kvótakerfi eru þeir komnir algerlega út í móa með það að tína til alls konar fisktegundir, t.d. í almennum botnfiskveiðum, inn í kvótakerfið og langt út fyrir þann tilgang að ná einhverri stýringu á meginstofnana í veiðinni, ef menn væru að hugsa um það.

Væntanlega vita flestir að við í Frjálslynda flokknum höfum ekki aðhyllst þá aðferð sem notuð hefur verið hér við stjórn fiskveiða á undanförnum árum og höfum marglagt til að lagt yrði af stað í endurskoðun á því kerfi og breytingar. Meira að segja höfum við lagt til hvernig við teldum best að fara í þær breytingar, með því að nálgast verkefnið með fjórum aðgreindum útgerðarflokkum gróflega skipt með reglugerðum og lagagrunni og svo byrjuðu menn að fást við það að ná fisktegundum út úr kvótakerfinu og að sjálfsögðu að reyna að gefa veiðarnar frjálsar í útgerðareiningunum í skrefum og vinna sig þannig til meira frjálsræðis og annarrar hugsunar en við höfum viðhaft á undanförnum árum.

Hugsunin hefur byggst á því, eins og ég segi, að úthluta aflahlutdeild sem er í raun og veru prósenta sem útgerðarmenn hafa á milli ára, og út á hana úthluta menn svo tonnum eða kílóum eftir því hversu mikið fiskifræðingar leggja til að veitt skuli á hverju ári og hvað ríkisstjórnin leggur til að fenginni þeirri ráðgjöf. Að mestu leyti hefur ríkisstjórnin farið eftir tillögum fiskifræðinga í botnfisksveiðunum. Þó eru þar á undantekningar og nægir að minna á síðustu alþingiskosningar. Í aðdraganda þeirra fann Davíð Oddsson allt í einu, þegar hann var staddur norður á Akureyri, 30 þús. tonna viðbót í þorski. Það var náttúrlega ákaflega snjallt hjá fyrrverandi forsætisráðherra að finna allt í einu út að þörf væri á því að skella því inn rétt fyrir kosningar. (Gripið fram í: Er bolludagur?) Ég man ekki hvort það var bolluinnkoma á þessum tillögum hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra. Það kann vel að vera. Hann aðhafðist ýmislegt á bolludögum.

Viti menn, Hafrannsóknastofnun sem hafði varað við því að jafnvel væri verið að veiða of mikið komst að þeirri niðurstöðu hægt og rólega að sennilega væri smuga fyrir þessi 30 þús. tonn sem Davíð fann, fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra, þau voru sett inn og aukið við. Mikil bjartsýni ríkti rétt fyrir kosningarnar vorið 2003.

En ekki nóg með það, menn fundu líka línuívilnun til viðbótar þessu. Sú línuívilnun fannst eftir að Davíð hafði, aldrei þessu vant, brugðið sér inn í beitningarskúra í Bolungarvík og hitt þar mjög ákafa sjómenn sem rökræddu við hann um að mönnum væri ekki stætt á því að búa ekki til eitthvert kerfi sem byggi til meiri aflaheimildir og verðlaunaði línuna.

Út af fyrir sig er það gilt sjónarmið því að þar virðist maður stuðla að vistvænum veiðum og efla þá útgerð sem mjög margir fiskverkendur sækjast eftir. Við erum með menn líka í fiskverkun með mjög misjafna aðstöðu. Við erum með fiskverkendur sem eru í samtökum fiskvinnslustöðva án útgerðar sem kaupa nánast allan sinn afla á fiskmörkuðum. Þeir hafa í gegnum árin og áratugina oft og tíðum verið frumkvöðlar í að finna nýja markaði og tryggja hæsta verð fyrir þann afla sem þeir hafa keypt þótt þeir hafi keypt kílóið 100 krónum dýrara en hefur verið samið um í föstum viðskiptum hjá þeim útgerðum sem taka afla úr eigin skipum. Þetta er bara söguleg staðreynd, hæstv. forseti, og því miður er það enn þá svo í dag að menn eru langt fyrir neðan markaðsverðið, þ.e. í föstu viðskiptunum.

