breyting á IV. viðauka við EES-samninginn.
Hæstv. forseti. Jú mikið rétt. Hæstv. ráðherra hefur alveg rétt fyrir sér í því að við höfum mismunandi sýn á þessu mál. Það hefur komið á daginn að stjórnarmeirihlutinn á Alþingi er mjög sáttur við þessa tilskipun. Í mínum huga fór ríkisstjórnin á sínum tíma kannski fyrst og fremst að ráðleggingum orkufyrirtækjanna. Það kom fram í máli hæstv. ráðherra áðan að Orkustofnun og Samorka hefðu komið að þessu máli í byrjun, það er alveg rétt. Ég veit til þess að orkufyrirtækin hafa alltaf viljað að þessi tilskipun yrði innleidd og hafa sótt það fast að raforkumarkaðurinn hér á landi yrði markaðsvæddur á þeim nótum sem gert var.
Hæstv. ráðherra segir að ríkisstjórnin hafi staðið eðlilega að verki að hennar mati og það bendi ekkert til þess að íslensk stjórnvöld hafi ekki verið vakandi fyrir hagsmunum Íslendinga.
Hæstv. forseti. Hvernig stendur þá á því að raforkuverðið er farið að hækka núna í framhaldi af innleiðingu tilskipunarinnar um breytingu á raforkulögum okkar? Ekki eru það hagsmunir íslenskra neytenda að raforkan hækki. Auðvitað ekki. Ríkisstjórnin er uppvís að því að hafa ekki gætt hagsmuna íslenskra neytenda í þessum efnum.
Ég tek enn og aftur undir orð hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar áðan. Ég tel að sú tilskipun sem hér er til umfjöllunar geti vel beðið og að ekki þurfi að eyða tíma í að skoða hana í utanríkismálanefnd á þeim örfáu dögum sem eftir lifa af þinginu.