Breyting á IV. viðauka við EES-samninginn

Fimmtudaginn 01. mars 2007, kl. 18:31:31 (5834)


133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

breyting á IV. viðauka við EES-samninginn.

648. mál
[18:31]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 146/2005 um breytingu á IV. viðauka við EES-samninginn.

Með ákvörðuninni eru fjórar gerðir felldar inn í samninginn. Um er að ræða reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1228/2003 um skilyrði fyrir aðgangi að neti fyrir raforkuviðskipti yfir landamæri, tilskipanir Evrópuþingsins og ráðsins 2003/54/EB um sameiginlegar reglur um innri markaðinn fyrir raforku og 2003/55/EB um sameiginlegar reglur um innri markaðinn fyrir jarðgas, ásamt ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2003/796/EB um að koma á fót evrópskum hópi eftirlitsaðila með rafmagni og gasi.

Gerð er grein fyrir efni ákvörðunarinnar í tillögunni og er hún prentuð sem fylgiskjal með henni ásamt þeim gerðum sem hér um ræðir. Ákvörðun þessi kallar á lagabreytingar hér á landi og var tekin af sameiginlegu EES-nefndinni með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu.

Gerðirnar sem hér um ræðir mynda svokallaðan orkupakka framkvæmdastjórnar ESB sem samþykktur var í júní 2003. Markmiðið með setningu þeirra er að skapa sanngjarnar leikreglur varðandi gegnumflutning raforku yfir landamæri og auka þannig samkeppni.

Lagðar eru reglur varðandi skipulag raforku- og jarðgasgeirans með því að setja sameiginlegar reglur fyrir framleiðslu, flutning, dreifingu og sölu á raforku og gasi. Enn fremur er komið á fót sérstökum hópi sem er framkvæmdastjórninni til ráðgjafar í málum varðandi raforku og gas. Rétt er að taka fram að sérfræðingum frá EES-ríkjunum er heimilt að sitja fundi hópsins sem áheyrnaraðilar.

Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/54/EB kallar á smávægilegar breytingar á raforkulögum nr. 65/2003, og þá einna helst varðandi aðskilnað rekstrarþátta dreifiveitna.

Í 15. gr. tilskipunarinnar er að finna undanþáguheimild varðandi kröfur um aðskilnað fyrir orkufyrirtæki sem hafa færri en 100 þúsund tengda viðskiptavini eða þjónusta lítil einangruð kerfi. Allar dreifiveitur á Íslandi eru undir þeim mörkum. Unnið er að lagabreytingum og innleiðingu gerðanna í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu.

Ég legg til, virðulegi forseti, að að lokinni umræðu verði tillögunni vísað til síðari umræðu og til hv. utanríkismálanefndar.