Það er auðvitað ekki hægt að líta öðruvísi á en svo að það sé ákveðin meðgjöf. Við verðum hins vegar líka að líta á það að margar af þessum fiskvinnslum, sem eru að reka sig og reyna að gera út að hluta til, leigja líka til sín mikið magn af veiðiheimildum á hverju ári og borga kvótaréttarhöfunum óhemju fé fyrir það, tugi og jafnvel hundruð milljóna á hverju einasta ári svo að þær geti haldið úti vinnslu sinni.

Samkeppnisaðstaðan er þess vegna mjög skökk í sjávarútveginum, hæstv. forseti, og þetta frumvarp lagar það ekki. Það er í heildina tekið það vonda við þetta frumvarp að það lagar ekki samkeppnisaðstöðuna. Þó að því sé ætlað að reyna að draga úr ósanngirninni og styrkja réttarstöðu áhafna að því leyti að þær fái betri fiskverðssamninga mun það aldrei ná því að menn sitji við sama borð.

Við höfum flutt hér frumvarp í nokkur ár, ég og hv. þm. Jóhann Ársælsson, um fjárhagslegan aðskilnað veiða og vinnslu sem hefur m.a. byggt á þeirri hugsun að hér tækju eðlileg viðskipti við, það væri séruppgjör fyrir fiskvinnslu og séruppgjör fyrir útgerð innan sama fyrirtækis og menn sæju glöggt hvernig fjárstraumar lægju í þessum geira. Í þeirri tillögu höfum við líka lagt til að grundvöllur verðmyndunar á sjávarfangi á Íslandi væri markaðsverðið, og ferskfisksmarkaðirnir sæju um verðmyndunina, fiskur væri almennt seldur á markaði og til þess mundi væntanlega draga ef tillaga okkar um fjárhagslegan aðskilnað í veiðum og vinnslu hefði náð fram að ganga.

En hún hefur auðvitað ekki náð fram að ganga, hæstv. forseti, vegna þess að ríkisstjórnin vill ekkert taka upp svona eðlilega viðskiptahætti í sjávarútvegi. Það er verið að stuðla að allt öðru. Þetta frumvarp er þess vegna enn ein bótin í að reyna að viðhalda núverandi kerfi. Þó er í því þessi viðleitni, eins og ég gat um áður, að það er verið að reyna að bæta hag þeirra sjómanna sem verða fyrir því að þurfa að taka þátt í leiguverðinu, þessu ofurháa leiguverði sem er orðið á fiskveiðiheimildum hér á landi. Það hefur m.a. valdið því að frá árinu 1995 og fram til ársins 2006 hafa skuldir sjávarútvegsins vaxið úr rétt rúmum 95 milljörðum upp í tæplega 300 milljarða kr. án þess að afkoman í endanlegu útflutningsverði sjávarafurða hafi vaxið í neinu samræmi við þessar tölur.

Hvers vegna skyldi þetta gerast svona, hæstv. forseti? Jú, vegna þess að útgerðarmenn fá á hverju ári úthlutað aflahlutdeild sem þeir eru verndaðir með að fá að njóta eins og þeir vilja með þeim lögum sem nú eru til um stjórn fiskveiða, verðmyndun á sjávarfangi o.s.frv. og því kerfi að menn eru leiguliðar þeirra sem aflaheimildirnar hafa.

Þó að stærri útgerðirnar margar geri sjálfar út á aflaheimildir sínar leigja þær vissulega mikið frá sér en þær eru líka í fiskvinnslu og þegar skoðað er það verð sem þau skip fá sem veiða eigin aflaheimildir hjá hinum stóru fyrirtækjum kemur í ljós, hæstv. forseti, að það verð er oft og tíðum jafnvel lægra en sumir menn fá fyrir fiskinn sem þeir selja á uppboðsmörkuðum þótt þeir leigi til sín aflaheimildir. Þetta er nú hinn skrýtni veruleiki.

