breyting á IV. viðauka við EES-samninginn.
Virðulegi forseti. Ég gat ekki annað en vakið athygli á því að það hefur dregist svo lengi að leggja málið fyrir þingið að varla er hægt að líta fram hjá því. Íslendingar áttu að vera búnir að lögfesta breytingarnar sex mánuðum eftir fund sameiginlegu nefndarinnar sem var 2. desember 2005 og við erum komin tíu mánuði fram yfir það.
Það má vel vera rétt að skortur sé á þýðingarþjónustu og þess vegna tefjist málið svona lengi. Ég bendi samt á að þessi tilskipun er frá árinu 2003 og ég býst við að íslensk stjórnvöld hafi fylgst með aðdragandanum að gerð þeirrar tilskipunar og tekið þátt í þeirri gerð að svo miklu leyti sem kostur var. Tíminn til að þýða innihaldið er miklu lengri en frá 2. desember 2005 og það gengur þá mjög hægt að þýða ef þetta er raunin.
Í sjálfu sér er það kannski ekki stóra málið heldur hitt að þetta virðist vera tilgangslaus reglugerð og um það vil ég spyrja ráðherra af því að ég hef ekki áttað mig á innihaldinu til að geta svarað því með sjálfum mér: Felst í þessu, ef þetta verður lögfest, skylda íslenskra stjórnvalda til að beita sér fyrir því að tengja íslenska raforkumarkaðinn erlendum raforkumarkaði, t.d. að vinna að því að flytja raforku út með sæstreng jafnvel þó að íslensk stjórnvöld eða íslenskir aðilar teldu það ekki hagstætt?