breyting á IV. viðauka við EES-samninginn.
Virðulegi forseti. Við getum auðvitað rætt lengi um þessa forsögu. Ég man eftir þessum umræðum, þær voru mjög hátt á lofti í hinni pólitísku umræðu á sínum tíma, en á þessum tíma héldu íslensk stjórnvöld þannig á hagsmunum okkar að ég tel að þar hafi verið eðlilega að verki staðið. Stjórnvöld voru mjög vel á verði og það var ítrekað fjallað um efni tilskipunarinnar á fundum í vinnuhópum EFTA um orkumál og á óformlegum fundum vinnuhópsins með fulltrúum framkvæmdastjórnarinnar. Það bendir ekkert til þess að íslensk stjórnvöld hafi ekki verið vakandi fyrir hagsmunum okkar.
Á þessum tíma var endurskoðun á skipun raforkumála á Íslandi hafin. Hugmyndirnar á þeim tíma voru í anda tilskipunarinnar að vissu leyti og hún var í samræmi við þau sjónarmið sem voru að ryðja sér til rúms varðandi skipulag raforkumála á þessum tíma en það var alveg ljóst að ESB var ekki tilbúið til að fallast á að Ísland fengi undanþágu frá tilskipuninni í heild. Við upptöku tilskipunarinnar sömdu íslensk stjórnvöld um undanþágur frá henni vegna lítilla og einangraðra kerfa og að þær undanþágur næðu til Íslands þrátt fyrir að raforkukerfi landsins væri tvöfalt stærra en kveðið var á um í skilgreiningu tilskipunarinnar um lítil og einangruð kerfi. Þá var einnig samið um tveggja ára viðbótaraðlögunartíma vegna innleiðingar tilskipunarinnar hér á landi.
Virðulegi forseti. Ég býst við að það sé sama hvað við ræðum lengi um forsöguna í þessu máli, að það breyti ekki miklu hvort eð er, menn hafa bara mismunandi sýn á þetta mál eins og hér hefur komið fram.