Það sem við ættum að vera að fást við er í fyrsta lagi að einfalda kvótakerfið og stefna hægt og rólega út úr því með lagfæringum og breytingum. Við teljum að sú aðferð sem við í Frjálslynda flokknum höfum lagt til sé algjörlega fær til þess að gera það á einhverjum árum eftir ákveðnu kerfi. Við ættum að tína fisktegundir út sem við þurfum ekki að hafa til þess að ná stjórn á veiðunum eins og í almennum botnfiskveiðum. Við ættum að sjá til þess að hér væri eðlileg verðmyndun í sjávarútvegi. Við ættum að sjá til þess að þeir sem vinna í sjávarútveginum, fiskvinnslurnar, sem eru bæði innan og utan útgerðar sætu við sama borð á viðskiptalegum grundvelli að því er varðaði fiskkaup og verðmyndun. Við ættum að sjá til þess að leigukvótaverð þvældist ekki með neinum hætti inn í nein viðskipti að þessu leyti til.

Veiðirétturinn ætti að vera nýtingarréttur í hvaða veiðikerfi sem við útfærðum og ef menn vildu ekki nýta þann rétt gætu þeir svo sem skilað honum aftur og þá væri hægt að setja upp annaðhvort leigukerfi á aflaheimildum á ákveðnu markaðsverði á ákveðnum leigumarkaði fiskheimildanna eða leigukerfi á dögum, ef menn nota þá aðferð, innan þeirra flotaeininga sem menn vilja stýra hverju sinni og þess vegna innan landsvæða ef menn vilja tryggja það að hafa áhrif á byggð og atvinnu í byggðarlögum.

Það hefur aldrei verið gert í þessu kvótakerfi að öðru leyti en því að við erum með smápott sem kallaður hefur verið byggðakvóti, nánast viðlagakvóti sem er ætlað að bregðast við uppákomum eða ef skortir aflaheimildir í byggð, ef það verður hrun í sérstökum veiðiheimildum byggðarlaga eins og t.d. innfjarðarrækju og hörpuskel eins og þekkt er úr Breiðafirði. Þá er þessum viðlagaákvæðum ætlað að koma þar til mótvægis og síðan er þeim ætlað að koma til mótvægis við það ef útgerðarmaður aðhefst það sem honum er heimilt í dag samkvæmt þessum lögum, þ.e. að selja allan veiðiréttinn úr viðkomandi byggðarlagi.

Þess vegna er það að hafa byggðastefnu við hliðina á svona kerfi nánast markleysa fyrir sjávarútvegsbyggðirnar. Menn hafa ekki hugmynd um það frá degi til dags hvort aflaheimildirnar sem eru undirstöðuréttur byggðanna og fiskvinnslunnar í viðkomandi byggðarlagi verða þar vikunni lengur eða skemur.

Þetta er ofboðslega mikill galli á svona stýrikerfi og við leiðréttum það ekki að neinu leyti þótt við tökum að hluta til á þeim vanda sem hér er lagaður til.

Þess vegna er það rétt að við erum hér með bót á þetta kerfi, eina bótina enn, og eru þær orðnar margar í gegnum tíðina, hæstv. forseti, og bráðabirgðaákvæðin í lögum um stjórn fiskveiða eru eins og allir vita nánast jafnmörg og lagagreinarnar, ef ekki fleiri. Við því verður ekki séð með þessu frumvarpi þó að því sé ætlað að taka á þeim vanda sem hæstv. ráðherra lýsti hér, enda nær það ekki utan um vandamálið. Grunnurinn og uppsetningin á kvótakerfinu í heild sinni eru þannig að við komumst ekki frá kerfinu eins og það er með þeim innbyggða vanda sem í því er.

