Breyting á IV. viðauka við EES-samninginn

Fimmtudaginn 01. mars 2007, kl. 18:58:18 (5845)


133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

breyting á IV. viðauka við EES-samninginn.

648. mál
[18:58]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu. Ég er ekki búinn að skoða þessa tilskipun en vil aðeins segja að Alþingi hefur áður brennt sig illa á því að samþykkja tilskipanir ESB að óathuguðu máli. Það hefur verið rifjað upp hvernig fór fyrir okkur, eða öllu heldur meiri hlutanum á Alþingi, þegar tilskipun um nýskipan á raforkumarkaði var samþykkt á fyrra kjörtímabili samstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks en síðar meir kom á daginn að ýmsir stjórnarliðar hefðu gjarnan viljað fara hægar í sakirnar og óska eftir frestun eða undanþágu öllu heldur frá þeirri tilskipun.

Ég kom fyrst og fremst hingað upp, hæstv. forseti, til að mótmæla því sem fram kom hjá hæstv. ráðherra að tilskipanir Evrópusambandsins á sviði raforkumála og nýskipan á því sviði hafi orðið neytendum til góðs. Það má vel vera að það eigi eftir að gerast einhvern tímann en svo hefur ekki gerst. Vitna ég þar í skýrslur frá Evrópusambandinu sjálfu, nú síðast seint á síðasta ári. Evrópusambandið birtir árlega skýrslu um framvindu mála og markaðsvæðing raforkukerfisins hefur ekki verið til hagsbóta fyrir neytendur. Þetta er viðurkennt og nú síðast hér opinberlega af þeim aðila innan Evrópusambandsins sem fer með raforkumál og var gestkomandi á Íslandi fyrir nokkrum missirum, Piebalg minnir mig að hann hafi heitið, frá Eystrasaltinu, harðlínufrjálshyggjumaður sem sagði okkur að sá tími ætti eftir að renna upp að þetta yrði allt til góðs, en því miður væri það ekki svo. Markaðsviðskipti væru minni en menn hefðu talið að yrði og verðlagið hefði ekki þróast á þann veg sem menn hefðu vonast til. Þetta er því ekki rétt staðhæfing.