Kerfið er skuldahvetjandi fyrir sjávarútveginn. Hvers vegna er það, hæstv. forseti? Vegna þess að menn selja sig út úr kerfinu og taka til sín fjármunina. Með stighækkandi aflaheimildum og hærri veðsetningu bankanna miðað við það verðmæti sem menn ímynda sér að hægt sé að fá fyrir óveiddan fisk eykst skuldsetningin.

Peningar detta ekki af himnum ofan í þessu kerfi. Þeir eru venjulega teknir að láni í lánastofnunum þegar menn ætla út úr kerfinu og venjulega er greitt hærra verð fyrir aflaheimildir fyrir þann sem er að fara út í fyrra og enn þá hærra í ár og svo koll af kolli. Heimildirnar hækka í verði og eru núna komnar upp í þær hæðir, og reyndar upp fyrir þær, sem íslenskir útgerðarmenn kölluðu algjört brjálæði og pappírsviðskipti sem engin von væri til að geta staðið undir þegar rætt var um verðmætið á aflaheimildum Grænlendinga sem þeir létu menn í Evrópusambandinu hafa með þeim samningum.

Við erum sem sagt að komast upp í það verð, 2.500–2.600 kr. á óveitt kíló. Það var útreikningsverðið, ef ég man rétt en ég er ekki með þessar tölur fyrir framan mig, sem Landssamband íslenskra útvegsmanna komst að fyrir nokkrum árum að væri algjörlega óraunhæft og út úr öllu korti, þetta væru bara hreinlega pappírsviðskipti og verið væri að borga mönnum fyrir veiðiheimildir sem aldrei næðist að hafa upp í með útgerðarkostnaði. En við erum sennilega á þeim stað núna, hæstv. forseti.

Um þetta væri hægt að hafa enn lengra mál en ég hef hér rakið en ég verð að segja að því miður náum við ekki utan um vandamálið sem við erum að fást við með þessu frumvarpi. Þó að ég skilji vilja sjávarútvegsráðherra til þess að reyna hér að bæta um frá því sem nú er er vandamálið einfaldlega innbyggt í kerfið. Hef ég þó ekki komið að því, hæstv. forseti, að við leigu innan kerfisins er sjálfvirkt vandamál sem býður upp á það að velja úr stærð fisksins. Það er vandamál sem kemur sér afar illa og er stórhættulegt í allri stjórn fiskveiða, þegar hvatinn í umgengninni um sameignina er slíkur að menn þurfa að ná í hæsta verð til að geta staðið undir því leiguokri sem þeir þurfa að mæta miðað við það sem er í dag.

Þess vegna er það að við erum með val úr fiskinum á miðunum innbyggt í kerfið. Þó að við höfum reynt að setja bætur á það kerfi, m.a. með svokölluðum Hafró-afla þar sem menn geta landað í sérstaka verðlagningu sem ekki reiknast þá inn í kvótann, höfum við samt ekki náð utan um það. Vissulega hefur dregið að einhverju leyti úr því brottkasti sem menn hafa talað um. Þó komst Hafrannsóknastofnun að þeirri niðurstöðu á síðasta ári að það væru þó nokkur þúsund tonna sem enn væru sett fyrir borð með vali úr aflanum. Þar er talað um veruleg verðmæti, hæstv. forseti.

Ég sé að tíma mínum er að verða lokið og geri það að tillögu minni að það frumvarp sem hér er verið að ræða fái verðuga og góða yfirferð í hv. nefnd, en sé ekki að við náum því endanlega markmiði að ýta kvótabraskinu út úr uppgjörum sjómanna með þessum hætti. Það kann samt að vera að einhvers staðar í þessu leynist sú útfærsla að það megi gera með því að bæta hér í umfram það sem sagt er í frumvarpinu. Aðalvandamálið er það að kerfið er svona uppbyggt og því breytum við ekki með einni lagfæringunni enn.